Almenn kvíðaröskun er þegar einstaklingur hefur verið óhóflega kvíðinn eða áhyggjufullur eða á erfitt með að láta af áhyggjum í meira en 6 mánuði. Fólk með kvíðaröskun finnur fyrir a.m.k. þremur af eftirfarandi einkennum: Eirðarleysi, vöðvaspennu, pirringi, svefntruflunum og þreytu. Þetta fólk á erfitt með að slaka á og er stöðugt áhyggjufullt.
Einkenni
Einkenni kvíðaröskunar geta verið líkamleg og er nauðsynlegt að ganga úr skugga um að ekki sé um líkamlega sjúkdóma að ræða. Því er gott að leita fyrst til heimilislæknis. Einnig er hægt að leita beint til sálfræðinga eða geðlækna sem geta þá ýmist veitt meðferð eða vísað fólki áfram. Sálfræðinga og geðlækna er hægt að nálgast í gegnum bráðaþjónustu eða göngudeildir sjúkrahúsa og á stofum.
Því miður halda flestir sem hafa almenna kvíðaröskun að um óbreytanlegt persónueinkenni sé að ræða. Þeir leita þeir sér því oft ekki meðferðar fyrr en kvíðinn hefur undið upp á sig, svo sem með áfengismisnotkun, felmtursröskun eða þunglyndi. Aðeins um fjórðungur þeirra sem eiga við almenna kvíðaröskun að stríða fá því meðferð.
Meðferð
Helstu meðferðir við kvíðaröskun eru sálfræðimeðferð, lyfjameðferð eða blönduð meðferð. Mælt er með því að byrja meðferð án lyfja.
Hugræn atferlismeðferð hefur reynst árangursrík í meðferð kvíðaraskana. Meðferðarformið hefur verið í örum vexti og útbreiðslu síðasta aldarfjórðunginn og byggist á fjölda árangursrannsókna. Hugræn atferlismeðferð byggist á því grundvallaratriði að hugsun okkar hefur mikil áhrif hvernig okkur líður og hvernig við hegðum okkur. Hún byggist á því að hægt sé að finna og breyta þeim hugsunum eða áhyggjum sem kveikja og viðhalda kvíðanum. Hugræn atferlismeðferð byggir að miklu leyti á heimavinnu, þar sem fólk er til dæmis látið fylgjast með og skrá eigin hugsanir, tilfinningar og hegðun. Þar sem ein afleiðing stöðugs kvíða er að fólk á erfitt með að slaka á er slökunarþjálfun oft stór þáttur í meðferð. Meðferðina er best að sníða að hverjum og einum. Sálfræðingur og meðferðaraðili ættu að semja saman meðferðaráætlun sem hægt er að endurmeta reglulega í samræmi við framvindu.
Aðrar sálfræðimeðferðir, svo sem stuðningsmeðferð eða sálgreining, taka yfirleitt lengri tíma. Þar fer öll vinna fram í tímunum. Sumir telja að slíkar aðferðir geti hentað betur en hugræn atferlismeðferð þeim sem eiga við almenna kvíðaröskun að stríða vegna áfalla eða ótta sem tengjast fortíð þeirra.
Breytingar á lífsstíl með minnkun álags og almennri þjálfun daglegra bjargráða einstaklinga geta einnig haft mikil áhrif. Að finna betra jafnvægi milli starfs, fjölskyldu, maka og eigin áhugamála getur verið afar mikilvægt. Við meðferð er mikilvægt að athuga lífsstíl einstaklingsins og greina álagsþætti og möguleg viðbrögð við þeim.
Sjálfshjálp
Sjálfshjálp er mikilvæg þegar um kvíðaraskanir er að ræða því að daglegar venjur hafa mikil áhrif á kvíðaeinkenni. Meðal þess sem magnar kvíða og hægt er að stjórna að einhverju leyti er svefn, reykingar, áfengisneysla, koffínneysla (kaffi, te, súkkulaði, kóladrykkir), lyf, lélegt mataræði, lítil hreyfing, ónóg slökun og fáar tómstundir.
Lyf
Lyfjameðferð er beitt ef kvíðaeinkennin eru alvarleg og hafa áhrif á daglega virkni einstaklingsins. Helstu lyfjaflokkar sem notaðir eru gegn almennri kvíðaröskun eru benzodíazepin- og þunglyndislyf. Lyfjameðferð læknar ekki almenna kvíðaröskun en hún getur slegið á einkennin. Yfirleitt er mælt með að lyf séu aðeins notuð um skamma hríð við almennri kvíðaröskun eða þegar einkenni eru mjög bráð. Þegar lyfjatöku er hætt koma einkennin oft fram aftur, einnig er nokkur hætta á aukaverkunum og jafnvel ánetjun. Ef einkennin eru yfirþyrmandi og gera einbeitingu ómögulega er lyfjameðferð oft beitt í fyrstu samhliða sálrænni meðferð.
Höfundur greinar
Sigrún Inga Gunnarsdóttir Hjúkrunarfræðingur
Allar færslur höfundar