Efnisyfirlit
Forvörn er betri en meðhöndlun
Talið er að um 10% jarðarbúa séu heyrnarskert. Nýjar evrópskar rannsóknir hafa sýnt fram á að sú tala liggi nú í 16%. Hávaði hefur skemmt heyrnina í þriðjungi þeirra en hjá því hefði mátt komast með forvörnum. Margt bendir til þess að heyrnarskertum hafi fjölgað hlutfallslega vegna vaxandi hávaða í umhverfi okkar, s.s. frá tónlist, vélum og umferð.
Hvað er hávaði?
Hljóðstyrkur nefnist hávaði ef hann er það mikill að hann getur skemmt heyrnina. Heyrnarskerðing er einn algengasti atvinnusjúkdómurinn í okkar iðnvæddu veröld.
Hvernig skaðar hávaði heyrnina?
Verði einstaklingur fyrir miklum hávaða getur hin viðkvæma bygging innra eyrans skemmst. Ef það gerist hefur hann orðið fyrir varanlegri heyrnarskerðingu sem getur bæði orðið af völdum mikils hvells, s.s. sprengingar, og viðvarandi hávaða.
Í um 90% tilfella er um skynheyrnarskerðingu að ræða. Orsakir hennar eru oftast þær að hin örfínu skynhár í innra eyranu hafa annaðhvort brotnað eða skaddast. Skynhárin nema hljóðbylgjur og breyta þeim í rafboð sem berast til heilans um heyrnartaugina en heilinn túlkar rafboðin sem hljóð.
Eyrnasuð er oft fylgikvilli heyrnarskerðingar en það er ýlfur eða sónn í eyrum eða höfði. Eyrnasuðið getur horfið, en er oft sleitulaust eða kemur og fer tímabundið alla ævi. Hávaði er slæmur heilsunni, líkaminn spennist upp og fer í varnarstöðu, blóðþrýstingur hækkar og að vera í hávaða í lengri tíma veldur mikilli þreytu og minnkar einbeitningu.
Hvernig er hávaði mældur?
Tónhæð er margbreytileg en mælikvarði hennar er tíðni og mælieiningin herts, Hz. Mannseyrað skynjar hljóð með tíðni á bilinu 20 til 20000 Hz en það er næmast fyrir tíðni á bilinu 2000 til 5000 Hz. Hið virka tíðnisvið talmáls er á þessu bili og einnig sá hávaði sem veldur í mörgum tilvikum mestum skaða.
Hljóðstyrkur er mældur í desibelum, dB. Styrkur venjulegs talmáls er á bilinu 50 til 70 dB.
Dæmi um hávaða sem getur valdið heyrnarskerðingu.
Bifhjól, hárþurrka, sláttuvél 85-90 dB
Keðjusög, flugeldar 100-110 dB
Rokktónleikar, diskó, vasaspilari 110-125 dB
Sírena sjúkrabíls, gangsetning þotuhreyfils 119-140 dB
Eyrnatappar
ER20 staðaltappar passa í flest eyru, í þeim er hljóðsía sem dempar hávaða um 20 dB án þess að breyta blöndun hljóðsins. Sá sem notar tappana heyrir tal, tónlist og önnur hljóð í umhverfinu án þess að blær þeirra breytist.
Sérsmíðaðir eyrnatappar– dempa hávaða en tal og tónlist heyrist óbjagað. Góður valkostur fyrir einstaklinga sem þurfa oft á tíðum að vera í þröngu rými þar sem hefðbundnar hlífar taka of mikið pláss. Slíkir eyrnatappar eru mótaðir eftir afsteypu af hlustinni svo að þeir eru þægilegir í notkun.
Hægt er að fá tappa með hljóðsíu sem dempa skaðlegan hávaða án þess að breyta blöndun og tónblæ hljóðsins, þeir dempa allar tíðnir hljóðs álíka mikið.
Hlífðu heyrninni
Það má í raun algjörlega koma í veg fyrir heyrnarskerðingu sem stafar af hávaða í umhverfinu eða í vinnunni. Hér eru nokkur ráð um það hvernig þú getur hlíft heyrninni sem best:
- Forðastu hávaða.
- Takmarkaðu þann tíma sem þú ert í hávaða.
- Notaðu eyrnatappa eða heyrnarhlífar þegar þú þarft að vera í hávaða.
- Hlífðu börnum við hávaða þar sem þau hafa ekki vit á að verja sig sjálf.
- Hafðu hljómflutningstæki, spilara og því um líkt ekki allt of hátt stillt. Sama gildir um útvarpið í bílnum.
- Hugaðu að því sem veldur hávaða í umhverfi þínu.
- Hvíldu eyrun í um það bil sólarhring ef þú hefur lent í allt of miklum hávaða.
Í flestum tilvikum skerðist heyrn smám saman á löngum tíma og þar af leiðandi er erfitt að taka eftir skerðingunni.
Menn geta verið heyrnarskertir ef þeir …
- eiga erfitt með að skilja ákveðin orð eða hluta úr orðum.
- hvá oft.
- eiga í vandræðum með að skilja þegar talað er í síma.
- hækka það mikið í sjónvarpi eða útvarpi að það er til óþæginda fyrir aðra.
- eiga í erfiðleikum með að halda uppi samræðum þar sem er hávaði.
- finnst einstaka hljóð ógreinileg.
Sá sem er að staðaldri í miklum hávaða ætti að láta sérfræðing rannsaka eyrun að minnsta kosti árlega.
Ef grunur leikur um að heyrnin sé skert, hvað er til ráða?
Það fyrsta, sem þú skalt gera, er að fara í heyrnargreiningu hjá heyrnarfræðingi eða háls-, nef- og eyrnalækni.
Þá kemur í ljós hvort um heyrnarskerðingu er að ræða eða hversu alvarleg hún er og þú færð að vita hvað er helst til ráða. Einnig kemst þú að því hvernig þú getur notið sem best þeirrar heyrnar sem þú hefur.
Er hægt að lækna heyrnarskerðingu?
Nei, þegar hin örfínu skynhár í innra eyranu eru einu sinni skemmd verða þau það til frambúðar. Skemmdina er ekki hægt að lækna og hárin vaxa ekki aftur. Það þýðir að menn geta ekki lengur heyrt á eðlilegan hátt. Þó geta heyrnartæki magnað hljóð sem heyrast illa og bætt þannig heyrnina að menn eigi auðveldara með að skilja tal. Nýjustu heyrnartæki geta næstum alveg leiðrétt væga heyrnarskerðingu.
Loksins eru komin heyrnartæki sem ráða við hátíðni heyrnartap sem er algengt meðal þeirra sem unnið hafa í hávaða án heyrnahlífa. Þeir sem vita um heyrnartap sem áður hefur ekki verið hægt að meðhöndla með heyrnartækjum er bent á að kynna sér nútímaheyrnartækni. Hægt er að fá lánuð heyrnartæki til prufu í 10-15 daga til að komast að því hvort að þau henti. Nútímaheyrnartæki er hægt að hlaða og því þarf ekki lengur að vesenast með einnotarafhlöður. Einnig er hægt að tengja þau við bluetooth heyrnartól við farsíma.
rn
Höfundur greinar
Ellisif Katrín Björnsdóttir, heyrnarfræðingur
Allar færslur höfundar