Ýmis einkenni pcos?

Spurning:
Sæl öll,
Mig vantar að fá svör. Þannig er að yfirleitt fæ ég verki vinstra megin um miðjan mánuðinn, þegar ég hef egglos. Ég hef farið til læknis og hann sagði að ég fái blöðrur á eggjastokkana við egglos, og að það sé ekkert til að hafa áhyggjur af. Svo er ég búin að vera að reyna að verða ólétt í um 8 mánuði og ekkert gengur og ég rifja upp það sem læknirinn sagði. Ég er búin að vera að lesa mér til á netinu og sé að ég er með einkenni sem ég gerði mér ekki grein fyrir. Það virðist vera alveg sama hvað ég geri ég er alltaf með bólur í andliti og á baki stundum, ég fæ alltaf nokkur svört hár á hökuna sem ég plokka af, og er með mikinn hárvöxt á löppum og í nára, og svona eins og sportrönd á maga og hárvöxt á fleirri stöðum, sem ég er búin að segja lækni frá en hann sagði að væri eðlilegt. Ég hef þyngst mikið síðustu 3 ár, um 25 kíló, aðallega um magann og er oft spurð hvort ég sé ólétt vegna þessa og þá verð ég mjög viðkvæm og brest jafnvel í grát. Ég sá að það er til eitthvað sem heitir PCOS (Polystic ovarian syndrome) og mér finnst skrítið að læknirinn hafi ekki sagt mér neitt um þetta. Getur verið möguleiki að þetta sé það sem hrjáir mig, og er hægt að lækna þetta? Ég verð mjög þakklát fyrir allar upplýsingar.
Með fyrirfram þökk

Svar:
Mörg af þínum einkennum benda til fjölblöðrusjúkdóms, PCO. Það er hægt að meðhöndla þetta og fer meðferðin að nokkru leit eftir því hvort viðkomandi einstaklingur hefur í hyggju að eignast börn eða ekki þar sem sum lyfin koma reglu á tíðahringinn og auka frjósemi. Fyrst þú ert í barneignarhugleiðingum myndi ég hvetja þig eindregið til að leita til kvensjúkdómalæknis eða innkirtlasérfræðings og fá nánari uppvinnslu m.t.t.  PCO eða annarra vandamála sem geta stuðlað að ófrjósemi.

Takk,

Arna Guðmundsdóttir,
sérfræðingur í lyflækningum og innkirtlasjúkdómum.