Þurr húð (xerosis) er ekki eiginlegur húðsjúkdómur en ástand húðarinnar einkennist af því að hún flagnar, oft með roða, ertingu og kláða.
Þetta veldur mestum vandræðum á haustin og veturna.
Húðþurrkur kemur yfirleitt fram í andliti, á höndum, handleggjum og fótum.
Meira ber á þessu með hækkandi aldri.
Hvað veldur húðþurrki?
Fjöldi fitukirtla í húðinni og hæfnin til að halda húðinni mjúkri minnkar með aldrinum. Fituinnihald efri hluta húðarinnar virðist hafa mest að segja um hæfni hennar til að halda í sér raka og vera vörn gegn umhverfinu.
Erfðir skipta einnig máli, ef þurr húð er algeng í fjölskyldunni kemur ekki á óvart að húð annara fjölskyldumeðlima verði þurr. Þegar verst lætur getur húðin líkst fiskhreistri (Ichtyosis).
Sífelldir þvottar með vatni og sápu, þurrt og heitt inniloft, vetrarveður, ástundun sólbaða í stórum stíl og aðrir þættir í umhverfinu geta þurrkað húðina.
Er hægt að koma í veg fyrir þurra húð?
Ef þurr húð er þér ásköpuð er engin ástæða til að gera vont verra. Fylgið ráðunum hér að neðan.
Hvað er til ráða?
Ekki er nein ástæða til að baða sig oft á dag og þegar farið er í bað á ekki að hafa það mjög heitt.
Forðast skal að nota mikla sápu og nota sápu með sýrustigi sem hentar húðinni.
Þerra húðina í stað þess að nudda hana þurra.
Bera á sig rakakrem meðan húðin er enn rök eftir baðið.
Lofta út íverustað og lækka hitastigið.
Njóta sólarinnar í hófi. Óhófleg sóldýrkun getur valdið húðkrabbameini, hrukkum og húðþurrki.
Drekktu vel af vökva og þá helst vatn.
Klæðast léttum og mjúkum bómullarfatnaði sem ertir ekki húðina.
Hvaða meðferð kemur til greina?
Fyrst og fremst að nota rakakrem og feit krem. Það er óþarfi að fjárfesta í dýrum ilmkremum. Hægt er að ræða það við lækni eða hjá lyfsala hvort til séu prufur af kremum. Prófa sig áfram og finna út hvaða krem á best við.
Á sumrin er yfirleitt best að notast við þunnfljótandi rakakrem, en á veturna eru feitari krem hentugri.
Ef húðþurrkurinn er á háu stigi getur komið til greina að fá hjá lækni eða húðlækni, til skammtímanota krem með bólgueyðandi hormóni, til að nota ásamt venjulega kreminu.
Ef kláðinn heldur vöku fyrir viðkomandi getur læknirinn gefið kláðastillandi og antihistamín.
Greinin birtist fyrst 6.mars 2015 en hefur verði uppfærð
Höfundur greinar
Guðrún Gyða Hauksdóttir, hjúkrunarfræðingur
Allar færslur höfundar