Spurning:
Við erum hér 3 konur sem eru í vandræðum með vinkonu okkar. Vandamálið er að við erum hættar að trúa henni þegar hún lendir í veikindum eða öðrum vandræðum sem eru yfirleitt mjög slæm. Núna segist hún vera með æxli í nýrum og heiladingli og að hún sé í rannsóknum vegna þess, þetta kom upp hjá henni í september og alltaf kemur hún með nýjar uppl, um veikindin. Hún segist ekki enn þá vera búinn að fá svar frá lækninum hvort um krabbamein sé að ræða eða æxli. Alltaf þegar við spurjum hana hvenær svarið kemur lengist byðin það nýjasta var að svarið komi í janúar. Við höfum áhyggjur af henni og höldum að hún eygi við geðræn veikindi að stríða. Hún lýgur mjög oft og virðist trú því sem hún segir. Við viljum hjálpa henni út úr þessum veikindum . Hvað getum við gert?
Svar:
Ef að þið gætuð rætt þetta opinskátt við hana væri það sennilega það allra besta og með það í huga að vera búnar að finna leiðir sem hún gæti farið sé hún tilbúin. Það væri best að segja henni með vinsemd og virðingu að þið skynjið að eitthvað sé að og að þið séuð tilbúnar að hjálpa henni og sýna henni skilning. Það er möguleiki að fara á göngudeild Landspítalans við Hringbraut, þar er hægt að fá greiningarviðtal og best að koma með morgninum. Ef hún gæti hugsað sér það væri gott ef einhver færi með henni því það getur verið einhver bið. Annars er móttakan opin frá 08.00-23.00 virka daga og 13.00-21.00 um helgar. Eins er hægt að leita til geðlækna á stofu en það tekur alltaf einhvern tíma að fá tíma hjá þeim. Vona að ykkur gangi vel. Verið endilega aftur í sambandi ef þið viljið.
Kær kveðja.
Auður Axelsdóttir iðjuþjálfi Geðhjálp