Lungnabólga

Hvað er lungnabólga?

Lungnabólga er bólga í lungnavef. Orsök hennar er örverur (veirur, bakteríur, sveppir og sníkjudýr) eða ertandi (eitur)efni þ.e. ásvelging á magainnihaldi (magainnihald fer niður í lungun) eða innöndun á eitruðum gastegundum.

  • Lungnabólga er mjög algengur sjúkdómur.
  • Rúmlega helmingur lungnabólgutilfella er af völdum bakteríusýkinga og er lungnahnettlusýking (Pneumokokkasýking) algengust.

Hér verður fjallað um lungnahnettlu-lungnabólgu.

Efnisyfirlit

Hvernig smitast lungnabólga?

Smit berst yfirleitt með andrúmslofti, úðasmiti. Það er sjaldgæft að bakterían berist með blóði frá sýktu svæði í líkamanum, t.d. beinsýkingu, til lungnanna. Við alvarleg veikindi er fólk oft svo máttfarið að það á erfitt með að kasta upp. Þá er hætta á að viðkomandi svelgist á og hluti magainnihaldsins fari ofan í lungun. Það getur valdið alvarlegri lungnabólgu.

Hver eru einkennin?

  • Oft er um að ræða veirusýkingu áður en lungnabólgan kemur fram.
  • Sjúklingurinn veikist snögglega með hrolli, háum hita, takverk í brjósti og þurrum hósta.
  • Sólarhring til tveimur sólarhringum síðar fylgir hóstanum uppgangur, yfirleitt grænleitur eða rústrauður (slím blandað blóði).
  • Sýkingunni fylgir oft frunsumyndun við munninn sem er merki um skerta starfsemi ónæmiskerfisins.
  • Sjúklingurinn andar ört og grunnt og brjóstkassinn hreyfist oft minna þeim megin sem lungnabólgan er.
  • Roskið fólk verður oft illa áttað á stað og stund og órólegt.

Hverjir eru í áhættuhópi?

  • Þeir sem misst hafa miltað.
  • Veikt roskið fólk.
  • Sjúklingar með langvinna sjúkdóma t.d. sykursýki, hjarta-, eða lungnasjúkdóma.
  • Þeir sem eru með skert ónæmiskerfi.
  • Alkóhólistar.
  • Börn, sérstaklega langveik börn.

Ráðleggingar

  • Ef miltað hefur verið fjarlægt t.d. eftir slys, er mikilvægt að bólusett (Pneumovax) við lungnahnettlubakteríunni. Bólusetningin dregur úr líkunum á að viðkomandi fái lungnabólgu af þessari tegund. Sprautan er virk í u.þ.b. 5 ár.
  • Rosknu fólki (eldri en 65 ára) er ráðlagt að fá sér bólusetningu ef það hefur einhvern undirliggjandi sjúkdóm t.d sykursýki, hjarta- eða lungnasjúkdóma.
  • Ef kvef varir óvenju lengi og vart verður við einhverja af ofantaalinna einkenna skal leita læknis.
  • Brýnt er að sjúklingar greini frá ferðalögum (utanlandsferðum) í tengslum við veikindi því smit erlendis frá kallar stundum á annars konar meðferð.

Hvernig greinir læknirinn sjúkdóminn?

  • Greiningin byggist á sjúkrasögu, sjúkdómseinkennum og skoðun. Læknirinn hlustar lungun með hlustunarpípu og leitar eftir óeðlilegum öndunarhljóðum.
  • Til frekari greiningar er tekinlungnamynd.
  • Gott er að fá hrákasýni til smásjárskoðunar og ræktunar. Það gefur nákvæmari sjúkdómsgreiningu og auðveldar val á sýklalyfi.

Batahorfur

  • Sjúkdómsferillinn er háður því hvernig ónæmiskerfið bregst við og er því einstaklingsbundið.
  • Endurteknar og langvarandi lungnabólgur hjá rosknu fólki, geta verið merki um undirliggjandi sjúkdóm t.d. lungnakrabbamein.
  • Þegar lungnabólgan er upprætt finnur viðkomandi oft fyrir þreytu og skertu úthaldi í allt að 2-3 vikur.

Hver er meðferðin?

Flestar lungnahnettlur eru næmar fyrir sýklalyfinu penisillíni.

 

Greinin var uppfærð í febrúar 2019 af Guðrúnu Gyðu Hauksdóttur

Höfundur greinar