Allt um hitakóf

Hafir þú upplifað hitakóf, þarftu ekki að vera í neinum vafa, einkennin er greinileg: skyndileg hitatilfinning í andliti og efri hluta líkamans, ef til vill með undanfarandi hröðum hjartslætti og svita, ógleði, svima, kvíðatilfinningu, höfuðverk, máttleysi eða köfnunartilfinningu. Sumar konur verða varar við einhvers konar “fyrirboða”, óþægindakennd rétt áður en kófið byrjar þannig að þær vita að það er á leiðinni. Á hæla hitans kemur kófið sem færir roða og svita fram í húðina. Kannski rennblotnar þú af svitanum eða þú færð einungis svitarák á efri vörina. Í kjölfarið getur sett að þér hroll sem getur varað í einhvern tíma áður en þér líður eðlilega á ný.

Efnisyfirlit

Hvað veldur hitakófi?

Hitakóf stafa að mestu leyti af hormónabreytingunum sem eiga sér stað á breytingaskeiðinu, en lyf og lifnaðarhættir geta líka átt þar hlut að máli. Minnkuð estrógenframleiðsla hefur bein áhrif á heiladyngjubotninn sem er sá hluti heilans sem stjórnar matarlyst, svefnstigum, kynhormónum og líkamshita. Einhvern veginn (ekki er vitað hvernig) gerist það þegar estrógenmagn minnkar að heiladyngjubotninn – sem stundum er kallaður hitastillir líkamans – ruglast í ríminu og sendir skilaboðin “það er of heitt”.

Heilinn bregst við boðinu með því að senda út allsherjar viðvörun til hjarta, æða- og taugakerfis: “Lækkið hitann!” Boðin eru send áfram með boðefnum taugakerfisins, epínefríni (adrenalíni) og skyldum efnum: Noradrenalíni, prostaglandíni og serótóníni. Boðin komast samstundis til skila. Hjartað dælir hraðar, æðarnar í húðinni víkka til að hleypa í gegn meira blóði til að senda út hitann og svitakirtlar losa svita til að kæla líkamann enn frekar.

Þessi búnaður líkamans sér til þess að líkaminn ofhitni ekki í veðurhitum. Þegar ferlið fer hins vegar í gang vegna þess að estrógenmagn hefur minnkað geta ruglingsleg viðbrögð heilans framkallað mikla vanlíðan. Hörundshiti sumra kvenna getur hækkað um allt að tvær til tvær og hálfa gráðu meðan á hitakófinu stendur. Líkaminn kælir sig þegar hann ætti ekki að gera það og þér líður ömurlega: Rennsveitt þegar verst gegnir eða í miðjum nætursvefni.

Hverjar fá hitakóf?

Í Bandaríkjunum eru það um 85% kvenna sem upplifa hitakóf af einhverju tagi á meðan þær nálgast tíðahvörfin (á breytingaskeiðinu) og síðan í eitt til tvö ár eftir að þær hætta að hafa á klæðum. Allt að helmingur kvenna (frá u.þ.b. 20%) halda áfram að fá þau í mörg ár. Þau verða vægari eftir því sem fram líða stundir.

Hafir þú greinst með brjóstakrabbamein, geta hitakófin fylgt sama mynstri og almennt gerist hjá konum. Þau geta hins vegar orðið ákafari og staðið lengur, einkum ef tíðahvörf voru ótímabær og framkölluð af lyfjum eða fyrst eftir að þú ferð að taka inn tamoxifen á meðan líkaminn er að venjast lyfinu. Fyrir kemur, þótt sjaldgæft sé, að konur fá ekki hitakóf fyrr en þær hætta að taka tamoxifen – sem kemur óþægilega á óvart. Hjá þessum konum virðist tamoxifen þróa óvenjulegan hæfileika sem líkir þá eftir eiginleikum estrógens til að takast á við hitakóf.

Töluverður munur er á því hvernig hitakóf haga sér, hvort sem þú hefur fengið brjóstakrabbamein eða ekki. Misjafnt er hvenær þau hefjast, hvað þau standa lengi, hversu oft þau koma og hvernig þau lýsa sér. Kast getur varað í fáeinar sekúndur eða nokkrar mínútur, stundum jafnvel í heila klukkustund. Óháð því, getur liðið um það bil hálftími áður en þér finnst þú verða sjálfri þér lík á nýjan leik. Algengast er að hitakóf fari í gang milli klukkan sex og átta á morgnana og sex og tíu á kvöldin.

Hversu heitt er heitt?

Flestar konur fá væg upp í miðlungsheit köst, en um það bil 10-15% kvenna finna fyrir svo alvarlegum hitakófum að þær þurfa að leita læknis. Hjá konum sem hafa greinst með krabbamein er hlutfall þeirra sem upplifa lamandi hitakóf trúlega miklu hærra. Líklega er mest að marka handahófskannanir í Bandaríkjunum en þær gefa til kynna að um það bil 50-75% kvenna sem taka tamoxifen fái hitakóf, samanborið við 25-50% sem er gefin lyfleysa (sykurtafla).

Því hraðar sem þú ferð í gegnum breytingarskeiðið, þ.e. frá því að hafa reglulegar blæðingar og yfir í engar blæðingar, þeim mun kröftugri má búast við að hitakófin verði. Eftir tíðahvörf framkölluð með skurðaðgerð eru hitakóf yfirleitt mjög slæm og þau geta einnig orðið slæm eftir tíðahvörf framkölluð af krabbameinslyfjum. Hafir þú ekki verið vöruð við hitakófum, gæti skyndilegt og mikið kast gert þig óttaslegna: þér gæti jafnvel dottið í hug að þú værir að fá hjartaslag.

Styrkleiki þeirra hitakófa sem fylgja meðferð með tamoxifeni minnkar að lokum hjá flestum konum eftir fyrstu þrjá til sex mánuðina. Af því að karlkynshormón frá nýrnahettum breytist í estrón í fitu- og vöðvafrumum, fá feitlagnar eða vöðvamiklar konur mun vægari hitakóf en þær sem hafa minni fitu eða vöðva á beinunum. Reykir þú, glata háræðarnar hæfileika sínum til að geisla út hita þannig að hitakófin gætu orðið meiri en ella.

Að yfirvinna hitakóf með náttúrlegum aðferðum

Besta leiðin til að yfirvinna hitakóf er að gera það eftir náttúrlegum leiðum. Hitakóf stafa oftast af því að estrógenmagn í blóði er lítið, en aðrir þættir geta einnig átt þátt í að hitastilling líkamans ruglast. ­ Nýlegar kannanir sýna að lyf gera ekki alltaf gagn­. Í staðinn fyrir estrógenmeðferð væri ráð fyrir þig að skoða fyrst vægari leiðir, að hluta til vegna þess að vitað er að konum sem fengið hafa brjóstakrabbamein er ekki óhætt að fá slíka meðferð – en líka vegna þess að konur skyldu ævinlega byrja á að reyna mildustu aðferðina við að yfirvinna einkenni tíðahvarfa.

Að forðast allt sem getur sett af stað hitakóf

Getir þú áttað þig á hvað það er sem setur af stað hjá þér hitakóf, er hálfur sigur unninn. Skrifaðu hjá þér hvenær þau koma og hvað þú varst að gera eða borða og hvernig þér leið á undan. Margar konur komast að því að stress er efst á lista yfir það sem framkallar hitakóf. Var hitakófið sem þú fékkst á fundinum bara tilviljun eða varstu undir einhvers konar álagi? Var stanslaust álag á þér allan daginn?

Lausn: Minnkaðu álagið. Gefðu þér meiri tíma til að skipuleggja vinnuna, undirbúa þig ef þú þarft að taka til máls, afgreiða verkefni og ná settu marki. Þurfir þú að standa frammi fyrir fólki með fyrirlestur, kynningu eða annað, gefðu þá sjálfri þér tækifæri til að slaka á og kæla þig niður öðru hverju. Reyndu að skipuleggja tímann þannig að þú getir forðast fundarhöld eða erfiðar ákvarðanir þegar líklegast er að þú fáir hitakóf.

Fleira sem getur framkallað hitakóf:

  • áfengi
  • koffín
  • megrunarpillur
  • mikið kryddaður matur
  • heitur matur
  • heit böð
  • gufuböð
  • heit steypiböð
  • heitt rúm
  • heit híbýli
  • lofthiti
  • reykingar

Hollráð og ábendingar

  • Klæddu þig í fleiri en eitt (þunnt) lag svo að þú getir fækkað fötum eftir því sem þér hitnar.
  • Ekki klæðast ull eða gerviefnum og gættu þín á silki. Þá eru eftir bómull, hör, rayon og svo enn meiri bómull. (Líttu á björtu hliðina: Þú sparar að senda föt í hreinsun!)
  • Ekki ganga í rúllukragapeysu. Haltu þig við skyrtur eða blússur sem hægt er að hneppa frá í hálsinn.
  • Hafðu ísvatn við hendina sem þú getur sopið á og kælt þig með innvortis.
  • Þar sem þess er kostur skaltu lækka hitastillinn. Kannski er ástæða til að láta setja upp viftu. Þú gætir líka haft við höndina litla rafhlöðuknúna viftu eða jafnvel bara notað venjulegan blævæng til að svala þér með.
  • Vertu í náttfötum eða náttkjól úr bómull á nóttinni. Svitnir þú mikið á nóttinni, er auðveldara að skipta um þau en rúmfötin.
  • Notaðu rúmföt úr bómull, ekki gerviefnum.
  • Útvegaðu stærra rúm ef þú og rúmfélagi þinn eruð á sitt hvorri hitaplánetunni en viljið samt vera í sama sólkerfi.
  • Farðu í kalda sturtu fyrir háttinn.
  • Prófaðu mild lyf eins og Paratabs eða Panodil (verkjastillandi) og svo Benedryl (róandi) eða Koffinatín (sem er sjóveikilyf). Þurfir þú að mæta einhvers staðar, komdu þá snemma svo þú getir valið þér heppilegt sæti.
  • Notaðu frystinn eftir þörfum. Þess eru mörg dæmi að konur segist hafa bæði heima og í stórmörkuðum rekið höfðið ofan í frysti eða inn í kæliskáp þegar þær fengu yfir sig hitakóf.

Breyting á lifnaðarháttum til að draga úr hitakófum

Hreyfing: Með því að hreyfa þig meira, (t.d. með því að ganga stigana í stað þess að taka lyftu) má draga úr hitakófum og hafa jákvæð áhrif á helminginn af öllum þeim einkennum sem rakin eru til tíðahvarfa eða öldrunar, þar á meðal:

  • Svefnleysi
  • geðsveiflur
  • minnkað sjálfstraust
  • minni kynlöngun
  • þreytu
  • hækkað kólestról
  • heilsufar hjarta, beina og vöðva.

Hreyfing eykur einnig endorfínmagn í blóði og hækkar þar með sársaukaþröskuldinn.

Slökun og streitulosun: Ekki er óalgengt að erfitt reynist að takast á við streitu, einkum þegar þú ferð í meðferð við brjóstakrabbameini. Eitthvað af því sem hér fer á eftir getur þó hugsanlega hjálpað þér að draga úr mjög svo varasömum áhrifum streitu á líkamann:

  • slökunaræfingar
  • öndunaræfingar
  • hugleiðsla
  • sjónsköpun
  • nudd
  • dáleiðsla
  • sund
  • jóga
  • “biofeedback” aðferðir

Breytingar á mataræði: Með tímanum getur fitusnautt mataræði hjálpað sumum konum með hitakóf. Að losna við aukakíló er til bóta, en að missa of mikið eða vera of grönn getur gert einkennin verri. Þegar þú leggur niður fyrir þér breytingar á mataræði skaltu hafa hugfast að náttúrlegur þarf ekki endilega að þýða skaðlaus. Jurtalyf og sojavörur geta skilað árangri af því að þau hafa í sér plöntuestrógen. Þér er hins vegar ekki óhætt að gera ráð fyrir að þér sé hollt að fá estrógen í líkamann vegna þess eins að það kemur úr jurtaríkinu. Ráðgastu við lækninn þinn um þetta atriði.

Kínverskar lækningar: Í kínverskum lækningum er löng hefð fyrir allra handa meðferð við hitakófum. Til eru margs konar hitakóf og Kínverjar eiga lýsingar á þeim öllum. Læknir sem stundar kínverskar lækningar skoðar þig vandlega og fær ítarlega frásögn þína af öllum einkennum, hann hugar sérstaklega að tungunni í þér og púlsinum. Síðan ákveður hann hvort þú stríðir við “heit” tíðahvörf eða “köld”. Séu tíðhvörfin afleiðing af skurðaðgerð eða lyfjameðferð, er yfirleitt talið að kínversk jurtalyf séu ekki nægilega kraftmikil til að losa þig alveg við hitakófin en þau geta dregið úr þeim.

Í kínverskum lækningum felst yfirleitt:

  • Nálastungur sem koma hreyfingu á Kí (kínverska Xi: innvortis vindur, orka eða andi). Fyrir hverja konu sem hefur vantrú á þessari meðferð er önnur sem telur sig hafa fengið bót á hitakófum með nálastungum.
  • Jurtalækningar þar sem margs kyns jurtum er blandað saman til að gera af því seyði (te) sem lagað er að þínum persónulegu þörfum. Sameiginlegt eiga allar þessar jurtablöndur að í þeim er dong quai sem talið er vera plöntuestrógen. Fleiri plöntuestrógen sem konum hafa í alda raðir reynst áhrifarík við að meðhöndla hitakóf er að finna í ginseng, kvöldvorrósarolíu, lakkrísrót, rauðu hindberjalaufi, sarsaparillu, myntu, damiana, motherwort, chasteberry, slöngujurt og villtu yam. Þessi jurtalyf, kínversk eða annars staðar frá, geta reynst áhrifarík í því að draga úr hitakófum, en áherslu verður samt að leggja á það að ekki er vitað hvort óhætt er fyrir konur sem hafa greinst með brjóstakrabbamein að nota þau. Best er því að forðast að nota plöntuestrógen eða nota þau aðeins af ítrustu gát og ævinlega í samráði við lækni. Þeir sem stunda kínverskar lækningar vara einnig konur við að nota kínverskar jurtir upp á eigin spýtur til lækninga.

Vítamín: Sumum konum finnst það hjálpa sér að taka inn E-vítamín á hverjum degi (800 einingar á bilinu 400-1000 IE – alþjóðlegar einingar). Það hefur hins vegar sýnt sig að lyfleysa virðist gera nokkurn veginn sama gagn. Heilbrigðisyfirvöld í Bandaríkjunum mæla með E-vítamíni eða öðru hvoru af eftirfarandi fjörefni: B6 vítamíni, 200-250 mg á dag og Peridin-C (sem inniheldur andoxunarefni) tvær töflur þrisvar á dag. Hjálpi E-vítamín þér er það hið besta mál, en séu einkennin mikil þarftu trúlega á einhverju áhrifameira að halda.

Að draga úr hitakófum með lyfjum

Hafir þú breytt lifnaðarháttum, breytt mataræði og reynt óhefðbundnar leiðir og ekkert gagnað, gæti þér fundist þú tilneydd að grípa til sterkari lyfja sem þú aðeins getur fengið gegn lyfseðli hjá lækni þínum.

Lyf sem lækka blóðþrýsting

Lyf sem lækka blóðþrýsting svo sem clonidín (Catapres-TTS, 0,1 mg plástur sem settur er á líkamann einu sinni í viku) og Aldomet (250 mg tvisvar á dag) geta dregið úr tíðni og styrkleika hitakófa. Þau hafa áhrif á það hvernig háræðar bregðast við skipun heilans um að senda frá sér hita í snatri. Svona lyf verður læknir þinn að skrifa upp á og fylgjast vel með þér. *Hérlendis er clonidín (Catapres) yfirleitt gefið sem töflur en ekki plástur og er skammturinn þá oft ein tafla tvisvar á dag og hver tafla 25 míkrógrömm.

Þunglyndislyf

Væg þunglyndislyf geta stuðlað að því að hindra hitakóf með því að koma jafnvægi á eða stöðva efni í heilanum sem senda út boð um of mikinn hita, epinefrín og serótónín.

Effexor (velafaxine) getur dregið úr hitakófum hjá um það bil 50 til 60 konum af hverjum hundrað sem hafa greinst með brjóstakrabbamein skv. rannsókn sem gerð var af Dr. Charles Loprinzi við Mayo stofnunina. Ástandið lagaðist tiltölulega fljótt; í 80% tilfella þar sem hitakófin löguðust gerðist það fyrstu vikuna sem lyfið var tekið. Aukaverkanir voru vægar þar sem þeirra varð vart á annað borð. Skammturinn var 12,5 milligrömm tvisvar á dag.

Nýlegri rannsókn en sú sem Dr Loprinzi gerði sýndi að sumar konur geta þurft stærri skammt og allt að 75 milligrömmum á dag (*75 mg einu sinni til tvisvar á dag) til þess að lagast til muna. Hægt er að fá lyf sem eru langverkandi. Paxil (paroxetín) virkar á svipaðan hátt og Effexor og er ágætur kostur. Sumar konur þola Paxil betur en Effexor. Mælt er með 10 milligrömmum einu sinni á dag fyrstu vikuna og síðan 20 milligrömmum einu sinni á dag eftir það.

Væg róandi lyf

Bellegral-S hægir á of örri efnastarfsemi heilans. Sé það tekið sjaldan, einu sinni eða tvisvar á dag, getur það reynst nokkuð öruggt og áhrifaríkt – en ekki með áfengi. (Lyfið inniheldur belladonna, phenobarbital og ergotamín.) Phenobarbital getur framkallað svefndrunga og þú getur orðið háð lyfinu því það er vanabindandi.

Lyf sem eru prógesterón-líki

Það hefur sýnt sig að Megace (megesterol acetate) getur minnkað hitakóf hjá um það bil 80% þeirra kvenna sem fá það, og það er einnig talið geta læknað krabbamein sé það tekið að staðaldri í stórum skömmtum. Venjulega er byrjað á að gefa 40 milligrömm af Megace á dag, en það geta liðið nokkrar vikur áður en það fer að virka. Eftir mánuð er skammturinn ýmist minnkaður eða stækkaður eftir þörfum. Hámarksskammtur er 80 milligrömm á dag. Þeim sem geta nýtt sér kosti lyfsins og þola aukaverkanirnar (vökvasöfnun og þembu) gæti farnast vel á þessu lyfi.

Estrógen-meðferð

Hormónameðferð við tíðahvörfum (grein á ensku) eða estrógenmeðferð er trúlega áhrifaríkasta leiðin til að losna við hitakóf, en hún er afar umdeilanleg fyrir konur sem hafa greinst með krabbamein.

Flestir læknir munu mæla gegn estrógenmeðferð til að lækna erfið hitakóf af völdum tamoxifens vegna þess að vitað er að ekki er óhætt að gefa konum estrógen sem hafa fengið brjóstakrabbamein. Auk þess getur estrógenmeðferð dregið úr áhrifamætti tamoxifens. Estrógenmeðferð getur einnig ýkt hugsanlegar aukaverkanir þegar þessi tvö lyf koma saman – svo sem myndun blóðtappa sem gæti borist í lungu og auknar líkur á krabbameini í slímhúð legsins.

Engu að síður gæti læknir þinn lagt til að þú fengir stutta meðferð með smáum skömmtum af hormónalyfi við tíðahvarfaeinkennum til að létta þér yfirganginn, komi í ljós að hitakóf þín eru alvarleg og þú hefur ekki fengið viðunandi bót við þeim þótt þú hafir breytt lifnaðarháttum eða fengið lyf og meðferðir sem ekki styðjast við hormónagjöf.

Slík meðferð ætti aðeins að standa í fáeina mánuði, eftir því hve mikil einkennin eru, og ætti að fjara rólega út síðasta mánuðinn. Dr. John Eden við Konunglega kvensjúkrahúsið í Paddington í Ástralíu rannsakaði áhrif þess að gefa konum sem komnar voru yfir tíðahvörf samtímis estrógenlyf og tamoxifen. Rannsóknin leiddi ekki í ljós nein vandamál af samanlögðum aukaverkunum beggja lyfja væru þau gefin í skamman tíma. Rannsóknarhópur sem kallar sig ECOG (the Eastern Cooperative Oncology Group) er að hrinda af stað rannsókn þar sem áhrif þess að nota lyfin samtímis verða könnuð. Segðu lækni þínum frá þessum upplýsingum og ákveðið saman hvað best er fyrir þig að gera.

Greinin er fengin af vefnum brjóstakrabbamein.is og er birt með góðfúslegu leyfi.

Höfundur greinar