Inngrónar táneglur

Inngrónar táneglur eru nokkuð algengt vandamál þar sem horn eða hlið tánaglar vex inn í mjúka vefinn og veldur bólgu og eymslum.

Einkenni.

Roði, bólga,verkir eða eymsl meðfram nöglinni. Oft fylgir þessu mikill sársauki. Jafnframt getur komið sýking í mjúka vefinn við nöglina. Oftast er um nögl stórutáar að ræða.

Orsök.

Algengustu ástæðurnar eru:

Þröngir skór sem þrýsta á táneglurnar og tær. Þá myndast núningur og bólga og jafnvel sár sem eykur hættu á að nöglin fari að vaxa inn í húðina.

Neglur rangt klipptar. Neglur á að klippa beint yfir og ná síðan niður hvössum  brúnum með þjöl eða snyrta rétt með klippum.

Áverki á tánögl

Óeðlilega bognar táneglur sem stingast niður í holdið þegar þær vaxa fram.

Meðferð.

Fyrst þarf að finna út hver ástæðan er fyrir inngróinni nögl og leiðrétta það áður en meðferð hefst því annars vex nöglin inn aftur. Mikilvægt er að vera í skóm sem passa og þrengja ekki að og vanda verkið þegar táneglur eru klipptar. Ef vandamálið er á byrjunarstigi getur hjálpað að fara í fótabað,halda fótum hreinum og setja smá bómull eða vaxaðan tannþráð undir hornið á tánöglinni til að halda henni frá húðinni. Þetta þarf að endurtaka amk daglega og skipta þá jafnframt um bómull eða tannþráð.Ef sýking er komin við nöglina þarf að meðhöndla það með bakteríudrepandi kremi eða áburði. Fótaaðgerðarfræðingar ná góðum árangri með að spengja nöglina með sérsniðnum stálvír eða plasti og lyfta henni þar með örlítið upp úr naglbeðnum. Það linar strax sársaukann og eymslin þegar nöglinni hefur verið lyft  þannig upp. Þrautalending er að fjarlægja hluti af nöglinni eða alla nöglina.

Greinin bistist 28.október 2014 en hefur verið uppfærð

Höfundur greinar