Tíðahringur kvenna

Tíðahringur kvenna er skilgreindur frá fyrsta degi blæðinga og þar til næstu blæðingar hefjast. Tíðahringir geta verið mislangir milli kvenna og einnig hjá sömu konunni. Að öllu jöfnu er talað um 28 daga tíðahring að meðaltali en fæstar konur hafa reglulegan 28 daga tíðahring. Bandarísk rannsókn á 2316 konum á aldrinum 15 til 44 ára sýndi að lengd tíðahrings hjá 77% kvennanna var frá 25 dögum upp í 31 dag. Algengast var að tíðahringurinn væri 27 dagar og var meðallengd 29,1 dagur og staðalfrávik 7,5 dagar. Um 5% kvennanna höfðu mjög óreglulega tíðahringi. Þegar þær voru ekki teknar með í útreikningum á lengd tíðahringja, heldur einungis konur með 15 – 45 daga tíðahringi, féll meðallengd niður í 28,1 dag og staðalfrávik í 4,0 daga.

Í þessari rannsókn voru einungis 13% þátttakenda með minni breytileika en 6 daga í lengd tíðahringja yfir eitt ár. Hjá hinum, eða 87%, var breytileikinn 7 dagar eða meiri innan eins árs. Þetta þýðir að mjög algengt er að lengd tíðahringja hjá sömu konunni breytist sem nemur meira en sjö dögum til og frá á einu ári.

Svo virðist sem ekki séu tengsl milli lengdar eins tíðahrings og tíðahringsins á undan eða á eftir. Mjög stuttum tíðarhingjum (styttri en 24 dagar) og mjög löngum tíðahringjum (lengri en 45 dagar) fylgdi oftast tíðahringur sem var 25 – 39 daga langur.

Lengd tíðahrings virðist breytileg eftir aldri. Mestur er breytileikinn fyrstu árin eftir að konur hefja blæðingar og síðustu árin fyrir tíðahvörf. Á þessum tveimur aldursskeiðum eru tíðahringirnir almennt lengri en einnig er meiri breytileiki milli þeirra hjá einstökum konum.

Ekki er gott að segja hvað veldur mislöngum tíðahringjum. Vitað er að ekki verður egglos í öllum tíðahringjum en athuganir þar sem borin er saman lengd tíðahringja með egglosi við tíðahringi án þess sýna ekki lengdarmun. Virkni í kynlífi, eða hreinlega samskipti við karlmenn, virðast hafa áhrif á lengd tíðahrings. Til eru rannsóknir sem sýna að konur sem eyða meiri tíma með körlum virðast hafa reglulegri tíðahringi með jafnari lengd en konur sem hafa minni afskipti af karlmönnum.

Að lokum er þess að geta að ekki eru til dæmi um að konur hafi fullkomlega reglulega tíðahringi um lengri tíma. Breytileiki í tímalengd sem nemur 3-4 dögum er almesti stöðugleiki sem búast má við og þá helst á aldrinum 20 til 40 ára.

Grein þessi birtist fyrst á Vísindavef HÍ

Höfundur greinar