Heilablóðfall – bráðastig og endurhæfing

Höfundar:
Bylgja Scheving, félagsráðgjafi.
Erna Magnúsdóttir, iðjuþjálfi.
Gísli Einarsson, endurhæfingarlæknir.
G. Þóra Andrésdóttir, sjúkraþjálfari.
Kolbrún Einarsdóttir, næringarráðgjafi.
Kristín Magnúsdóttir, hjúkrunarfræðingur.
Sigríður Magnúsdóttir, talmeinafræðingur.
Sigurlaug Sveinbjörnsdóttir, taugasérfræðingur.
Svanhvít Björgvinsdóttir, sálfræðingur.

  • InngangsorðÞverfaglegur vinnuhópur um heilablóðfall var formlega myndaður á endurhæfingardeild Landspítala sumarið 1996, en áður var vísir að slíku teymi starfandi á spítalanum frá árinu 1994. Þegar í upphafi var ljóst að sár þörf var fyrir miðlun á fræðslu um heilablóðföll til sjúklinga og aðstandenda þeirra. Markmiðið með útgáfu þessa bæklings er að reyna að bæta úr því. Upplýsingarnar eru ekki tæmandi en ættu þó að gefa greinargott yfirlit um sjúkdóminn, afleiðingar hans og endurhæfingu.Vinnuhópurinn hefur lagt mikla vinnu af mörkum til þess að bæklingur þessi yrði til og ber að þakka þeirra góða framlag, einkum þó Sigríði Magnúsdóttr, talmeinafræðingi, sem hafði umsjón með verkefninu. Þá flytjum við ennfremur þakkir til endurhæfingarlækna á Reykjalundi, Alberts Páls Sigurðssonar, taugalæknis, Hjalta Ragnarssonar, formanns Félags heilablóðfallsskaðaðra og Brynhildar Skeggjadóttur, heilbrigðisstarfsmanns, fyrir góðar ábendingar við ritun bæklingsins. Að lokum viljum við þakka styrki úr sjóði Odds Ólafssonar og frá Félagi heilablóðfallsskaðaðra til útgáfu bæklingsins. Jón Bjarni Bjarnason teiknaði myndirnar í bæklinginn og Gagnasmiðja Landspítalans hafði umsjón með hönnun og prentun.

    Fyrir hönd teymisins,
    Sigurlaug Sveinbjörnsdóttir, læknir.

  • Heilablóðfall á bráðastigiHafir þú nýlega greinst með heilablóðfall er líklegt að þér líði ekki vel, þú sért hræddur og uggandi um framtíðina. Sjálfsagt veltir þú því fyrir þér hvers vegna þetta kom fyrir þig og hversu vel þú munir ná þér, þ.e. hve mikil áhrif sjúkdómseinkennin sem þú hefur, munu hafa á líf þitt í framtíðinni. Ættingjar þínir munu áreiðanlega velta því sama fyrir sér. Afleiðingar heilablóðfalls eru misjafnar og einkennin margvísleg. Á næstu mánuðum er líklegt, að þú og fjölskylda þín þurfi að ræða breyttar aðstæður við lækna og annað fagfólk, sem tengist þér og þinni meðferð.Þessi bæklingur fjallar um heilablóðfall, afleiðingar þess og endurhæfingu eftir áfallið. Mörgum atriðum er sleppt en sums staðar er vikið að öðrum, sem hugsanlega snerta þig ekki. Þú kemur oft til með að heyra lækna og hjúkrunarfólk nota framandi orð og hugtök þegar þau ræða við þig um þín einkenni. Ekki hika við að biðja um frekari skýringar ef þú áttar þig ekki á því um hvað þau eru að tala.

    Hvað er heilablóðfall?

    Hér áður fyrr var heilablóðfall oft kallað slag sem lýsir því vel hve snögglega einkennin geta komið. Hugtakið heilablóðfall lýsir truflun á blóðflæði til heilans og sú truflun getur verið afleiðing ýmissa sjúkdóma. Við þetta líða heilafrumur súrefnisskort auk skorts á öðrum nauðsynlegum næringarefnum. Hluti heilafrumanna deyr en starfsemi annarra raskast. Flest heilablóðföll verða vegna lokunar á slagæð til heilans af völdum blóðtappa. Er það nefnt heiladrep. Hins vegar getur heilablóðfall einnig orðið vegna blæðingar inni í heilanum. Þá brestur æð og blæðir inn í heilavefinn eða inn í rýmið umhverfis heilann. Tímabundin einkenni um heilablóðfall geta einni átt sér stað, en þá er talað um skammvinnna blóðþurrð. Skoðum þetta aðeins nánar.

    Heiladrep
    Heiladrep getur átt sér ýmsar orsakir:
    Staðbundin lokun heilaæðar á við það þegar blóðtappi hefur myndast í heilaslagæð og lokar fyrir blóðflæðið um næringarsvæði æðarinnar. Oft gerist þetta í skemmdum æðum. Með árunum getur orðið breyting í slagæðum, í þeim geta myndast fituskellur og sár vegna breytinga á innri klæðningu æðarinnar. Blóðtappar/blóðsegar eru líklegri til að myndast sé æðin skellótt á innra borði. Æðaskellur eins og að framan er lýst eru merki um æðakölkun.

    Segarek til heila á við um það þegar blóðtappi/blóðsegi hefur myndast annars staðar í æðakerfinu en í heila, losnað frá og rekið til heilans, þar sem hann stíflar æð. Blóðseginn gæti hafa myndast í einhverri af stóru hálsslagæðunum, í ósæðarboganum eða í hjartanu. Stundum gerist það í kjölfar kransæðastíflu. Blóðtappi getur einnig myndast í hjarta, sem slær óreglulega og í nágrenni við skemmdar hjartalokur, hvort sem skemmdin er meðfædd eða til komin af völdum sjúkdóma.
    Ördrep þýðir að lítil slagæð, djúpt í heila, lokast vegna staðbundinnar breytingar í æðaveggnum.

    Heilablæðing
    Blæðing í heilavefnum á sér stað inni í heilavefnum. Djúpt í heila og umhverfis hann er sérstakt vökvakerfi, sem inniheldur mænuvökva. Sé svona blæðing stór getur hún komist inn í þetta kerfi. Í sjaldgæfum tilfellum getur blætt frá pokum sem myndast í slagæðum á botni höfuðkúpunnar (innanskúmsblæðing).

    Arfgengar heilablæðingar koma fram á Íslandi í fjölskyldum sem eru arfberar ríkjandi gens sem framkallar sjúkdóma í heilaæðum. Æðarnar veikjast og þrengjast og leiðir þetta til endurtekinna heilablæðinga, gjarnan á unga aldri. Þessar fjölskyldur eru vel þekktar hérlendis, og einkennin koma fram miklu fyrr en almennt gerist við heilablæðingar.

    Skammvinn blóðþurrð í heila
    Stundum fá menn tímabundin einkenni um heilablóðfall en einkennin ganga að fullu til baka innan sólarhrings. Þetta er nefnt skammvinn blóðþurrð í heila. Ástæður þessa eru hinar sömu og við heilablóðfall en engin varanleg skemmd verður á heila-frumunum. Slík einkenni geta verið viðvörun og nauðsynlegt að rannsaka orsakir þeirra skjótt svo hægt sé að gefa viðhlítandi meðferð til að koma í veg fyrir hugsanlegt heilablóðfall síðar.

  • Heilablóðfall –Áhættuþættir og áhættuhóparAldur er stærsti áhættuþáttur heilablóðfalls. Flestir sjúklinganna eru eldri en 65 ára þegar þeir fá áfallið. Hins vegar geta einstaklingar í öllum aldurshópum fengið heilablóðfall. Aðrir áhættuþættir eru margir og oft flokkaðir í óbreytanlega og breytanlega þætti. Með breytanlegum áhættuþáttum er átt við, að hægt sé að gera ráðstafanir til þess að draga úr vægi þeirra. Flestir sem fá heilablóðfall hafa fleiri en einn áhættuþátt. Skoðu þetta nú nánar.Helstu óbreytanlegu áhættuþættirnir eru:
    • Aldur
    • Kyn (karlar fá oftar heilablóðfall en konur)
    • Kynþáttur (þeldökkir fá frekar heilablóðfall en hvítir menn)
    • Fyrri saga um heilablóðfall
    • Erfðir (aukin áhætta hjá þeim sem eiga ættingja með heilablóðfall)

    Helstu breytanlegu áhættuþættirnir eru:

    • Hár blóðþrýstingur
    • Hjarta- og æðasjúkdómar
    • Sykursýki
    • Hækkaðar blóðfitur
    • Offita
    • Of lítil líkamshreyfing
    • Mikil áfengisneysla
    • Reykingar

    Vikið verður nánar að breytanlegu þáttunum síðar. Á Íslandi er áætlað að um 6-700 manns fái árlega annað hvort heilablóðfall eða skammvinna blóðþurrð í heila.

  • Heilablóðfall – Einkenni og afleiðingarMikilvægt er að hafa í huga, að engir tveir einstaklingar fá sömu einkenni, jafnvel þótt ástæður fyrir heilablóðfallinu séu hinar sömu. Einkenni, sem fram koma, eru afar mismunandi. Eftirtaldir þættir skipta máli í þessu sambandi:
    • Hvaða hluti heilans skemmist, þ.e. staðsetning blóðfallsins í heilanum
    • Hversu stórt svæði er sem skemmdist, þ.e. umfang heilaskemmdanna
    • Hve gamall þú ert og hvernig fyrra heilsufar hefur verið.
    Í heila eru stjórnstöðvar fyrir alla starfsemi líkamans. Staðbundin skemmd í heila getur valdið starfstruflun á ákveðnu líkamssvæði eða á sérhæfðri líkamsstarfsemi. Afleiðingar heilablóðfalls eru því margvíslegar og einhver eftirfarandi atriða geta átt við þig.

    • Dofi, kraftminnkun eða lömun í annarri hlið líkamans. Einkennin geta verið í handlegg, hendi, andliti, fótlegg eða jafnvel allri hliðinni
    • Truflun á þvagstjórnun
    • Tjáskiptavandamál, svo sem óskýrmæli, erfiðleikar við að lesa og skrifa geta einnig komið fram
    • Erfiðleikar við að kyngja
    • Skert sjón
    • Skortur á einbeitingu eða minnistruflanir
    • Skyntruflanir, svo sem skert tíma- og afstöðuskyn
    • Grátgirni og persónuleikabreytingar
    • Verkstol, þ.e. skert geta til að framkvæma ýmsa hluti
    • Gaumstol, þ.e. menn vilja gleyma þeim líkamshelmingi, sem lamaður er. Þetta kemur oftast fram ef vinstri helmingur lamast og lýsir sér með því að viðkomandi notar ekki þennan líkamshelming þótt hann geti það

    Hægri hluti heilans stjórnar hluta líkamans og öfugt. Auk þess að stjórna hlið líkamans, hefur vinstra heilahvel að geyma málstöðvar heilans. Þannig getur skemmd í vinstra heilahveli bæði valdið lömun í hægri hlið líkamans og tjáskipti-vandamálum. Sum þessarra einkenna geta minnkað eða horfið með tímanum. Einnig getur þú lært að nýta þér aðrar leiðir til þess að bæta þér upp þá líkamsstarfsemi, sem truflaðist við heilablóðfallið.

  • Vandamál á fyrstu vikum eftir heilablóðfallNýtt heilablóðfall
    Þeir sem fengið hafa heilablóðfall eru í meiri hættu en aðrir á að fá endurtekið áfall. Hins vegar minnka líkurnar á nýju áfalli eftir því sem lengra líður frá því fyrra. Allt að 10% sjúklinga fá nýtt áfall á fyrsta árinu eftir heilablóðfall. Líkur á endurteknu áfalli hjá þér og gera ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir frekari áföll. Stundum koma slíkar ráðstafanir þó ekki að fulli gagni.Hjartaáfall
    Margir heilablóðfallssjúklingar hafa einnig kransæðasjúkdóma.

    Lungnabólga
    Hj&aacu te; þeim, sem eiga erfitt meða að kyngja og svelgist á af og til vegna slappleika í kyngingarvöðvum, getur vökvi komist niður í lungun og valdið lungnabólgu. Því verður að fylgjast sérstaklega með þeim, sem eiga erfitt með að kyngja.

    Blóðtappi í bláæð
    Sé veruleg lömun í útlim getur blóðtappi myndast í bláæð. Því er mikilvægt að hreyfa með reglulegu millibili útlimina, sem eru alveg lamaðir til þess að örva bláæðablóðstreymið. Myndist blóðtappi, þarf að beita fullri blóðþynningu.

    Heilabjúgur
    Bjúgur kemur oftast í heilasvæði sem skemmist þegar æð lokast í heila. Yfirleitt þarf ekki að meðhöndla þennan bjúg sérstaklega, en sé hann mjög mikill getur þurft að gefa lyf til þess að minnka hann.

    Þvagfæravandamál
    Stundum drekka sjúklingar með heilablóðfall of lítið af vökva eða eiga í tímabundnum vandræðum með að kasta af sér þvagi. Mikilvægt er að fylgjast með því að þvaglát séu eðilileg og meðhöndla sýkingar í þvagi, séu þær til staðar.

    Þunglyndi og kvíði
    Þunglyndi getur gert vart við sig eftir heilablóðfall, ýmist fljótlega eftir áfallið eða nokkrum vikum eftir það. Þunglyndi getur hamlað endurhæfingu og er því mikilvægt að meðhöndla það hverju sinni.

    Flogaköst
    Stundum fær fólk flogaköst eftir heilablóðfall. Flogaköst eru einkenni um tímabundna truflun á rafvirkni heilans. Yfirleitt svara þessi köst lyfjameðferð vel og eru ekki til vandræða.

    Verkir
    Máttminnkun í útlimum geta fylgt vegna slæmrar stöðu á liðum. Oftast er um axlarverki að ræða, en þá er gjarnan hægt að laga með viðeigandi meðferð og þjálfun. Truflun í sjálfráða taugakerfinu getur einnig framkallað verki í útlimum og truflun á starfsemi skynbrauta getur valdið óþægilegum skynjunum og verkjum. Oftast eru verkirnir tímabundnir, og unnt að slá á óþægindin með lyfjameðferð.

    Stjarfi
    Stjarfi kemur oft í kjölfar heilablóðfalls. Stjarfi er stöðugur samdráttur í vöðva í lömuðum útlimum og tilfellið er að oft hjálpar svona stjarfi fólki með helftarlömun að ná göngufærni. Stundum veldur hann þó verkjum og erfiðleikum í aðhlynningu og í slíkum tilfellum er nauðsynlegt að meðhöndla stjarfann sérstaklega.

  • Endurhæfing eftir heilablóðfallLiggir þú á sjúkrahúsi eftir heilablóðfall, er mjög líklegt að þeir sem vinna að endurhæfingu þinni starfi í hópi eða svkölluðu teymi. Svona teymisvinna gerir það að verkum að allt fagfólkið sem sinnir þér vinnur þéttar saman um leið og hver meðlimur teymisins leggur til sína sérþekkingu. Meginmarkmið þessa þverfaglega teymis er að hjálpa fólki til sjálfshjálpar þannig að sérhver einstaklingur nái bestri mögulegri færni. Hér á eftir verður fagfólk heilablóðfallsteymisins kynnt:Læknir
    Hlutverk læknis er að taka ákvörðun um nauðsynlegar rannsóknir og meðferð til að fyrirbyggja endurtekið heilablóðfall. Einnig metur hann og meðhöndlar fylgikvilla er upp kunna að koma, eins og t.d. háþrýsting, og ákveður hvaða teymisaðilar þurfi að leggja hönd á plóginn í endurhæfingunni og kallar þá til eftir þörfum. Læknir metur einnig þörf á hjálpartækjum í samráði við sjúkra- og iðjuþjálfa. Hann miðlar upplýsingum til sjúklinga og ættingja þeirra um rannsóknarniðurstöður og meðferð.

    Læknar af mismunandi sérsviðum geta komið að meðferð einstakra sjúklinga s.s. taugasjúkdómalæknar, endurhæfingarlæknar, hjartalæknar, innkirtlalæknar og aðrir lyflæknar. Eftir útskrift koma sjúklingar reglubundið til eftirlits til þess að tryggja að þeir fái viðhlítandi meðferð. Við eftirfylgd er unnt að taka á vandamálum sem upp koma eftir útskrift.

    Hjúkrunarfræðingur
    Hjúkrunarfræðingur annast hjúkrun og almenna umönnun heilablóðfallssjúklinga. Þar sem hjúkrunarfræðingar eru í mjög nánum samskiptum við sjúklingar og ættingja, gegna þeir lykilhlutverki á bráðastigi veikindanna. Þeir koma oft fyrstir auga á fylgikvilla sem upp koma og með því að gera viðvart er hægt að byrja viðeigandi meðferð snemma. Þeir aðstoða sjúklinga og ættingja og veita fræðslu um gang sjúkdómasins.

    Hjúkrunarfræðingur aðstoðar þig og fjölskyldu þína, í samvinnu við aðra meðferðaraðila, við að takast á við breyttar aðstæður. Fyrst eftir áfallið þarf að fylgjast nákvæmlega með almennri líkamsstarfsemi þinni því oft er þörf fyrir mikla aðstoð við daglegar athafnir s.s. við að þvo sér, klæða sig, hreyfa sig og matast.

    Hjúkrunarfræðingar eru til staðar allan sólarhringinn, þeir eru vanir margvíslegum spurningum sjúklingar og aðstandenda þeirra. Þú skalt ekki hika við að snúa þér til þeirra þegar spurningar vakna.

    Hjúkrunarfræðingur teymisins hefur samband við sjúklinga þremur mánuðum eftir útskrift af sjúkrahúsinu til að kanna hvernig gengur og bjóða upp á göngudeildarþjónustu endurhæfingardeildar sé þess þörf.

    Sálfræðingur
    Auk líkamlegra afleiðinga heilablóðfalls geta ýmis konar vitrænar afleiðingar komið í ljós eins og t.d. minnisskerð ing. Slík skerðing er metin með taugasálfræðilegum prófum og í framhaldi af því hafin viðeigandi meðferð. Þunglyndi og kvíði eru einnig algengir fylgikvillar heilablóðfalls. Einkenni þunglyndis geta meðal annars verið depurð og hryggð og síendurteknar hugsanir um dauðann eða jafnvel sjálfsvíg. Mikilvægt er að þunglyndi sé meðhöndlað þannig að það tefji ekki fyrir endurhæfingunni. Áfallið við þennan sjúkdóm getur reynst mörgum sjúklingum og aðstandendum þeirra erfitt. Sálfræðingur teymisins veitir sjúklingum samtalsmeðferð og styður aðstandendur á þessum erfiðu tímamótum.

    Félagsráðgjafi
    Meginmarkmið félagsráðgjafar er að veita einstaklingnum og fjölskyldum þeirra stuðning til að takast á við breyttar sálfélagslegar aðstæður sem upp koma í kjölfar veikinda. Hlutverk félagsráðgjafa í heilablóðfallsteymi er að veita einstaklingum og fjölskyldum þeirra stuðning og ráðgjöf vegna veikindanna.

    Ráðgjöfin felst í að:

    • veita upplýsingar um félagsleg réttindi
    • veita upplýsingar m.a. um húsnæðis- og atvinnumál
    • undirbúa heimferð af sjúkrahúsinu
    • veita stuðning vegna persónulegra og félagslegra málefna.

    Talmeinafræðingur
    Ef í ljós koma erfiðleikar með tal eða kyngingu, kemur talmeinafræðingur og aðstoðar þig. Talmeinafræðingurinn metur tal og mál með sérstökum prófum og gefur ráð um tjáskipti og lengri tíma meðferð sé það nauðsynlegt. Talmeinafræðingur aðstoðar sjúklinga við að ná fyrri færni til tjáskipta og kenna aðrar leiðir til þess, sé þess þörf. Mjög mikilvægt er að kenna aðstandendum góðar leiðir til þess að tala við sjúklinga með taltruflanir.

    Talmeinafræðingur sinnir einnig sjúklingum sem eiga í erfiðleikum með að tyggja eða kyngja. Stundum eru ráðlagðar breytingar á mat og mataráferð ef um kyngingartregðu er að ræða. Slíkar breytingar á matnum eru gerðar í samráði við næringarráðgjafa teymisins.

    Næringarráðgjafi
    Mataræði getur haft áhrif á líkurnar á því að fá heilablóðfall. Ef þú ert með of háa blóðfitu er í sumum tilvikum hægt að lækka hana með réttu mataræði. Einnig getur ofþyngd eða mikil saltneysla hækkað blóðþrýsting. Rétt mataræði getur skipt máli og er þá hin daglega fæða mikilvægust en ekki hvað við erum að borða á hátíðis- og tyllidögum. Næringarráðgjafi veitir ráðgjöf um æskilegt mataræði. Einnig aðstoðar hann þá sem eru lystarlausir eða eiga erfitt með að kyngja eða tyggja við að velja mat við hæfi.

    Sjúkraþjálfari
    Sjúkraþjálfari metur hreyfigetu, jafnvægi og samhæfingu. Hann metur einnig þörf á hjálpartækjum. Meðferð sjúkraþjálfara felst aðallega í því að leiðbeina með æfingar og þjálfun til að bæta hreyfistjórn í almennum athöfnum s.s. að setjast upp, standa á fætur og ganga.

    Þjálfunin miðar þannig að því að ná sem mestu af fyrri hreyfigetu og að einstaklingurinn geti nýtt til fullnustu þá hreyfigetu sem hann hefur. Sjúkraþjálfarinn leiðbeinir einnig aðstandendnum og umönnunaraðilum, gerist þess þörf, um það hvernig þeir geta aðstoðað sjúkling við þjálfun og hreyfingu.

    Iðjuþjálfi
    Iðjuþjálfi metur færni þína við eigin umsjá, sem felur í sér allar þær athafnir sem þú leysir af hendi daglega, eins og til dæmis að klæða þig, afklæðast, þvo þér og snyrta, borða og komast um. Einnig er í samráði við þig metin færni við verk sem þú ert vanur að sinna, eins og heimilisstörf, atvinnu og tómstundariðju, og þú svo þjálfaður við þessi sömu verk.

    Til þess að þú náir settum markmiðum þarf oft að nota hjálpartæki. Metið er hvaða hjálpartæki henta hverju sinni og þér kennd notkun þeirra. Markmiðið er alltaf að þú verðir eins sjálfbjarga og kostur er við daglega iðja, og að þú öðlist lífsgæði þrátt fyrir fötlunina.

    Í ákveðnum tilfellum, og alltaf í samráði við þig og aðstandendur fer iðjuþjálfinn, ásamt öðrum fagaðila heim til þín til að meta aðstæður og umhverfi. Oft þarf að hagræða innan heimilisins, svo þú getir búið heima við sem öruggastar aðstæður.

    Metið er m.a. hvernig þú kemst sem auðveldast um heimilið, í og úr rúmi, á salerni og í bað. Hagræða þarf e.t.v. hlutunum þannig að þeir séu innan seilingar. Ef þurfa þykir fer iðjuþjálfi með þér í vinnustaðaathugun.

    Mikilvægt er að sinna fyrri tómstundun eða finna nýjar tómstundir sem veita gleði og vellíðan. Meðan þú liggur inni á sjúkrahúsinu aðstoðar iðjuþjálfinn þig við að ná tökum á slíkum áhugamálum.

  • Batahorfur og almenn ráðBati eftir heilablóðfall getur komið mishratt og einkennin ganga misvel tilbaka. Ekki er víst að læknir sem annast þig geti í upphafi spáð fyrir um það að hve miklu leyti eða hve hratt þú kemur til með að ná þér eftir heilablóðfallið. Meira er oftast hægt að segja þegar nokkrar vikur eru liðnar frá því að þú veiktist. Hjá hluta sjúklinga með heilablóðfall ganga einkennin hratt til baka á fyrstu 6-8 vikunum eftir áfallið. Skýringin á því getur verið sú, að bjúgur , sem myndast, minnkar og heilafrumurnar á svæðinu aðlægt heiladrepssvæðinu sjálfu ná sér að einhverju leyti aftur.Jafnvel þótt þú lagist ekki í fyrstu, getur hægfara bati komið á næstu mánuðum. Reyndu að missa ekki móðinn ef þú ert í þessum hópi þó mestur batinn komi á fyrstu 6 vikunum eftir heilablóðfallið, því hann heldur áfram en hægar a.m.k. 1-2 ár eftir heilablóðfallið.

    Eftir þann tíma er aukin færni oftast vegna þess, að þú hefur lært að nýta þér aðrar leiðir til þess að ná settum markmiðum fremur en að um raunverulegan bata sé að ræða. Gleymdu því samt ekki að árangur endurhæfingar byggist að verulegu leyti á sjálfum þér.
    Settu þér raunhæf markmið með aðstoð enduhæfingarteymisins sem vinnur að þjálfuninni með þér. Hugsanlega geta eftirtalin ráð hjálpað þér að ná betri færni:

    • Gættu þess að fá næga hvíld. Það er eðlilegt að finna til mikillar þreytu fyrstu mánuðina eftir heilablóðfall.
    • Reyndu að láta hverjum degi nægja sína þjáningu. Kannski hjálpar það þér ef þú reynir að setja þér lítil markmið á hverjum degi og vinna að þeim, s.s. að bursta sjálfur í þér tennurnar, eða ganga stutta vegalengd hafir þú næga færni. Þannig vinnast litlir sigrar smátt og smátt.
    • Taktu þér nægan tíma í að gera hlutina, jafnvel þótt þér og fjölskyldu þinni þyki sá tími óþolanlega langur. Ef þú ert alltaf að setja sjálfum þér tímamörk veldur slíkt aðeins meiri vanlíðan. Lærðu á sjálfan þig og hve langan tíma það tekur þig að framkvæma hlutina og skipuleggðu daginn eftir því. Sjúkraþjálfari getur líka gefið leiðbeiningar um hvað hentar þér til að auka hreyfifærni þína.
    • Reyndu að lifa reglubundnu líf og taka til við fyrri áhugamál eða skapaðu þér ný. Fyrstu mánuðirnir eftir heilablóðfall geta verið lengi að líða og því er mikilvægt fyrir þig að hafa eitthvað fyrir stafni. Iðjuþjálfi mun koma með hugmyndir að verkefnum við hæfi og leiðbenir þér ef þú ert í vafa um hvað þú getur gert.
  • Leiðir til að draga úr hættu á endurteknu heilablóðfalli
    Þú getur dregið talsvert úr áhættunni á endurteknu áfalli með því að endurskoða eftirtalin atriði, eigi þau við þig. Hafa ber í huga að áhætta margfaldast hafi sami einstaklingur fleiri en einn áhættuþátt.Hár blóðþrýstingur
    Nauðsynlegt er að láta fylgjast með blóðþrýstingi þar sem hækkaður blóðþrýstingur er einn af stærstu áhættuþáttunum fyrir endurteknu heilablóðfalli. Ef endurteknar blóðþrýstingamælingar sýna of há gildi, er ef til vill þörf á lyfjameðferð. Spurðu lækninn þinn hversu oft þú eigir að fá blóðþrýstinginn mældan. Mikil saltneysla getur aukið líkur á háþrýstingi og einnig hækkar blóðþrýstingur oft hjá þeim sem eru of þungir. Mikilvægt er því að létta sig og minnka notkun á salti ásamt því að borða sjaldnar mikið saltan mat.

    Hjarta- og æðasjúkdómar
    Fólk með hjarta- og æðasjúkdóma er í meiri hættu en aðrir að fá heilablóðfall. Hafir þú hjartasjúkdóm er mikilvægt að þú takir á öðrum áhættuþáttum, sem þú hugsanlega hefur samhliða. Sé talið að ástæða segamyndunar hafi verið óregla á hjartslætti (gáttatif) er hugsanlegt að læknirinn þinn mæli með fullri blóðþynningu með blóðþynningarlyfinu kóvar, sem hindrar storknun blóðs. Sé þér ráðlagt að nota þetta lyf þarftu að fara í blóðprufu með reglulegu milibili, þar sem þynningin á blóðinu er mæld. Næsti lyfjaskammtur er ákveðinn með hliðsjón af niðurstöðu þessarrar mælingar. Þeir sem eru á blóðþynningarlyfi, þurfa að vara sig á fjölda lyfja sem geta virkað truflandi á blóðþynninguna. Ekki hika við að ræða markmiðið sem slíkri meðferð og aukaverkanir lyfsins við lækninn þinn.

    Lítill skammtur af magnýl getur dregið úr líkum á nýju heilablóðfalli hjá hluta einstaklinga, þ.e. hjá þeim sem hafa fengið heilablóðfall af völdum æðakölkunar. Magnýl er ekki blóðþynnandi heldur dregur það úr samloðun blóðflagna og hamlar þannig myndun blóðtappa. Lyfið hefur aukaverkanir, jafnvel í litlum skömmtum. Taktu það því ekki án samráðs við lækni. Hægt er að kaupa það án lyfseðils í apótekum. Ef þú þolir magnýl illa, eru til önnur lyf, sem gera sama gagn.

    Sykursýki
    Sykursýki er sennilega einn sterksti áhættuþáttur æðasjúkdóma og eykst áhættan sé sykursýkinni illa sinnt. Hafir þú sykursýki er mikilvægt að þú gætir vel að meðferð við henni. Ráðgastu við lækninn þinn um þetta.

    Hækkaðar blóðfitur
    Hækkaðar blóðfitur auka líkur á heilablóðfalli. Til að draga úr hættu á að kólesteról ver&eth ;i of hátt er nauðsynlegt að draga úr neyslu á harðri fitu eins og smjöri, smjörlíki, feitu kjöti, rjóma og þess háttar. Mjúk fita, eins og matarolíur og lýsi, hefur aftur á móti ekki áhrif til hækkunar á kólesteróli. Ef þríglýserið eru of há þarf að minnka neyslu á allri fitu og sætinum og neyta alkóhóls í hófi. Einnig ættu þeir sem eru of þungir að reyna að létta sig.

    Offita
    Offita eykur líkur á heilablóðfalli en getur einnig aukið áhrif annarra áhættuþátta. Mest áhætta er hjá þeim sem hafa safnað á sig ístru (eða eru með mikla fitusöfnun í kringum mitti). Offita getur valdið hækkun á blóðþrýstingi sem lækkar um leið og fólk léttist. Hækkaðar blóðfitur sjást einnig oft hjá þeim sem eru of þungir. Sértu of þung/ur, er ráðlagt að þú léttir þig. Best er að borða reglulega 3-5 máltíðir á dag og borða ekki of mikið í einu. Þú ættir að forðast feitan mat og sætindi en leggja í staðinn áherslu á að borða fisk, magurt kjöt, magrar mjólkurvörur, brauð, kartöflur, hrísgrjón, pasta, grænmeti og ávexti og drekka vatn. Næringarráðgjafi gefur góð ráð varðandi þetta.
    Líkamshreyfing
    Reglubundin áreynsla dregur úr líkum á heilablóðfalli. Leitaðu ráða hjá lækni eða sjúkraþjálfara varðandi þær æfingar, sem þér er hollt að gera eftir heilablóðfall.Áfengi
    Óhófleg áfengisneysla getur hækkað blóðþrýsting svo mikilvægt er að þú haldir áfengisneyslu þinni innan skynsamlegra marka. Neytir þú verulegs magns áfengis daglega er ráðlegt að þú hættir alveg allri áfengisneyslu.Reykingar
    Reykingamenn eru í meiri hættu en aðrir að fá heilablóðfall og áhættan magnast enn hafi þeir jafnframt háþrýsting. Sértu reykingamaður og hættir reykingum mun það bæði draga úr líkum á því að þú fáir nýtt heilablóðfall og bæta heilsu þína á annan hátt. Leitaðu aðstoðar hjá lækninum þínum ef þú vilt hætta að reykja.

    Hagnýt símanúmer og netföng:

    Félag heilablóðfallsskaðaðra, Hátúni 12 sími 561-2200

    Göngudeild endurhæfingar- og hæfingardeildar Landsspítalans. sími 560-2753 netfang kristmag@rsp.is

    Göngudeild taugalækningadeildar Landspítalans 32A sími 5601680 netföng halldola@rsp.is og margeiri@rsp.is

    Göngudeild sykursjúkra 10E sími 560-2111 netfang sigrunla@rsp.is

    Hjartavernd, landssamtök hjarta- og æðaverndarfélaga á Íslandi sími 581-3755

    Námskeið til að hætta reykingum, t.d. hjá:

    Heilsuverndarstöð Reykjavíkur sími 552-2400 netfang dagmar.jonsdottir@hr.is

    Krabbameinsfélagi Reykjavíkur sími 562-1414 netfang thoram@krabb.is

    Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði (tilvísun frá lækni) sími 483-3017 netfang beidni@hnlfi.is

    Reykjalundi (tilvísun frá lækni) sími 566-6200

    Áfengismeðferð t.d. hjá:

    SÁÁ Síðumúla 3-5 sími 530-7600

    Megrunaraðstoð t.d. hjá:

    Heilsugæslustöðvum

    Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði (tilvísun frá lækni) sími 483-0317 netfang beidni@hnlfi.is

    Reykjalundi (tilvísun frá lækni)sími 566-6200

    Trimm/hreyfing t.d.:

    Á stofum sjúkraþjálfara eftir tilvísun frá lækni.