Hvað er 16:8?

Í gegnum árþúsundin hefur það tíðkast hjá mismunandi einstaklingum og mismunandi þjóðflokkum að fasta. Fasta er einnig uppistaða í mörgum trúarbrögðum víðsvegar um heiminn. Í dag setja ný afbrigði af þessari föstu svip sinn á forna siði. 16:8 er einn vinsælasti stíll föstu. Þeir sem stunda hana halda því fram að þetta sé auðvelt, þægilegt og sjálfbær leið til að léttast og bæta heilsuna almennt.

Fasta

16:8 felur í sér að takmarka neyslu matvæla og drykkja sem innihalda hitaeiningar við átta klukkustunda glugga á dag og fasta síðan hinar 16 klukkustundirnar. Þetta er þá nokkurs konar hringur eða hringrás sem hægt er að endurtaka eftir vilja, frá einu sinni í viku uppí að gera þetta á hverjum degi. Allt eftir því hvað hver og einn vill og hvað virkar fyrir þá.

Þessi tegund föstu hefur aukist mikið í vinsældum undanfarin ár, sérstaklega á meðal þeirra sem vilja léttast og brenna fitu. Það er auðvelt að fylgja reglunum á 16:8 mataræði og dæmi eru um að einstaklingar sjái raunverulegan mun á sér eftir nokkrar vikur. Einnig er oft talað um að þessi tegund sé minna takmarkandi en aðrir matarkúrar og getur passað nánast hvaða lífsstíl sem er.

Einfalt

16:8 er einfalt og öruggt. Það fyrsta sem þarf að gera ef einstaklingur ætlar að byrja á þessu mataræði er að velja sér átta klukkustunda glugga yfir sólarhringinn sem viðkomandi ætlar að nota til þess að borða og fasta svo hinar 16 klukkustundirnar. Margir kjósa að borða frá hádegi til kl 20 á kvöldin, þá fastar viðkomandi yfir eina nótt og sleppir svo morgunmat. Getur þá samt borðað vel af hádegismat, kvöldmat og svo millimál yfir daginn. Aðrir velja að borða milli kl 9 og 17 en það er hægt að aðlaga þetta að þeim tíma sem best hentar hverjum og einum. Sama hvenær þú borðar þá er mælt með því að þú borðir nokkrar litlar máltíðir og snarl jafnt yfir daginn. Þetta er til þess að stuðla að stöðugleika í blóðsykri og halda hungri í skefjum. Einnig er mikilvægt að borða holla og næringarríka fæðu svo viðkomandi fái öll þau næringarefni sem hann þarf yfir daginn. Passa verður að borða ekki einungis óholla og næringarsnauða fæðu því það gerir illt verra. Þær klukkustundir sem fastað er yfir daginn skiptir miklu máli að drekka vel en það getur m.a. hjálpað til við að halda hungur tilfinningu í skefjum. Hægt er að drekka hitaeininga snauða drykki eins og vatn, te og svart kaffi.

Hafa þarf í huga að þetta mataræði hentar ekki öllum og í sumum tilfellum getur fastan valdið máttleysi, hungur tilfinningu og getur valdið því að einstaklingar borði meira en ella. Það þarf hver og einn að prófa sig áfram og finna hvað virkar fyrir sig.

Höfundur greinar