Rifbeinsbrot

Algengasta orsök rifbeinsbrots er áverki t.d. eftir fall, slys eða samstuð í íþróttum. Það getur komið sprunga í beinið sem er ekki eins alvarlegt en getur verið jafn sársaukafullt, einnig er hægt að merjast á rifbeinum en það er ekki heldur eins alvarlegt og að brotna.

Í flestum tilfellum læknast rifbeinsbrot að sjálfu sér á einum til tveimur mánuðum. Það skiptir miklu máli að vera vel verkjastilltur svo hægt sé að anda djúpt og þannig forðast fylgikvilla rifbeinsbrots eins og lungnabólgu.  

Einkenni

Rifbeinsbroti fylgja yfirleitt verkir sem versna oftast þegar andað er djúpt inn, ýtt er á skaddaða svæðið, við hósta eða hreyfingu eins og að teygja sig eða snúa sér.

Fyrstu viðbrögð
Reyndu að takmarka hreyfingu. Látið hinn slasaða halda púða eða einhverju öðru mjúku að áverkastaðnum. Fáið hinn slasaða til að anda djúpt og hósta reglulega (á minnst klukkustundarfresti) til að forðast lungnabólgu. Leitið læknishjálpar.

Orsök

Helstu orsök rifbeinsbrota er áverki en rifbein geta einnig brotnað vegna langvarandi álags. Einnig geta rifbein brotnað út frá langvarandi og miklum hósta.

Áhættuþættir

Eftirfarandi þættir geta orsakað auknar líkur á rifbeinsbroti:

Beinþynning, þá missa beinin þéttleika og það gerir einstaklinga næmari fyrir broti.

Þátttaka í íþróttum, að stunda snertiíþróttir t.d. íshokki eða fótbolta getur aukið áhættuna á rifbeinsbroti.

Fylgikvillar

Rifbrot geta skaddað æðar og innri líffæri. Hættan eykst eftir því sem fleiri rifbein brotna. Fylgikvillar eru mismunandi eftir því hvaða rifbein brotna. Mögulegir fylgikvillar geta verið eftirfarandi:

Lungnabólga, það er mikill sársauki sem fylgir því að draga andann djúpt þegar einstaklingur er rifbeinsbrotinn sem orsakar að öndun verður grunn og það getur leitt til lungnabólgu.

Rifin eða sködduð ósæð, beittur endir á broti í einu af fyrstu þremur rifbeinunum gæti rifið ósæð eða aðra stóra æð.

Gatað lunga, endi á brotnu mið rifbeini getur stungist í lungu og valdið því að það falli saman.

Neðstu tvö rifbeinin brotna sjaldnar vegna þess að þau hafa meiri sveigjanleika en hin rifbeinin sem eru föst við bringubeinið. Ef einstaklingur brýtur neðri rifbein geta brotnu endarnir valdið alvarlegum skaða á milta, lifur eða nýrum, ef endarnir stingast inn.

Forvarnir

Eftirfarandi ráðstafanir geta hjálpað þér að koma í veg fyrir rifbeinsbrot:

Verndaðu þig gegn íþróttameiðslum, notaðu viðeigandi hlífðarbúnað þegar þú ert í snertiíþróttum eða öðru sem þarf hlífðarbúnað t.d. línuskautar eða fjallahjólreiðar.

Dragið úr hættu á byltum á heimilinu. Fjarlægja hluti af gólfum, þurrka strax upp bleytu ef eitthvað hellist niður, hafa snyrtilegt í kringum sig og lítið dót á gólfum sem hægt er að detta um, nota gúmmímottu í sturtu o.fl.

Að fá nóg af kalsíum og D-vítamíni daglega er mikilvægt til að viðhalda sterkum beinum.

Höfundur greinar