Vinkona okkar lýgur og hefur minnimáttarkennd

Spurning:

Sæll.

Við erum þrjár 15 ára vinkonur og eigum eina vinkonu sem á við
vandamál að stríða (eða það höldum við). Málið með hana er að hún lýgur rosalega mikið og verður altaf sérstaklega slæm í kringum jólin. Það er eins og hún sé öfundsjúk út í okkur út af því við eigum betri fjölskyldulíf. Okkur finnst að fjölskyldan hennar sinna hvorki henni né
systkinum hennar nógu vel. Þar sem foreldrar hennar eiga bar og eru oft að vinna sér hún aðallega um systkinin sín. Í sambandið við lygarnar hennar þá hefur hún logið síðan hún við lítil og t.d. í 6. bekk sagði hún að pabbi sinn hefði verið að beita hana kynferðislegu ofbeldi, en þegar foreldrar hennar komust að þessu sagði
hún að þetta hafi verið lygi. En við erum samt ekki alveg vissar um að þetta sé lygi vegna þess að þegar hún hefur verið með strákum þá forðast hún þá og þorir ekki að vera ein með þeim. Getur þessi
hegðun hennar bent til þess að hún hafi verið beitt kynferðislegu
ofbeldi því að þetta er ekki feimni. Hún er rosalega hress og lífleg og alls ekki feimin. Hún getur ekki tjáð tilfinningar sínar og ef við reynum eitthvað að tala við hana þá fer hún bara í vörn.

Í sambandi við lygina þá ýkir hún mjög mikið og ef eitthvað gerist
hjá okkur, hvort sem það sé vont eða gott þá gerðist það sama hjá henni bara miklu betra ef hluturinn er góður og verra ef hluturinn er slæmur. Svo segist hún vera að fara til útlanda og t.d. er ein af okkur í hestum og þá er hún núna allt í einu að fá hest í jólagjöf (sem við vitum að er ekki satt).

Við vitum reyndar að hún er með einhverja minnimáttarkennd gagnvart
okkur vegna þess að við erum með betri einkunnir en hún (hún er oft með 2 og 3).

Við vitum ekkert hvað við eigum að gera eða hvort við eigum eitthvað að gera. Það er bara varla hægt að umgangast hana þegar hún lætur svona. Við erum búnar að prófa að fá hjálp frá skólanum en það gekk ekkert. Og í fyrra þá fór hún til sálfræðings í nokkur skipti en það kom
ekkert út úr því. Hann fór meira að tala um námið hjá henni. Við erum
hér ráðalausar og mundum vel þiggja einhver ráð. Geturðu reynt að svara sem fyrst og ef þú hefur einhverjar ráðleggingar um aðra sem geta hjálpað okkur þá er allt vel þegið.

Kveðja og fyrirfram þakkir.

Svar:

Mér sýnist að þið hafið reynt að ræða málin við vinkonu ykkar, sem er gott.
Maður á að styðja við vini sína og taka mið af líðan þeirra. Þið hafið
sterkar skoðanir á alvarlegum hlutum sem þið teljið eiga við vinkonu ykkar.
En stundum getur verið erfitt fyrir þann sem í hlut á að greina á milli þess
hvað er stuðningur og hvað er gagnrýni. Þið gætuð hver og ein reynt að setja
ykkur í sömu spor: Hvernig finndist þér ef þrjár vinkonur þínar hefðu
ákveðnar skoðanir á þínum persónulegu málum eða fjölskyldu þinnar? Myndir þú
hugsanlega fara í vörn? Hvernig þætti þér best að aðrir myndu nálgast erfið
persónuleg málefni þín eða fjölskyldu þinnar?

Fjöldi fólks er órólegur eða kvíðinn fyrir jólin og fyrir því geta legið
margvíslegar ástæður. Ef vinkona ykkar á erfitt með nám þá tel ég gott ef
skólasálfræðingur eða námsráðgjafi ræði þau mál við hana. Þið ættuð að koma
áhyggjum ykkar á framfæri innan skólans, við bekkjarkennara, námsráðgjafa
eða skólastjóra. Skólinn sinnir ekki einugis bóklegum þörfum nemenda sinna
og á að bregðast við ef um vanlíðan eða samskiptavanda er að ræða.

Ef vinkona ykkar er viðkvæm fyrir skoðunum ykkar þá getur verið betra að
hvetja hana til að leita ráðgjafar sjálf hjá óháðum aðila, innan skólans eða
utan. Ef vinkona ykkar vill leita sér sálfræðiaðstoðar þá getur hún leitað
eftir henni innan skólans. Eins getur hún farið á skrifstofu
félagsþjónustunnar í hverfinu sínu og beðið um ráðgjöf. Félagsþjónustan
býður upp á margs konar aðstoð, þ.a.m. sálfræðiaðstoð.

Kveðja,
Halldór Hauksson , sálfræðingur