Bjúgur er þroti eða bólga í vefjum líkamans. Bjúgur er oftast staðsettur á fótleggjum og ökklum en getur einnig komið fram í andliti, á höndum og öðrum líkamshlutum. Algengast er að óléttar konur og aldraðir fái bjúg en allir geta fengið bjúg. Bjúgur er ekki smitandi á milli fólks og er ekki ættgengur.
Ef einstaklingur er með þrota eða bólgu í fótum, ökklum eða öðrum líkamshlutum sem ekki tengist meiðslum getur það verið bjúgur. Það er hægt að fá bólgu eða þrota um allan líkamann eða bara takmarkað við einn líkamshluta í einu. Bjúgur getur valdið óþægindum og jafnvel takmarkað hreyfingar í útlimum.
Bjúgur stafar af vökvasöfnun í vefjum líkamans. Margt getur valdið því að vökvinn safnist upp. Sem dæmi má nefna: það að sitja kyrr eða standa í lengri tíma getur valdið bjúg í fótleggjum, þyngdaraflið getur togað vökva niður í fætur og ökkla, þröngur fatnaður, að borða mat með miklu salti getur gert vandamálið enn verra, svo getur bjúgur einnig verið aukaverkun ákveðinna lyfja. Þá eru líka ákveðin heilsufarsvandamál sem geta valdið bjúg, eins og hjartabilun, lifrar- og nýrnasjúkdómar, æðahnútar og offita.
Það fer eftir því hvað orsakar bjúg hvort hægt sé að koma í veg fyrir hann eða einungis meðhöndla hann. Í ákveðnum tilfellum er hægt að koma í veg fyrir bjúg en það er t.d. þegar hann stafar af of mikilli saltneyslu, þá er lausnin að borða minna salt til að koma í veg fyrir hann. Ef bjúgur stafar af heilsufarsvandamálum er aðeins hægt að meðhöndla hann en ekki koma í veg fyrir hann. Til þess að meðhöndla bjúg þarf að meðhöndla ástandið sem er að valda honum í samráði við lækni. Einnig er í einhverjum tilfellum hægt að taka þvagræsilyf í samráði við lækni, en það hjálpar við að skola salti og auka vökva út úr líkamanum.
Það er mikilvægt að einstaklingur fari til læknis ef hann er með bjúg, sérstaklega ef viðkomandi er barnshafandi, ef bjúgur er ekki meðhöndlaður getur húðin haldið áfram að teygja sig. Þetta getur leitt til annarra heilsufarslegra vandamála á meðgöngu. Ef einstaklingar með bjúg eiga í öndunarerfiðleikum hringið strax á 112.
Höfundur greinar
Særún Erla Baldursdóttir, hjúkrunarfræðingur
Allar færslur höfundar