Andoxunarefni

Andoxunarefni eru efni sem hindra eða hlutleysa  svokölluð sindurefni og koma í veg fyrir skaða af þeirra völdum. Sindurefni myndast við oxun í efnahvörfum líkamans og geta þau valdið skaða í lifandi frumum og skemmt t.d. matvæli.  Andoxunarefni eru einnig kölluð þráavarnarefni af þessum ástæðum.

Hvar finnast þau?

Andoxunarefni finnast náttúrlega í ýmsum matvælum, þá sérstaklega í ávöxtum á grænmeti. C-vítamín,  E-vítamín og beta-karotín  eru þekktustu andoxunarefnin.  Margar rannsóknir  hafa verið gerðar á því hvort þessi efni geti mögulega styrkt ónæmiskerfið og  jafnvel  komið í veg fyrir sjúkdóma eins og til dæmis krabbamein. Niðurstöður eru bæði misvísandi og ekki afgerandi en þó bendir ýmislegt til þess að sérstaklega E-vítamín geti minnkað hættuna á hjarta- og æðasjúkdómum. Einnig eru vísbendingar um að andoxunarefni geti  dregið úr hættu á æðakölkun og blóðtappa og minnkað hrukkumyndun. Flestir eru þó sammála um að neyta þarf þessara efna beint úr fæðunni til þess að þau komi að einhverju gagni en ekki sem tilbúinni viðbót eins og í töfluformi. Ýmsar rannsóknir eru í gangi varðandi virkni andoxunarefna en það er löngu sannað að það að borða  ferska ávexti, grænmeti og gróft kornmeti sem innihalda andoxunarefni í ríkum mæli gerir okkur gott og hjálpar til við ýmsar varnir líkamans.

Heimildir:

http://www.hsph.harvard.edu/nutritionsource/antioxidants/

http://www.nlm.nih.gov/medlineplus/antioxidants.html

Höfundur greinar