Enn einu sinni er komið að því að blessuð jólin, með öllu sínu tilstandi, nálgast óðfluga. Fyrir mörgum eru jólin kærkomin hvíld frá hversdagsleikanum. Tilhlökkun um jólaljósin, skreytingar, að gleðjast með sínum nánustu, borða góðan mat, taka upp gjafir sem gefnar eru af heilum hug, fara í heimsóknir og hlýða á jólamessu. Sumir gleyma sér þó í kapphlaupinu um að gera jólin sem glæsilegust og uppruni þeirra virðist stundum hverfa í skarkala og græðgi. Auglýsingar dynja á fjölskyldum og erfitt getur verið að útskýra að ekki sé til fjármagn til að koma á móts við allar langanir barnanna, hvað þá hinna fullorðnu
Tilhlökkun eða kvíði
Því miður breytist tilhlökkunin af þessum sökum stundum í kvíða, því að sumir hafa engan veginn efni á þeim glæsilegu dýru jólagjöfum sem auglýsingarnar segja að séu vinsælastar. Þá reynir á hugvit hinna eldri til að gera hið besta úr aðstæðum og vera þess minnug að samkennd og góðar samverustundir eru það sem lifir hvað lengst í huga okkar.
Mér er einnig hugsað til allra þeirra sem á þessum árstíma berjast við erfiða sjúkdóma eða syrgja látinn ástvin og þora varla að leyfa sér að hlakka til. Það þarf hugrekki til að takast á við sorg og ræða við sína nánustu um líðan sína og stundum þarf faglega ráðgjöf. Þeir sem hafa misst heilsuna, ástvin eða jafnvel skilið við maka sinn þurfa að undirbúa jólin í breyttri mynd og þá þarf að hlúa sérstaklega að börnum í þessum fjölskyldum. Sýna að hinir fullorðnu ráði við aðstæður, hafi frumkvæði og jákvæðni til að bera og fá að heyra hvernig börnin myndu helst vilja hafa jólin. Börn hafa ávallt væntingar og það er okkar fullorðna fólksins að reyna að komast til móts við þarfir þeirra og fá þau til að sjá það jákvæða.
Jákvæður hugsunarháttur
Síðan eru aðrir sem fást við einmanakennd, eiga erfiðar minningar þar sem heimilislífið um jólin einkenndust kannski af rifrildi, drykkjuskap, pirringi, vonleysi og sektarkennd. Fyrir þessa einstaklinga geta jólin verið mjög erfiður tími. Þeir sem af einhverjum ástæðum búa við erfiðar minningar og tómleika geta samt ákveðið að búa til nýja hefð. Með jákvæðum hugsunarhætti er hægt að ákveða að það megi vera gaman á jólunum. En það kostar tíma, ákveðni og áhuga að vinna í þessari breytingu alveg eins og öðrum breytingum. Það er undir einstaklingnum sjálfum komið að þora að hlúa að sjálfum sér og sínum nánustu og þá einkum að börnum sínum. Börn elska foreldra sína og þyrstir í að vita að foreldrarnir séu að reyna að gera sitt besta og að þeir sýni börnum sínum hlýju og umhyggju þrátt fyrir erfiðleikana. Stundum er of erfitt heima og þá er mikilvægt að börn hafi stuðning ömmu og afa eða annarra náinna ættingja.
Gleymum ekki að innihald jólanna er kærleikur og samvera. Gjafir sem gefnar eru af heilum hug eru dýrmætari en stórar dýrar gjafir sem gefnar eru í samkeppi um vinsældir eða áhrif. Það þarf að vanda sig í samskiptum við sína nánustu allt árið, njóta þess að eiga þá sem við eigum að og muna að allir eru sérstakir og hafa einhverja kosti sem við getum notið með þeim.
Verum meðvituð um okkur sjálf, nánustu fjölskyldu, vini og vinnufélaga. Njótum samverunnar. Hrós, bros og hvatning kostar lítið, en þú færð það margfalt til baka.
Verum fyrirmynd fyrir börnin okkar og gefum þeim tíma, þau eiga það skilið.
Gleðileg jól!
Greinin birtist fyrst 11.desember 2014 en er nú endurbirt
Höfundur greinar
Salbjörg Bjarnadóttir, geðhjúkrunarfræðingur
Allar færslur höfundar