Akureyrarveikin er vel þekktur og skráður sjúkdómur. Hún gengur undir heitinu Akureyri disease eða morbus Akureyriensis í alþjóðlegum læknaritum en er þó stundum jafnframt eða einvörðungu skráð undir nafninu Iceland disease, Íslandsveikin.
Akureyrarveikin er smitsjúkdómur eða sýkingasjúkdómur í hópi þeirra sjúkdóma sem nefndir eru myalgic encephalomyelitis, kallaðir ME í styttingu. Nafnið gefur til kynna að sjúkdómarnir lýsi sér með verkjum í vöðvum eða beinverkjum samfara hita og einkennum frá heila og/eða mænu. ME getur birst sem stök sjúkdómstilfelli en einnig sem staðbundnir faraldrar.
Fyrsta tilfelli Akureyrarveikinnar var greint í nágrenni Akureyrar í september árið 1948 og breiddist veikin út á næstu mánuðum. Á þessum tíma voru íbúar Akureyrar 6900 talsins en alls veiktust þar 465 manns, tæp 7% íbúanna. Veikin barst svo víðar, meðal annars til Sauðárkróks, Hvammstanga og Ísafjarðar í lok ársins 1948 og í byrjun árs 1949 og stök tilfelli með einkennum Akureyrarveikinnar komu upp síðar nánast um allt land. Staðbundnir faraldrar urðu á Þorshöfn og á Patreksfirði árin 1953 og 1955. Veikin fjaraði svo smám saman út og engin tilfelli voru skráð á Akureyri eftir febrúarmánuð árið 1949. Engin tilfelli með einkennum Akureyrarveikinnar greindust eftir árið 1955.
Þótt Akureyrarveikin væri ekki bráðsmitandi varð hún algeng á heimavist Menntaskólans á Akureyri og í nokkrum fjölskyldum veiktust margir. Eins og alsiða var á þessum tíma var reynt að hefta útbreiðslu faraldursins með lokunum og takmörkun umgangs.
Akureyrarveikin lýsti sér með sótthita sem vildi vera langdrægur hjá mörgum. Þá fylgdu henni bein- og liðverkir og vöðvasærindi en einnig særindi í hálsi og óþægindi í meltingarvegi. Höfuðverkur var algengur og sömuleiðis verkur og stífleiki í hálshrygg. Hinir veiku svitnuðu mikið og fundu fyrir streitu og kvíða. Flestir urðu dofnir eða máttlausir í hluta líkamans, svo sem í annarri hlið hans eða þá í fótum og/eða handleggjum. Einnig bar á breyttri meðvitund, annað hvort að styrk eða eðli eða hvoru tveggja.*
Þótt orsök Akureyrarveikinnar hafi aldrei verið fullkomlega ljós fór ekkert á milli mála að um raunverulegan vefrænan sjúkleika var að ræða en ekki kvíðaspennu eina saman. Hins vegar óttuðust margir hinna veiku að þeir væru komnir með lömunarveiki sem gekk reglulega hérlendis en af þeirri veiki mátti vænta verulegra fatlana og jafnvel dauðsfalla.
Allir lifðu Akureyrarveikina af. Einkenni frá taugakerfi önnur en þreytan urðu ekki viðvarandi en þeirra vildi gæta að nýju ef komu til hitapestir síðar á ævinni. Þó náðu aðeins 15% þeirra sem veiktust af Akureyrarveikinni fullum bata sem þó tók langan tíma eða jafnvel allt að tveimur árum.
Um 60% þeirra sem veikina fengu náðu allgóðum bata utan þess að búa við skert úthald eða óeðlilega mikla þreytu. Þessir einstaklingar hafa ekki látið ástandið hafa um of áhrif á lífshlaup sitt þótt vissulega hafi þreytan raskað lífsgæðum eða jafnvel áætlunum að einhverju marki.
En 25% þeirra sem Akureyraveikina fengu náðu ekki góðum bata, heldur hafa þeir búið við mikla þreytu og flestir þróað með sér vefjagigt sem svo hefur aukið á þreytuna. Lífsgæði þessa fólks skertust verulega sökum veikindanna og hefur það orðið að sníða lífsáætlanir sínar og lífsháttu eftir þreytuástandinu.
Vísbendingar um þessa niðurstöðu lágu fyrir strax árið 1955 og hefur hún síðan verið enn frekar staðfest með rannsóknum þess sem þetta ritar og erlendra lækna (frá Noregi, Skotlandi og Kanada) og síðar með læknunum Sigurði Thorlaciusi og Jóni Stefánssyni og Eiríki Líndal taugasálfræðingi. Saman höfum við allt frá árinu 1985 til ársins 2000 kannað stóran hóp þeirra sem sannanlega fengu Akureyrarveikina og staðfest framvindu sjúkdómsins og batatölurnar.
Jafnframt höfum við ekki fundið annað en að lífshlaup þeirra sem Akureyrarveikina fengu væri hið sama og annarra landa okkar hvað varðar sjúkdóma, ævilengd, menntun og félagslega stöðu. Undanskilinn er lítill hluti hópsins sem ekki hefur náð viðunandi bata og búið við örorku og skerta getu til náms og starfa.
Við rannsökuðum sérstaklega stóran hóp þeirra sem aldrei hafa jafnað sig að fullu eftir veikindin. Þeir eru nánast allir með vefjagigt og eru oft þreyttir bæði andlega og líkamlega. Í hinum almenna skilningi er þetta fólk samt sem áður heilbrigt þótt ekki hafi það orkuna til hugrænna og líkamlegra athafna nema stutt hverju sinni.
Við tókum eftir að úr hópi Akureyrarveikisjúklinga voru fleiri en vænta mátti sem á unga aldri fengu sum einkenni Parkinsonveiki og nefnist það þá Parkinsonismus. Öll einkenni Parkinsonveiki eða hluti þeirra einkenna er vel þekkt möguleg afleiðing heilabólgu. Heilabólga var hluti Akureyrarveikinnar og verður ótímabær Parkinsonismus mjög líklega rakinn til hennar.**
Á myndinni má sjá polioveiruna sem veldur lömunarveiki. Talið er að Akureyrarveikin orsakist af skyldri veiru.
Telja má víst, þótt ekki verði það sannað, að Akureyrarveikin var veirusjúkdómur og sennilegast tilkomin af veiru skyldri polioveirunni sem veldur lömunarveiki. Það styður þetta að þeir sem fengu Akureyrarveikina svöruðu ster kar við bólusetningu gegn lömunarveiki en þeir sem ekki höfðu veikst, en slík bólusetning hófst árið 1956. Sömuleiðis hefur engin hliðstæða Akureyrarfaraldursins komið upp hér eftir 1956. Hafi bólusetningin gert fólk ónæmt ekki einungis fyrir lömunarveiki heldur einnig Akureyrarveikinni bendir það til þess að um skyldar veirur sé að ræða.
Af og til koma upp stök tilfelli af heilabólgu vegna veirusýkinga. Vel þekkt afleiðing slíkra veikinda er hugræn og líkamleg þreyta, stundum jafnframt vefjagigt. Má því telja að heilabólgan sem margir Akureyrarveikisjúklingar fengu valdi þeirri þreytu sem hjá sumum hefur komið í veg fyrir fullan og góðan bata.
* Styrkur meðvitundar er vökustigið og eðli meðvitundar er skýrleikinn. Með öðrum orðum bar á syfju og/eða sljóleika en þetta einkennir heilabólgu.
** Einkenni Parkinsonveiki eru skjálfti, stífleiki, hægvirkni og jafnvægisröskun og kemur veikin fram í tali, göngulagi, svipbrigðaleysi, klaufsku og rangri líkamsstellingu, allt verður hægt og stirt. Í Parkinsonismus er allt hið sama nema hinn dæmigerða skjálfta vantar oftast.
Greinin er fengin af vef Vísindavefs HÍ og birtist með góðfúslegu
Höfundur greinar
Sverrir Bergmann, læknir
Allar færslur höfundar