Geta ofskynjunarsveppir verið skaðlegir?
Sumar þeirra sveppategunda, sem þegar er vitað að finnast hér á landi, geta verið varasamar til inntöku vegna þess að í þeim eru efni, sem eru líkamanum óholl og trufla starfsemi hans.
Sumir vímuefnaneytendur fara af stað í ágúst, september og fram í október til þess að leita að sveppum, sem þeir telja sig vita að í sé Psilocybin, og neyta þeirra. Hvort þeir svo þekkja þessa sveppi frá öðrum, sem í eru önnur skaðleg efni, er sjálfsagt undir hælinn lagt. Því má búast við, að með þeim sveppum, er þeir neyta, geti slæðst sveppir sem innihalda önnur virk eitruð efni.
Neysla þeirra getur leitt af sér ýmisskonar truflanir á líkamsstarfsemi, vægar eða jafnvel alvarlegar eitranir. Sérstaklega eitraðar eru þær sveppategundir, sem innihalda hið hættulega eitur cyclopeptide.
Áhætta getur fylgt því að borða ofskynjunarsveppi en stuttu eftir inntöku geta komið fram einkenni eins og
- Höfuðverkur, oft stendur hann yfir í marga klst
- Ofsóknaræði og hræðsla
- Kvíði/kvíðaköst
- Svimi og ringulreið
- Blóðþrýstingsfall
Langtíma áhrif
- Lífshættulegar lifrarskemmdir
- Geðrænar truflanir eins og kvíði
- Stuðlað að því að undirliggjandi geðsjúkdómar komi fram
Áhrifin
Um það bil 20-30 mínútum eftir að sveppanna hefur verið neytt koma fram Psilocybin-áhrif, svo sem roði í andliti, slökun vöðva, aukinn hjartsláttarhraði, útvíkkun sjáaldra, munnþurrkur og ógleði. Skyntruflanir koma meðal annars fram í miklum afbökunum á rúm- og tímaskyni svo og geðslagsbreytingum. Stórir skammtar geta framkallað ofsjónir og afbakanir á snerti- og sársaukaskyni. Afbakanir skynjunar af völdum Psilocybins geta verið skemmtilegar og þægilegar fyrir neytandann, en þær geta líka verið mjög ógnvekjandi, valdið ofsahræðslu og jafnvel framkallað bráðasturlun. Andlit vina, ættingja og ókunnugra geta virst breyta um lit eða lögun, eða skyndilega elst ógnvænlega. Þetta getur gerst meðan á neyslu sveppanna stendur eða eftir á og staðið yfir lengi.
Neyta ofskynjunarsveppa meðfram öðrum vímuefnum
Sé sveppanna neytt með öðrum vímuefnum, breytast einkenni þeirrar eitrunar er sveppirnir valda, yfirleitt aukast einkennin. Vanlíðan eftir neyslu sveppanna getur einnig aukist sé þeirra neytt með öðrum vímuefnum
Eftirköstin
Bráða víman af völdum Psilocybins varir í um það bil 6 klukkustundir. Eftir hana kvarta neytendurnir oft um lasleika, mjög mikla þreytu og djúpt þunglyndi. Krampar virðast stundum geta komið eftir Psilocybin-eitrun, einkum þó hjá börnum.
Ef grunur leikur á að neytt hafi verið eitraðra sveppa er rétt að leita strax til bráðamóttöku, stundum þarf að beita magaskolun til að koma í veg fyrir frekari skaða af völdum eitrunar.
Höfundur greinar
Stefanía Ösp Guðmundsdóttir hjúkrunarfræðingur
Allar færslur höfundar