B1-vítamín

Almennt um B1-vítamín (Tíamín)

B1-vítamín er það nafn sem oftast er notað yfir efnið tíamín. B1-vítamín er mikilvægur þáttur í orkumyndun og nýtingu kolvetna í líkamanum. Það er vatnsuppleysanlegt og er í mörgum matvælum t.d heilhveiti og öðrum kornmat og kjöti. Hér á landi líða fáir skort nema þeir sem eiga við áfengisvandamál að stríða.

Hvernig nýtir líkaminn B1-vítamín?

B1-vítamín er mikilvægt í orkumyndun og nýtingu kolvetna. Tekur einnig þátt í mikilvægum efnahvörfum í líkamanum. Taugafrumur eru háðar tíamíni til að geta notað kolvetni sem orkugjafa en þær nærast mest á kolvetnum.

Tíamín er notað t.d. við ákveðnar truflanir í taugakerfinu, getur gagnast í meðferð við sérstakri tegund blóðleysis, við tíamínskorti o.fl. Einnig er hægt að nota tíamín til að fæla burt flugur og skordýr vegna þess hve sterk lyktin af því er.

Í hvaða mat er B1-vítamín?

Það er í flestum próteinríkum fæðutegundum bæði úr dýra- og jurtaríkinu. Vítamínið er sérstaklega í kornvörum (t.d. heilhveiti og rúgmjöli), sumum ávöxtum (t.d. ertum og baunum) og kjöti.

Hvað má taka mikið af B1-vítamíni?

Ráðlagður dagskammtur er 1-1,4 mg, fer eftir kyni og aldri. Konur á meðgöngu 1,5 mg og konur með barn á brjósti 1,6 mg á dag.

Hvernig lýsir B1-vítamínskortur sér?

Lítilsháttar skortur leiðir til:

  • lystarleysis
  • einbeitingarskorts
  • þreytu og pirrings

Þetta lýsir sér í þyngdartapi, hægðatregðu, minnkandi vöðvaafli, ásamt náladofa í fingrum og tám. Einnig geta komið fram önnur einkenni t.d. truflanir í taugakerfi, meltingakerfi og hjarta- og æðakerfi.

Hvað gerist ef ekki er brugðist við B1-vítamínskorti?

Ef skorturinn er viðvarandi getur hann leitt til beriberi-sjúkdómsins. Beriberi, sem er þekktur hörgulsjúkdómur, sérstaklega útbreiddur í Asíu. Orsök beriberi er langvarandi skortur á vítamíninu. Sjúkdómurinn er til í tveimur myndum, skiptist í þurra gerð og vota gerð. Misnotkun á áfengi getur einnig leitt til tíamínskorts og það getur síðan valdið sjúkdóm sem kallast Wernicke-Korsakoff og kemur það fram sem truflun á andlegu jafnvægi og skammtímaminni, ásamt sjóntruflunum og trufluðum augnhreyfingum.

Langvarandi misnotkun áfengis veldur iðulega skorti á B-1 vítamíni. Ástæðurnar fyrir því eru margar en sem dæmi má nefna:

  • minni neysla vegna lélegs mataræðis
  • minni neysla vegna skemmda á þörmum
  • slæm nýting vegna lifrarskemmda.

Áfengi er auk þess þvagræsandi og þar sem vítamínið er vatnsuppleysanlegt, tapast nokkuð af því með þvaglátum.

Hvernig lýsir of mikið B1-vítamín sér?

Það má taka inn stóra skammta af B1-vítamíni án þess að nokkurra einkenna verði vart. Eitranir af völdum B1-vítamíns eru óþekktar þar sem það er uppleysanlegt í vatni og skilst úr með þvaginu.

Má taka vítamín/steinefni með öðrum lyfjum?

Vítamínið getur haft milliverkandi áhrif með ákveðnum tegundum sýrubindandi lyfja, ýmsum sýklalyfjum, getnaðarvarnartöflum, einnig eru önnur efni t.d. estrógen og koffein sem geta haft áhrif. Alkóhól eyðir tíamínbirgðum líkamans og hindrar frásog á tíamíni.

Greinin birtist fyrst  1.janúar 1999 en var uppfærð 29.4.2020

Höfundur greinar