Margir sem hreyfa sig að staðaldri mega af einhverri ástæðu ekki hlaupa eða nenna því einfaldlega ekki. Fyrir þessa einstaklinga er sund tilvalin íþrótt, bæði til þess að koma sér í form og eins til að stunda skemmtilega tómstundaiðju. Á Íslandi er auðvelt að komast í sund þar sem nóg er af heitu vatni. Því er auðveldara fyrir okkur Íslendinga að nálgast góða sundaðstöðu en á mörgum öðrum stöðum í heiminum. Opnunartímar sundstaða eru mismunandi en margir hefja daginn á því að fara í sund enda eru flestir sundstaðir á Íslandi opnaðir snemma.
Sund er að sumu leyti ákjósanlegri þjálfunaraðferð en hlaup. Ein ástæða þess er sú að vatnið hefur þá eiginleika að gera mann „léttari” þannig að álag á liði og vöðva verður minna en á þurru landi. Þannig eru álagsmeiðsli sjaldgæf í sundi og er slík hreyfing því góður kostur fyrir þá sem þegar eiga við meiðsli að stríða. Þá er sundþjálfun jafnframt tilvalin fyrir eldra fólk, þá sem eru of þungir, þá sem eiga erfitt með hreyfingar, fólk með bakmeiðsli, þungaðar konur o.fl.
Taktu ákvörðun og byrjaðu rólega
Fyrir þá sem ætla að byrja að synda og byggja þannig upp líkama sinn er mikilvægt að byrja rólega. Ef þú ferð of geyst af stað er nefnilega hætt við því að löngun þín til þess að æfa minnki en löngunin er lykillinn að áframhaldandi þjálfun.
Fyrsta hindrunin sem þú þarft að yfirstíga er að taka ákvörðunina um að synda út í lífið ef svo má að orði komast. Þú þarft ekki að vera sérstaklega góður sundmaður til þess að komast á auðveldan og skemmtilegan hátt í gott form. Þegar búið er að taka ákvörðunina er mikilvægt að koma sér af stað og fara eftir þessari áætlun en þannig ætti að vera auðveldara fyrir þig að koma sundiðkun þinni inn í „stundaskrá” dagsins.
Finndu einhvern til þess að synda með. Þá er gott að setja sér markmið en gættu þess að hafa þau raunhæf. Í byrjun er best að notast við einfalda tækni. Það er ekki nauðsynlegt að hafa fallegasta stílinn í sundlauginni en hins vegar er nauðsynlegt að framkvæma rétt sundtök og að sjálfsögðu þarftu að anda rétt. Ef þú tileinkar þér rétta tækni í byrjun kemstu auðveldar áfram í vatninu og einnig munt þú geta synt lengri vegalengdir.
Hvað þarf að synda mikið?
Til að hafa einhverja viðmiðun við ákvörðun hve mikið þarf að synda til þes að ná er einfaldast að styðjast við fjölda mínútna og/eða metra. Markmiðið er að byggja líkamann smá saman upp þar til að þú getur synt 900-1000 metra tiltölulega hratt. Flestar sundlaugar á Íslandi eru 25 metrar á lengd og á flestum sundstöðum er hægt að sjá á klukku. Klukkan hjálpar þér við að synda eftir áætlun, auk þess sem hún gefur þér einnig möguleika á að finna hve ört hjarta þitt slær. Í gegnum öndunina og með því að hlusta á líkamann lærist fljótt að meta hvort hjartsláttur (púls) þinn er réttur.
Skriðsund eða bringusund eða eitthvað annað?
Það er ekki hægt að segja að ein sundtækni sé betri en önnur. Í byrjun skalt þú þó nota þá aðferð sem hentar þér best og þú ræður best við. Allir stærstu vöðvahópar í líkamanum vinna jafn mikið þegar synt er skv. algengustu sundaðferðunum, þ.e. bringusundi, baksundi og skriðsundi. Það er þó gott ef þú hefur vald á fleiri en einni sundaðferð, því það gefur meiri möguleika á að gera þjálfunina fjölbreyttari og skemmtilegri til lengri tíma litið.
Reglubundin þjálfun er mikilvæg. Sundþjálfun þrisvar í viku er tilvalin. Ef þú kemst hins vegar ekki í laugina oftar en einu sinni eða tvisvar í viku þá er það að sjálfsögðu betra en ekki neitt.
Mundu bara að ekki er hægt að stytta sér leið þegar verið er að byggja upp þol og vöðvastyrk.
Á mörgum sundstöðum er hægt að fara í gufubað eða heita potta og eru margir sem nýta sér það. Vöðvarnir mýkjast í hitanum og þess vegna er gott að teygja á vöðvum í gufubaðinu. Vöðvarnir verða með þessu betur undir það búnir að takast á við næstu æfingu.
Reglubundin hreyfing er fjárfesting til heilsu og sýnt hefur verið fram á að það er aldrei af seint að byrja að hreyfa sig.
Byggt á bæklingi sem gefinn er út á vegum ÍSÍ
Höfundur greinar
Guðrún Gyða Hauksdóttir, hjúkrunarfræðingur
Allar færslur höfundar