Vítamín og dagskammtar

Fyrirspurn:

Góðan daginn, mig langar að spyrja í sambandi við að taka inn E vítamín og sínk.  Nú tek ég fjölvítamíntöflu daglega sem í eru : 10 mg E vítamín = 100% RDS og 15 mg sínk =100 % RDS.

Spurningin er, ef að mér hefur verið ráðlagt að taka inn auka E vítamín ( 1 töflu ) og auka sínk ( 1 töflu ) væri það í lagi í einhvern tíma ( hversu langann ?) eða væri þá betra að sleppa fjölvítamíninu á meðan ?

Nú sé ég td að í þessum sömu vítamíntöflum er td RDS af  B12 3yg ( finn ekki táknið fyrir þetta á lyklaborðinu ) en það samsvarar 300% af RDS fyrir B12 ?

Fyrirfram takk fyrir svör ef hægt er.

kær kv 

Svar:

Sæl.

E-vítamín veldur afar sjaldan eiturverkunum og þyrftu skammtar þá að vera gríðar stórir í einhvern tíma. Ég tel því óhætt að tekið sé meira magn í einhvern tíma en ráðlagður dagskammtur segir til um liggi fyrir fagleg ráðlegging þess efnis. Þó ber að hafa í huga að heilsusamlegt mataræði ásamt fjölvítamíni tryggir yfirleitt nægilegt magn vítamína, steinefna og snefilefna.

Varðandi sinkið og B-vítamínið er svarið á svipuðum nótum. Þetta er ekki það mikil aukning að skaði gæti hlotist af við töku í stuttan tíma. En aftur má ítreka að sterk rök þurfa að liggja að baki því að borða meira af vítamínum og öðru heldur en ráðlagt er.

__________________________________
Þórir Benediktsson
Lyfjafræðingur