Hvað eru hitakrampar?
Um 5% barna á Íslandi fá hitakrampa við sótthita a.m.k. einu sinni um ævina. Þetta gerist yfirleitt á fyrstu árunum (1-3 ára) og er oftast hættulaust. Sjaldgæft er að börn undir eins árs og börn yfir sex ára aldri fái hitakrampa.
Orsakir hitakrampa eru ekki þekktar en börn geta erft tilhneigingu til hitakrampa frá foreldrum sínum. Líkur á hitakrampa aukast ef hiti hækkar snögglega.
Um það bil 3 af hverjum 10 börnum sem hafa fengið hitakrampa fá annað kast, líkurnar aukast ef barnið er undir eins árs þegar það fær sinn fyrsta hitakrampa og einnig ef barnið hefur fengið hitakrampa oftar en einu sinni.
Börn með hitakrampa eiga að fá sömu bólusetningar og önnur börn.
Hver eru einkennin?
Algengast er að hitakrampi komi fram þegar hiti hækkar snögglega og oft í upphafi veikinda. Stundum byrjar hann með kokhljóði en það orsakast vegna samdrátta vöðva.
Það verður skyndileg skerðing á meðvitund hjá barninu, stundum renna augun upp á við og barnið stífnar upp og/eða það fara taktfastir kippir um líkamann (allann eða að hluta til).
Öndun barnsins getur breyst og orðið grunn og óregluleg.
Húðin í kringum munn og á vörum verður bláleit eða föl.
Yfirleitt er sótthiti yfir 38°c.
Oft standa þessir hitakrampar yfir í hálfa til þrjár mínútur en þeir geta verið lengur að ganga yfir. Eðlilegur húðlitur og meðvitund koma eftir stutta stund. Sum börn vakna fljótt en önnur eru sljó og dösuð í einhvern tíma og jafnvel sofna, þau svara þó áreiti. Þrátt fyrir að kastið vari einungis í nokkrar mínútur er eins og heil eilífð líði áður en það hættir. Krampaköst hjá börnum er alltaf óhugnanleg.
Hvað á að gera ef barnið fær hitakrampa?
Það skiptir miklu máli að halda ró sinni, þetta er óhugnalegt en barnið er ekki í lífshættu.
Takið tímann á því hve lengi krampinn varir.
Snúið/leggið barnið á hliðina á öruggum stað þar sem það getur ekki slasað sig á neinu. Barnið er haft á hliðinni svo að hugsanleg uppköst eða munnvatn fari ekki niður í kok úr munninum.
Fylgist með barninu og hvernig krampinn er (t.d. hvar kippirnir eru, litarhátt, hvernig augun eru). Gott getur verið að tala blíðlega til barnsins á meðan krampinn gengur yfir.
Þegar krampinn er búinn skiptir máli að reyna að lækka hitann hjá barninu, það er hægt með því að gefa því hitalækkandi lyf og/eða hafa barnið léttklætt.
Ef þér finnst þú óörugg/ur þá er hægt að hringja á sjúkrabíl í síma 112.
Hafið samband við lækni ef barnið er að fá krampa í fyrsta sinn
Öll börn þarf að skoða af lækni eftir fyrsta hitakrampa.
Hringið á sjúkrabíl í síma 112 ef:
- Hitakrampinn er ekki genginn yfir eftir 5 mín. eða ef annar krampi byrjar snögglega eftir að hinn hættir.
- Ef barnið er ekki með fulla meðvitund klukkutíma eftir krampa eða var ekki með fulla meðvitund klukkutíma fyrir krampann.
- Einnig ef grunur leikur á að sótthitinn hjá barninu geti mögulega verið vegna alvarlegra veikinda sem þarf að bregðast við t.d. alvarlegar sýkingar.
Nauðsynlegt er að ganga úr skugga um hvað veldur hitanum.
Ef barnið hefur áður fengið hitakrampa er ekki nauðsynlegt að fara með barnið á sjúkrahús, látið þó lækni vita um kastið.
Ef barnið er með hita:
Kælið barnið með því að klæða það úr fötunum og hafa aðeins lak ofan á því. Opnið glugga (en gætið þess að það verði ekki of kalt). Gefið barninu eitthvað kalt að drekka.
Einnig er hægt að gefa barninu hitalækkandi lyf eins og Paracetamol eða Nurofen. Það getur gagnast að gefa þessi lyf sérstaklega ef barninu líður illa eða vill ekki drekka. Mikilvægt að gefa rétt magn og fylgja leiðbeiningum á umbúðum.
Til að meðhöndla hita má gefa Paracetamol 15 mg/kg á 6 klst. fresti og/eða Nurofen mixtúru 10 mg/kg á 8 klst. fresti.
Hitakrampar líkjast krömpum flogaveikra, en þeir tengjast sjaldnast flogaveiki.
Framtíðarhorfur
Þrátt fyrir að krampaköstin séu óhugnanleg valda þau sjaldan skaða. Ef kramparnir vara mjög lengi, eða ef barnið hefur fengið mörg köst á stuttum tíma, getur það bent til truflana á starfsemi heilans. Mikilvægt er að leita til læknis ef krampar koma upp reglulega.
Ef barnið þitt hefur fengið hitakrampa skaltu ráðfæra þig við lækni um hvernig þú átt að bregðast við næst þegar barnið fær hita.
Í 30% tilfella fær barnið aftur krampa þegar það fær hita. Með tímanum dregur úr hættunni og yfirleitt er hún gengin yfir þegar barnið nær 4 ára aldri.
Þessi grein er unninn upp úr bæklingnum ,,Hitakrampi hjá börnum“ sem gefinn var út af Landspítala.
Höfundur greinar
Særún Erla Baldursdóttir, hjúkrunarfræðingur
Allar færslur höfundar