Hjarta og æðasjúkdómar

Alþjóðlegi hjartadagurinn er 29. september, af því tilefni er kjörið tækifæri til að minna á mikilvægi þess að huga að hjartaheilsu sinni en hjarta og æðasjúkdómar eru meginorsök ótímabærra dauðsfalla. Þökk sé forvörnum hefur nýgengi kransæðastíflu stórlækkað undanfarin ár en stærstan hluta hjarta og æðasjúkdóma má rekja til lífsstílsþátta sem hægt er að breyta þar sem grunnsjúkdómurinn, æðakölkunin, þróast á löngum tíma.

Áhættuþættir

Helstu áhættuþættir kransæðasjúkdóma eru reykingar, hár blóðþrýstingur, hátt kólesteról, offita, hreyfingarleysi, streita og mikil áfengisneysla. Kyn, erfðir og aldur eru þeir áhættuþættir sem ekki er hægt að hafa stjórn á og því er áríðandi að þekkja fjölskyldusögu sína. Það er mikilvægt að huga vel að öllum þeim þáttum sem við getum haft áhrif á. Reykingar eru stærsti áhættuþátturinn fyrir hjarta og æðasjúkdómum. Meðan offita, hátt kólesteról og of hár blóðþrýstingur auka áhættuna hvert um sig fjórfalt, þá hækka reykingar áhættustuðulinn sjöfalt. Því er skaðsemi reykinga aldrei nógsamlega brýnd fyrir fólki.

Hreyfing

Eins og flestir vita þá sýna rannsóknir að regluleg hreyfing hefur fjölþættan ávinning fyrir heilsuna. Hún skilar sér í aukinni hreysti og dregur úr líkum á hinum ýmsu sjúkdómum s.s. kransæðasjúkdómum, áunna sykursýki, stoðkerfisvandamálum og sumum tegundum krabbameina. Svo ekki sé minnst á hin jákvæðu áhrif á andlega vellíðan. Nýjar rannsóknir sýna hinsvegar það að hreyfing að jafnaði 3 x í viku er ekki nóg til að vega upp á móti kyrrsetu nútímalífs. Þeir sem sitja mikið við vinnu ættu að standa upp að jafnaði einu sinni á hverjum klukkutíma, nýta þau tækifæri sem bjóða upp á hreyfingu eins og stiga í stað lyftu og jafnvel venja sig á að ganga um gólf meðan þeir tala í símann.

Næring

Það er óumdeilt að það sem við borðum hefur áhrif á heilsufar okkar og líðan. Þá hefur áhugi og umræða almennings á ýmisskonar kúrum aukist til muna undanfarin ár sem oft skapar óöryggi þegar kemur að vali fólks á réttu mataræði. Landlæknisembættið leggur áherslu á mataræði í heild sinni frekar en einstök næringarefni. Mestu máli skiptir að fæðuval sé næringarríkt, fjölbreytt og að magnið sé hæfilegt. Æskilegt er að borða flókin kolvetni, ávexti og grænmeti. Flókin kolvetni má finna í heilkornavörum, rótargrænmeti, brúnum hrísgrjónum og byggi. Þessi kolvetni eru rík af vítamínum, steinefnum og trefjum. Fitan er okkur lífsnauðsyn en mikilvægt er að reyna að forðast harða fitu eða transfitu, skipta yfir í fjölómettaðar eða einómettaðar fitusýrur eins og ólífuolíu. Borða vel af feitum fisk, hnetum, avacado og takmarka neyslu á unnum kjötvörum, kökum, snakki og sælgæti. Með þetta að leiðarljósi er hægt að njóta þess að borða allan mat af og til.

Streita

Streita er sannarlega oft meiri áhrifavaldur á líf okkar og heilsu en við gerum okkur grein fyrir. Nútímasamfélag krefst mikils af okkur því er gríðalega mikilvægt að vera meðvitaður um takmörk sín og nota hugleiðslu og slökun til að hjálpar okkur að hægja á í erli dagsins.
Til að lágmarka líkur á hjarta og æðasjúkdómum er því nauðsynlegt að huga vel að líkama og sál. Láttu fylgjast með blóðþrýstingi, púls, blóðfitu og blóðsykri og leitaðu til læknis ef breytingar verða á heilsufari.
Gangi þér vel.

Höfundur greinar