20% fólks á aldrinum 40 til 60 ára eru heyrnarskert og margir gera sér ekki grein fyrir því og halda að sá vandi sem þeir verða varir við stafi af einhverju öðru.
Sá sem hefur grun um að hann sé ef til vill með heyrnarskerðingu þarf fyrst að fara í heyrnargreiningu og ef grunurinn reynist réttur þá er ráðlagt að fá heyrnartæki til reynslu. Gott er að hafa einhvern nákomin með sér því ef aðstandendur skilja vel hvers sé að vænta gengur betur að venjast tækjunum.
Um leið og heyrnartæki eru sett upp þarf maður að læra að heyra á ný. Heilinn fær boð um ný hljóð sem hann hefur ekki fengið í langan tíma. Fyrir marga hefst aðlögunartími sem krefst þjálfunar. Í fyrstu finnst manni sum hljóð hávær og þreytandi. Það er mjög eðlilegt. Heilinn vinnur á fullu við að greina hljóðin. Með þolinmæði og jákvæðu hugarfari næst fljótt árangur og tækin verða ómissandi.
Heyrnin skerðist venjulega á löngum tíma og maður er oftast nokkur ár að sætta sig við að hún hafi dofnað og að það þurfi að gera eitthvað í því. Samkvæmt þessu hefur maður smám saman sætt sig við að lifa í fábreyttari hljóðheimi. Maður heyrði t.d. ekki tif í úri, skrjáf í dagblaði, glamur í borðbúnaði, núningshljóð í fötum, fótatak, hvin frá bílvél, fuglasöng eða þyt í laufi.
Að venjast mismunandi hljóðumhverfi
Maður venst heyrnartækjunum fljótar að vera með heima heldur en í meira krefjandi hljóðumhverfi, svo sem í vinnunni eða á mannamótum. Þessar aðstæður geta tekið á og maður getur þurft að leggja töluvert á sig í upphafi. Ef eftirfarandi leiðbeiningum er fylgt næst fljótlega árangur.
- Ef hávaði er í umhverfinu á að snúa baki í mesta hávaðann.
- Í miklu skvaldri, s.s. á veitingastað er best að sitja sem næst viðmælanda og andspænis honum, þá gengur samtalið vel.
- Sitja á tvo til þrjá metra fá sjónvarpinu og hljóðstyrkur þess á að vera hæfilegur fyrir þá sem hafa fulla heyrn. Velja á fjarlægð frá sjónvarpinu eða breyta styrkstilli á heyrnartækjunum þannig að hljóðið sé notalegt. Það sama gildir um útvarp. Því nær sem er setið þeim mun betur heyrist og umhverfishljóðin trufla minna.
Það sem nýjir heyrnartækjanotendur spyrja oftast um
Munu heyrnartæki endurnýja heyrnina?
Heyrnartæki hjálpa upp á heyrnina og bæta hana en þau geta ekki endurnýjað hana fullkomlega. Algengasta heyrnartap stafar af skemmd á örfínum skynhárum í innra eyranu. Þessi skemmd er ólæknandi eins og er.
Hversu langan tíma tekur að venjast heyrnartækjum?
Sá sem hefur verið heyrnarskertur í mörg ár án þess að nota heyrnartæki þarf að fara í gegnum endurhæfingu sem fellst í því að þekkja á ný hljóð sem eru gleymd. Það er mjög mismunandi hversu langan tíma endurhæfingin tekur. Í hreinskilni sagt getur hún verið erfið en í flestum tilvikum er hún mjög auðveld. Mikilvægt er að fara eftir því sem heyrnarfræðingurinn ráðleggur og hafa í hug að um er að ræða þjálfum sem á að skila árangri. Það að ákveða að bæta heyrnina eykur lífsgæði umtalsvert og jafnvel heilsuna.
Geta heyrnartæki skemmt heyrnina?
Nei. Nútíma heyrnartæki vinna þannig að þau draga úr mögnun háværra hljóða þannig að hljóð heyrast vel en ekki of hátt. Heyrnarfræðingur sníður virkni tækjanna að þörfum þess sem notar þau. Heyrnartæki virkja á ný heyrnarsvæði heilans og við það eykst til muna talskilningur.
Hversu lengi endast heyrnartæki?
Venjulega er gert ráð fyrir að heyrnartæki endist að meðaltali í 5 ár. Sum tæki geta enst lengur. Til að lengja endingartíma tækjanna er nauðsynlegt að fara eftir leiðbeiningum sem fylgja með þeim og einnig ábendingum heyrnarfræðings um daglega umhirðu.
Góð heyrn glæðir samskipti.
Þess má geta að rannsóknir sýna að notkun heyrnartækja bætir félags- og tilfinningalíf fólks og hæfni þess til samskipta. Allar nánari upplýsingar má finna á www.heyrn.is
Höfundur greinar
Ellisif Katrín Björnsdóttir, heyrnarfræðingur
Allar færslur höfundar