Skimun fyrir lungna­krabba­meini

Slík mein eru annaðhvort annað eða þriðja algengasta mein karla og kvenna hérlendis og eru í meirihluta tilfella tengd reykingasögu einstaklings. Það liggja nú fyrir óyggjandi gögn um að það sé bæði skynsamlegt og þjóðhagslega hagkvæmt að skima fyrir lungnakrabbameini. Á Íslandi greinast að meðaltali síðustu árin um 170 einstaklingar með slík mein og er það svo að í talsverðum hluta þeirra finnst meinið seint, sem skapar verulega mikið meiri líkur á því að meðferð geti reynst erfið eða jafnvel ómöguleg.

Einkenni lungnameins geta á byrjunarstigi verið lítil sem engin, en í meirihuta tilvika er hósti sem er þrálátur og ekki endilega með uppgangi. Þeir sem hósta upp blóði eru oftar en ekki með lengra genginn sjúkdóm eða undirliggjandi sýkingu eða bólgu. Hæsi eða raddbreyting og síðan svokölluð B-einkenni sem eru lystarleysi, þyngdartap og hiti eru alvarlegri einkenni sem geta bent til sjúkdóms sem er orðinn þróaðri.

Áhættan á lungnameini minnkar stórkostlega við það að hætta að reykja og eru til tölur um það að hún geti allt að helmingast 10 árum frá því viðkomandi hætti. Það er því aldrei, eða nánast aldrei, of seint að hætta og ætti að vinna öllum árum að því. Okkur hefur gengið vel á Íslandi að draga úr reykingum en betur má ef duga skal. Ýmsir þættir til viðbótar við reykingar hafa áhrif á þróun meina og má nefna að efni eins og asbest sem var alræmt á árum áður en er í lítilli notkun í dag, mengun og álag á lungu og svo Radon eru áhættuþættir til viðbótar við erfðir.

Þeir sem eru einkennalausir einstaklingar í dag en eru orðnir 55 ára eða eldri og hafa reykt í að minnsta kosti 30 pakkár, en það jafngildir einum pakka á dag í 30 ár og þeir sem hafa náð 55 ára aldrinum en hafa hætt að reykja fyrir 15 árum eða skemur eru sá hópur sem ætti að skima fyrir lungnameini. Það er enginn staður í dag sem gerir slíka skoðun og framkvæmir með reglubundnu eftirliti en það mun breytast. Það má ekki gleyma því samt að þeir sem reykja og eru með einkenni ættu að huga að því að láta fylgjast vel með lungunum og jafnvel fá skoðun, það er ekkert lögmál að þurfa að vera orðinn 55 ára eða eldri til þess að greinast með lungnakrabbamein. Það er hægt að greinast mun yngri, en skilgreiningin á skimun byggir á þessum aldri og til 75 ára.

Skimunin fer fram með tölvusneiðmyndatækni sem er af lágu geislunarálagi og er endurtekin reglulega eða á eins til tveggja ára fresti eftir því hvaða leiðbeiningar eru skoðaðar. Ef það finnast hnútar eða breytingar á mynd er viðkomandi vísað til sérfræðiteymis sem gerir frekari rannsóknir til að átta sig á því um hvaða tegund meins ræðir. Þá er líka hægt að átta sig á meðferðarmöguleikum og næstu skrefum.

Í flestum tilvikum er um að ræða skurðaðgerð sem er beitt ef á að reyna læknandi meðferð, lyfja- og geislameðferð er einnig hluti í mörgum tilvikum og í þeim verstu þar sem ekki er um læknandi nálgun að ræða er veitt stuðningsmeðferð til viðbótar við þá meðferð sem talin er fýsileg hverju sinni.

Látum ekki koma aftan að okkur með slíkan vanda, við ættum að koma á skimun á þessum meinum og utanumhaldi öllum til góða.

Skoða vef Lungnaverndar

Höfundur greinar