Núvitund

Núvitund (e. mindfulness) er aðferð sem merkir að vera með hugsunum sínum eins og þær eru, án þess að grípa þær og ýta þeim í burtu. Fyrsta skrefið í núvitund er að slökkva á sjálfsstýringunni og taka eftir því þegar hugurinn reikar. Hugur okkar er oft meira fjarverandi en á staðnum. Því fyrr sem við tökum eftir því þeim mun árangursríkari verðum við í iðkun núvitundar.

Rannsóknir hafa gefið vísbendingu um að meðferðir sem byggja á núvitundariðkun reynast vel við ýmsum heilsufarsvandamálum eins og til dæmis kvíða, þunglyndi, háþrýstingi og sem verkjameðferð. Ennfremur getur núvitund aukið virkni í vinstri hluta framheila sem hefur áhrif á persónlega hæfni á ýmsum sviðum eins og til dæmis bjartsýni, sjálfsstjórn, samúð og sköpun.Ýmis fyrirtæki hafa tekið inn fræðslu og hugmyndafræði núvitundar inn á vinnustaðinn og hafa rannsóknir sýnt fram á að ávinningurinn er mikill fyrir starfsmenn og fyrirtæki í formi:

 • Minni streitu
 • Meiri einbeitingu, jafnvægi og orku
 • Meiri hæfni í ákvörðunartöku og úrlausn verkefna
 • Meiri leiðtogahæfni og aukin tilfinningagreind
 • Aukins heilsuhreysti og öflugra ónæmiskerfis
 • Betra minnis og námsgetu
 • Betri samskipta við samstarfsfólk og viðskiptavini
 • Meiri starfsánægju
 • Meiri framleiðni
 • Minni kostnaðar vegna fjarvista og starfsmannaveltu

Núvitund er hægt að iðka á hvaða stundu sem er með því að veita því sem er að gerast hér og nú athygli. Staldraðu við og taktu eftir augnablikinu. Hvað sérðu? Hvað heyrirðu? Hvaða lykt finnurðu? Þú skoðar einfaldlega þær tilfinningar sem þú finnur, um það snýst núvitund.

Hægt er að gera núvitund hluta af daglegri rútínu. Ýmis fræðsla er í boði fyrir fyrirtæki, bæði námskeið og stakir fyrirlestrar.

Dæmi um núvitundar æfingar eru til dæmis:

 • Að vera hér og nú: Stýra athyglinni í núið, vera meðvitaður um heyrn, öndun og líkamsskynjun.
 • Reyna að átta sig á hvernig hugsanir hafa áhrif á líðan: Fylgjast með hugsunum, velja sér hugsanir og finna áhrif hugsana á líðan
 • Að upplifa það sem er að gerast á meðan það er að gerast: Fara úr sjálfsstýringu, gera eitt í einu og skynja og skoða upplifun sína.

Höfundur greinar