Ef hreyfing væri til í töfluformi væri það mest ávísaða lyf í heimi.
Líkamsrækt er lífsstíll stendur einhverstaðar skrifað og það er hverju orði sannara. Það er engin auðveld leið til að komast í gott form. Þrátt fyrir þá vísindalegu staðreynd virðast margir enn tilbúnir að eyða peningum í nýjustu ,,skyndilausn” hvers tíma. Hratt! auðvelt! og fyrirhafnarlaust! Hin blákalda staðreynd er að reglubundin hreyfing og skynsamlegt fæðuval er eina raunhæfa leiðin til að komast í kjörþyngd og halda henni varanlega.
Tökumst á við grunnvandann
Vandamálið er að skyndilausnir gefa ekki varanlegan árangur. Það er hægt að lífga upp á útlit gamals húss með því að mála það en ef þú gefur þér ekki góðan tíma til að vinna undirvinnuna fyrst mun málningin fljótt springa og flagna af og því vinnan unnin fyrir gíg. Til að ná raunverulegum árangri þurfum við að takast á við grunnvandann sem væntanlega er hreyfingarleysi og slæmar neysluvenjur. Til að tileinka sér varanlega slíkar breytingar þarf tíma. Að byrja að æfa af miklu offorsi upp á hvern dag er góð leið til þess að gefast upp fljótlega. Þegar við reynum að komast eitthvert eins hratt og mögulegt er gleymum við oft að njóta ferðarinnar. Hvert sem markmiðið er, er engin ástæða til að ná því eins hratt og mögulegt er því umbunin er ekki á áfangastaðnum, það er í rauninni enginn áfangastaður þegar markmiðið er að bæta líkamlegt ástand. Við þurfum stöðugt að nota vöðva líkamans til að viðhalda þoli þeirra og styrk og við þurfum sífellt að reyna á hjarta og lungnaþol til að viðhalda því . Umbunin er upplifunin að ná smám saman árangri, finna betri líðan, sjá heilbrigðari einstakling og bætt útlit í speglinum, finna aukinn styrk, betri svefn og svo mætti lengi telja áfram.
Nauðsynlegt er að byrja á skynsaman hátt, af kappi og ákefð sem hæfir líkamsástandi. Með þeim hætti aðlagast líkaminn jafnt og þétt að æfingunum og minni líkur eru á uppgjöf. Minningin um líkamann undirlagðann af eymslum í vöðvum eftir strangar æfingar er ástæðan fyrir þvi að margir veigra sér við því að drífa sig aftur af stað í ræktina.
En eins og við vitum öll er mikilvægt að hreyfa sig og ávinningar reglubundinnar þjálfunar eru fjölmargir. Því ekki að byrja nú að stunda þjálfun og í þetta skipti að líta á það sem nýja venju sem verður varanlegur hluti af þínu lífi rétt eins og svefninn. Settu þér markmið og gerðu áætlun. Hver er þín fyrri reynsla? Lærum af mistökunum. Hvaða tegund þjálfunar hentar þér? Hvað finnst þér skemmtilegt? Prófaðu þig áfram í rólegheitunum og finndu út hvað virkar fyrir þig. Á nokkurra vikna fresti spyrðu sjálfan þig hvernig þér gangi og gerir breytingar á áætlun þinni eftir þörfum. Nýjar venjur og breytingar taka tíma og krefjast sjálfsaga. Einsettu þér að gefast nú ekki upp eftir nokkrar vikur. Taktu ákvörðun um tegund þjálfunar, æfingatíma, lengd æfinga o.s.frv. og haltu þér við áætlunina. Það er einfaldlega engin góð ástæða sem réttlætir kyrrsetulíf. Hreyfðu þig.
Höfundur greinar
Ágústa Johnson
Allar færslur höfundar