Aðalhlutverk lungnanna er loftskipti. Við innöndun fær líkaminn súrefni og við útöndun losar hann sig við koltvíoxíð. Frumur líkamans þurfa súrefni til að lifa og viðhalda virkni.
Öndunarfærakerfið samanstendur af:
- Nefi og nefholi
- Sínusum
- Munni
- Hálsi (koki)
- Raddböndum
- Barka
- Þind
- Lungum
- Berkjum
- Berkjungum
- Lungnablöðrum
- Háræðum
Öndun
Við innöndun dregst þindin saman og færist niður, sem veldur því að loft fer í lungun. Við útöndun slakar á þindinni og færist hún upp sem veldur því að loft tæmist úr lungunum. Loftið sem við öndum frá okkur er súrefnissnautt og ríkt af koltvíoxíð, andstætt loftinu sem við öndum að okkur.
Öndun hefst þegar andað er að sér lofti gegnum nef eða munn. Þaðan ferðast loftið niður hálsin og gegnum barkann. Barkinn er staðsettur fyrir neðan barkakýlið og er aðal öndunarvegurinn að lungunum. Frá barkanum taka berkjurnar við og eru þær ábyrgar fyrir að koma lofti í lungun. Berkjurnar eru í útliti eins eins og tré á hvolfi sem breiðir úr greinum sínum. Berkjurnar skiptast síðan niður í berkjunga og við enda þeirra eru loftsekkir og lungnablöðrur. Í lungunum eru að meðaltali um 480 milljónir lungnablaðra og fara loftskiptin þar fram. Lungnablöðrurnar eru umkringdar fínum æðum sem kallast háræðar og eru þær mikilvægur partur í loftskiptum.
Súrefni
Frumur líkamans nota súrefni til að framleiða orku. Súrefnið bindst prótíni sem kallast hemóglóbín og flyst það með blóðrásinni milli líffærakerfa. Lungnaslagæðin dælir súrefnissnauðu blóði frá hjartanu til lungnanna og losar þar koltvíoxíð og fleiri útgangsefni úr líkamanum. Lungnabláæðin dælir síðan súrefnisríku blóði frá lungunum til hjartans, sem síðan dælir því út til frumna líkamans.
Hlutverk
Hlutverk öndunarfærakerfisins eru magskonar. Aðal hlutverk lungnanna er að sjá líkamanum fyrir súrefni og losun koltvíoxíðs. Öndunarfærin sjá einnig um að hita loftið sem við öndum að okkur og viðhalda réttu rakastigi í öndunarfærunum. Líffæri öndunarkerfisins sjá einnig um þætti sem koma tali, lyktar- og bragðskyni við.
Öndunarfærin sjá um að verja lungun gegn skaðlegu efni og lofti sem við öndum að okkur. Í nefinu er slímhúð sem hjálpar til við að hreinsa nefið og binda agnir sem við öndum að okkur. Í nefinu eru lítil hár sem kallast bifhár og eru þau á stöðugri hreyfingu til að halda nefholinu hreinu. Bifhár er einnig að finna í berkjunum og sjá þau um að flytja slím upp í átt að kokinu. Þegar slímmyndun verður mikil, getur slímið safnast fyrir í hálsi og þarf þá að hósta, ræskja sig eða hnerra til að losa um það. Slímið getur innihaldið ryk, sýkla, bakteríur og skaðleg eða ertandi efni fyrir líkaman. Megin hlutverk þess að grípa það og koma í veg fyrir að það komist í líkaman og geti valdið hugsanlegum sýkingum.
Sjúkdómar í öndunarfærum
Öndunarvegurinn þarf að vera opinn og laus við bólgur og slím svo að lungun geti sinnt sínu hlutverki sem best. Lungnasjúkdómur kemur í veg fyrir eðlilega lungnastarfsemi. Algengustu lungnasjúkdómarnir eru astmi, samfall á lunga, berkjubólga, langvinn lungnateppa (LLT/e.COPD), lungnabólga, lungnakrabbamein, lungnabjúgur og lungnasegarek.
Sjúkdómar í öndunarfærum geta verið bráðir (nokkrir dagar/vikur) eða langvinnir (mánuðir/ár).
Ráð til að halda öndunarfærunum heilbrigðum:
- Forðast mengun sem gæti haft skaðleg áhrif á öndunarveginn. Ef þú ert útsett/ur fyrir reyk, ryki eða mengun er skynsamlegt að nota grímu til að vernda öndunarfærin
- Forðast reykingar
- Hollt mataræði, sem inniheldur nóg af ávöxtum og grænmeti
- Drekka vatn
- Regluleg hreyfing, en hreyfing styrkir lungun og bætir öndun
- Reglulegur handþvottur og árleg flensusprauta til þess að koma í veg fyrir hugsanlegar sýkingar
- Gott er að huga að réttri öndum og líkamsstöðu
- Leita til læknis ef grunur er um öndunarfærasýkingu
Heimildir
Melinda Ratini. (2021, 25. nóvember). Respiratory System. WebMD. https://www.webmd.com/lung/how-we-breathe
Emily Cronkleton. (2018, 15. ágúst). Taking a Better Breath. Healthline. https://www.healthline.com/health/how-to-breathe
Öndunarkerfið. (2021, 14. apríl). Sótt af: https://is.wikipedia.org/wiki/%C3%96ndunarkerfi%C3%B0
Lung Disease. (2020, 3. ágúst). Sott af: https://www.pennmedicine.org/for-patients-and-visitors/patient-information/conditions-treated-a-to-z/lung-disease
Höfundur greinar
Rebekka Ásmundsdóttir hjúkrunarfræðingur
Allar færslur höfundar