Frekjuköst

Ég vil nammi – og ég vil það núna!

Við erum stödd í matvörubúðinni og viljum drífa þetta af. Barnið okkar er pirrað og við bæði þreytt eftir langan dag í vinnu og leikskóla. Og þá byrjar það. Barnið okkar vill fá nammi. Við segjum: “Nei, ekki núna” og barnið tekur frekjukast í miðri búð, grætur, orgar og hendir sér í gólfið.

Hvað er til ráða?

Á þessum tímapunkti er gott að hafa í huga að skapofsaköst eru eðlileg fyrir börn á leikskólaaldri. Börn á leikskólaaldri eiga erfitt með að bíða eftir því sem þau vilja og verða auðveldlega pirruð. Sér í lagi ef þau eru líka þreytt eða svöng. Þau hafa ekki heldur öðlast hæfnina til að hemja tilfinningar sínar s.s. reiði og pirring né koma orðum almennilega að því hvað þau þurfa eða vilja. Jafnframt eru þau farin að gera sér grein fyrir að þau hafi eigin vilja og láta reyna á hvað þau komast upp með.

Fyrir foreldra

Mikilvægt er fyrir foreldra að halda ró sinni í þessum aðstæðum og nota fá einföld og róandi orð við barnið. Reyna að hunsa frekjukastið þar til það er gengið yfir og leiða athygli barnsins að öðru t.d. gætuð þið beðið barnið að hjálpa ykkur að velja jógúrt eða brauð. Ef barnið nær ekki að róa sig niður er best að fara með það á rólegan stað þar sem það getur jafnað sig t.d. setjast á bekk eða fara út í bíl.

Þolinmæði og hrós

Ef barnið tekur oft frekjuköst í búðinni væri sniðugt að undirbúa búðarferðir með barninu til að minnka líkurnar á frekjukasti. Fyrst og fremst verið þolinmóð, því barnið er að læra hvernig það má hegða sér og hvernig ekki í búðarferðum. Forðist að fara þegar barnið er svangt eða þreytt. Ef þið þurfið að fara á þessum tíma verið með eitthvað snarl fyrir barnið til að borða áður eða á meðan þið eruð í búðinni. Sumar verslanir bjóða meira að segja upp á ávexti fyrir börnin til að borða í búðinni. Passið að hafa búðarferðina stutta, ekki fara í stórinnkaup á þessum tíma dags. Verið með eitthvað dót sem barnið getur leikið sér með. Takið það skýrt fram að þið séuð bara að fara kaupa í matinn en ef það fer ekki að láta illa s.s. gráta og orga þá megi það velja sér t.d. djús eða jógúrt. Fyrir eldri leikskólabörnin væri hægt að leyfa því að velja t.d. að púsla saman um leið og heim væri komið eða lesa stutta bók saman. Mikilvægast af öllu er þó að hrósa barninu þegar það sýnir æskilega hegðun t.d. ,,vá, hvað þú varst dugleg að sitja kyrr í kerrunni í búðinni” eða ,,en hvað þú ert duglegur að ná í ostinn og klósettpappírinn sem ég bað þig um”.

Höfundur greinar