Hreyfing eldri borgara

Rannsóknir hafa sýnt að það er aldrei of seint að byrja að hreyfa sig. Jafnvel þegar komið er á efri ár hefur regluleg hreyfing jákvæð áhrif:

  • Eykur vöðvastyrk og liðleika – og þar með hreyfigetu.
  • Eykur þol, bætir starfsemi lungna og hjarta – vinnur á móti þreytu – blóðþrýstingur helst stöðugur.
  • Efnaskipti batna – auðveldara að viðhalda kjörþyngd.
  • Styrkir beinin – minnkar hættu á beingisnun og þar með beinbrotum.
  • Bætir jafnvægi og samhæfingu, eykur hraða og öryggi hreyfinga – fólk dettur síður.
  • Hefur róandi áhrif og léttir lund – vinnur gegn streitu og þunglyndi.
  • Skapar möguleika á félagsskap – vinnur gegn einmanaleika og of mikilli inniveru.

Með því að hreyfa sig samtals 30 mínútur eða meira á dag sem flesta daga vikunnar er ekki aðeins líklegt að þú bætir árum við lífið heldur, það sem er ekki síður mikilvægt, lífi við árin.

Hvernig hreyfing er valin veltur á getu hver og eins og áhuga. ,,Maður hættir ekki að leika sér af því að maður eldist – Maður eldist af því að maður hættir að leika sér“. Veldu þá hreyfingu sem þér finnst skemmtileg. Ganga, dans, sund, tai-chi, garðvinna, golf og ýmiss konar leikir eru dæmi um hreyfingu sem hentar ungum sem öldnum. Umfram allt er mikilvægt að velja hreyfingu í stað hreyfingarleysis þegar það er mögulegt.

Ganga og gönguæfingar

Ganga hentar flestum sem vilja hreyfa sig reglulega. Mikilvægt er að laga gönguhraðann að viðbrögðum líkamans. Ekki ganga hraðar en svo að hægt sé að spjalla við þann sem gengið er með. Klæddu þig í þægilegan fatnað í samræmi við veður og hugaðu vel að skóbúnaði.

4 stiga gönguáætlun

Best er að bæta 2-3 mín. við göngutúrinn í hverri viku.

1. stig: 5-10 mín. á dag, 3-4 x í viku, í 1-3 vikur.

2. stig: 10-15 mín. á dag, 4-5 x í viku, í 1-3 vikur.

3. stig: 15-20 mín. á dag, 4-5 x í viku, í 1-3 vikur.

4. stig: 20 – 30 mín. á dag, 5 – 7 x í viku, alla ævi.

Þá er bara að setja upp brosið, reima á sig skóna og bjóða fjölskyldunni og/eða félögum með í göngutúr. Hreyfðu þig og njóttu þess!

Fyrst birt hjá Landlæknisembættinu og birtist hér með góðfúslegu leyfi

Höfundur greinar