Skert heyrn

“Heyrnin mín er farin að skerðast en ég ætla að bíða með að fá mér heyrnartæki þar til ég verð eldri”.

Þetta er algenga viðhorf fólks getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér.

Athuganir sýna að yfir 10% jarðarbúa eru með skerta heyrn sem staðfestir að mjög margir heyra ekki vel. Flestir telja að heyrnarskerðing tengist aldri þannig að heyrnartæki þurfi aðeins þeir sem komnir eru á efri ár. Það er ekki alveg rétt því 20-40% þeirra sem eru á aldrinum 40 til 60 ára hafa skerta heyrn að einhverju marki. Nú til dags hrærast flestir í verulegum hávaða sem veldur heyrnartapi og það gildir ekki síst um unga fólkið, iPod-kynslóðina. „Jákvæðu fréttirnar“ eru að um 95% heyrnarskertra má hjálpa með heyrnartækjum.

Hvers vegna skerðist heyrnin?

Í um 90% tilvika skerðist heyrnin vegna þess að hin örfínu skynhár í innra eyranu skemmast og þegar þau eru einu sinni skemmd verða þau það til frambúðar. Skemmdina er ekki hægt að lækna og hárin vaxa ekki aftur. Óvirk skynhár valda því að heilinn fær ekki boð um öll hljóð sem þarf til að skilja t.d. talmál á réttan hátt. Það má líkja þessu við að píanóleikari reyni að spila þekkt lag á píanó sem á vantar allar háu nóturnar á nótnaborðið. Þó það vanti aðeins 6 eða 7 nótur þá verður lagið trúlega óþekkjanlegt.

Hljóðið ber til okkar upplýsingar og upplifun sem veitir lífsfyllingu. Maður er ef til vill búinn að gleyma hvernig söngur sólskríkjunnar, hjal lækjarins, marr í snjó eða jafnvel smellur í tölvumús hljóma? Þar sem heyrnin tapast smám saman tekur maður ekki eftir því að hversdagsleg hljóð, s.s. tif klukku og skrjáf í dagblaði, hverfa. En sú er raunin. Þessi hljóð eru hluti af lífinu og áður en maður veit af eru hljóð sem skipta miklu máli í samskiptum hætt að heyrast.

Að lifa með heyrnarskerðingu, sem ekki er reynt að ráða bót á, veldur vandkvæðum í daglegu lífi, erfiðleikum í vinnunni og takmörkun á að njóta tónlistar og annarrar menningar. Maður er smám saman að sætta sig við að eitt skilningarvitanna fimm sé næstum óvirkt. Margir draga sig í hlé og hætta að fara á mannamót þar sem þeir þurfa að fylgjast með samræðum og leggja einnig eitthvað til málanna. Það er mjög þreytandi fyrir þann sem er með skerta heyrn að vera í margmenni og reyna að halda uppi samræðum.

Það er ekki skynsamlegt að bíða

Fyrst þegar fer að bera á heyrnartapi leiða flestir það hjá sér, jafnvel í mörg ár, en það er óskynsamlegt. Við að fresta hinu óhjákvæmilega verður úrlausnin erfiðari. Þegar boð hversdagslegra hljóða berast ekki til heilans tapast hæfileikinn að vinna úr þeim og því lengri tími sem líður þeim mun erfiðara verður að þekkja hljóðin á ný. Venjuleg heyrnartæki geta komið í veg fyrir að hljóðin gleymist þannig að heilinn geti unnið úr þeim á eðlilegan hátt. Góð heyrn á þátt í að halda heilastarfseminni virkri.

Því ætti enginn að láta skerta heyrn aftra sér frá að taka þátt í lífinu.

Ef grunur leikur á að heyrnin sé skert þá er rétt að láta mæla hana, það er ekki flókið.

Höfundur greinar