Öndunarmælingar

Öndunarmæling (spirometria) er algeng og einföld mæling á starfshæfni lungnanna og er mikilvæg við greiningu, meðferð og eftirlit lungnasjúkdóma.

Greining

Óeðlileg öndunarmæling er merki um aukna áhættu á ótímabærum dauðsföllum ekki síður en hár blóðþrýstingur eða hækkað kólesteról. Hægt er að nota lungnamælingu til að greina orsakir mæði og er hún þar jafn mikilvæg og hjartalínurit er í orsakagreiningu brjóstverkja. Öndunarmælingar má nota til greiningar og eftirlits með astma, langvinnum lungnasjúkdómum og öðrum lungnasjúkdómum. Hægt er að greina langvinna lungnateppu á byrjunarstigi með öndunarmælingu og þannig forða einstaklingum frá því að sjúkdómurinn komist á hærra stig með skerðingu á lífsgæðum, ótímabærum dauðsföllum og miklum kostnaði fyrir samfélagið. Öndunarmæling (spirometria) er fráblástursmæling þar sem mæld er bæði heildarfráblástursgeta og fráblástur á einni sekúndu sem hjálpar til við greiningu á herpusjúkdómi og teppusjúkdómi í öndunarfærum.

Herpusjúkdómar.

Með heildarfráblástursgetu þ.e. hversu marga lítra af lofti er hægt að anda út í einni útöndun er hægt að greina hvort um herpusjúkdóm er að ræða

Herpusjúkdómar eru:

  • lungnasjúkdómar í millivef s.s. sarklíki (sarcoidosis) og bandvefssjúkdómar
  • brjóstveggssjúkdómar vegna hryggskekkju, mikilla verkja eða offitu
  • sjúkdómar í brjósthimnu: vökvi í brjóstholi og kölkun í brjósthimnu
  • sjúkdómar í hreyfitaugum: þindarlömun og hreyfitaugungahrörnun
  • vöðvasjúkdómar

Teppusjúkdómar.

Öndunarmæling mælir einnig fráblástur á einni sekúndu (FEV1 – Forced Expiratory Volume in one second), þ.e. rúmmál lofts sem hægt er að blása frá sér eftir fulla innöndun. Þá er hægt að sjá hvort um teppusjúkdóm sé að ræða eða lækkun á einnar sekúndu blæstri.

Teppusjúkdómar eru:

  • astmi
  • langvinnir lungnateppusjúkdómar (COPD, KOL, LLT)
  • þrengingar í loftvegum í brjóstkassa eða utan hans.

Forvarnargildi

Lungnamælingar eru einfaldar í framkvæmd og eru reglubundnar lungnamælingar gagnleg forvarnaraðgerð á vinnustöðum þar sem loftmengun og skaðleg efni eru í starfsumhverfi og einnig þar sem hlutfall reykingamanna er hátt. Rannsóknir hafa sýnt að einstaklingar sem vita að gildi úr öndunarmælingu eru farin að skerðast eru líklegri til að hætta að reykja en þeir sem ekki hafa þessa vitneskju.

Jóna Ellen Valdimarsdóttir og Guðrún Ólafsdóttir, hjúkrunarfræðingar.

Höfundar greinar