Árleg inflúensa

Nú fer í hönd sá tími ársins þegar búast má við árlegum inflúensufaraldri. Inflúensa geisar hér á veturna á hverju ári og getur verið misalvarleg. Einkenni inflúensunnar eru yfirleitt sérstök. Þau eru bráð, með höfuðverk, háum hita, hósta og hálssærindum og beinverkjum.

Flestir ná sér innan viku og oftast fylgir sjúkdómnum engin hætta, en inflúensa getur verið alvarleg þeim sem eru með undirliggjandi sjúkdóma eða aldraðir.

Besta vörn gegn inflúensu er með bólusetningu en verndin er mismunandi á milli ára og getur verið allt að 60–70%. Jafnvel þótt bólusetning verndi ekki fullkomlega getur hún í mörgum tilfellum komið í veg fyrir alvarlega sýkingu. Rétt er einnig að minna á að til eru lyf sem hægt er að nota ef þau eru tekin innan við tveggja sólarhringa frá upphafi einkenna.

Mælst er til að eftirtaldir áhættuhópar njóti forgangs við inflúensubólusetningar:

  • Allir einstaklingar 60 ára og eldri.
  • Öll börn og fullorðnir sem þjást af langvinnum hjarta-, lungna-, nýrna- og lifrarsjúkdómum, sykursýki, illkynja sjúkdómum og öðrum ónæmisbælandi sjúkdómum.
  • Heilbrigðisstarfsmenn sem annast sjúklinga í áhættuhópum sem taldir eru upp hér að ofan.
  • Þungaðar konur.

Hver sá sem er bólusettur dregur úr líkum á því að hann sýkist og á sama tíma dregur hann úr líkum á því að smita aðra

Almenn bólusetning er í höndum heilsugæslunnar en auk þess er bólusett á sjúkrastofnunum og ýmis fyrirtæki hafa tekið að sér bólusetningu starfsmanna. Vakin er athygli á því að ofangreindir áhættuhópar eiga rétt á bóluefninu sér að kostnaðarlausu. Fyrirkomulag bólusetningarinnar verður auglýst síðar.

Greinin birtist á vef Landlæknis og birtist hér með góðfúslegu leyfi

Höfundur greinar