Sveppasýking

Efnisyfirlit

Hvað er sveppasýking?

Sveppasýking á kynfærum er í flestum tilfellum af völdum Candida albicans sem er gersveppur, þessi sveppur er hluti af eðlilegri flóru í leggöngum kvenna og á húð en getur við vissar aðstæður fjölgað sér og þannig valdið óþægindum. Talið er að um 75% kvenna fái sveppasýkingu minnst einu sinni yfir ævina.

Einkenni hjá konum

  • Kláði og óþægindi á kynfærasvæði
  • Roði og bólga
  • Útbrot
  • Hvít útferð
  • Slæm lykt
  • Óþægindi við kynlíf

Orsakir/áhættuþættir

  • Lyf: Sýklalyf, ónæmisbælandi lyf, sterar, getnaðarvarnarpillan og önnur hormónalyf
  • Meðganga
  • Sykursýki
  • Offita
  • Óþrifnaður
  • Sterkar sápur

Greining

Greining er gerð út frá einkennamati en einnig er hægt að taka strok hjá lækni. Í einstaka tilfellum er sýni sent í ræktun.

Meðferð

Sveppasýking er meðhöndluð ef einkenni valda óþægindum og lagast ekki að sjálfu sér. Hægt er að fá í apóteki án lyfseðils bæði krem og stíla en í einstaka tilfellum þarf töflumeðferð.

Hvenær skal leita til læknis?

  • Ef þú hefur ekki fengið sveppasýkingu áður og ert ekki viss hvort um sveppasýkingu sé að ræða.
  • Ef einkenni lagast ekki að sjálfu sér
  • Ef einkenni lagast ekki með notkun á kremum eða stílum úr apóteki
  • Ef þú færð endurteknar sveppasýkingar, fjórum sinnum eða oftar á ári
  • Ef einkenni eru það slæm að slímhúð rofnar eða sár myndast

Ráðleggingar

Sveppir þrífast best í dimmu, röku og heitu umhverfi og því er mikilvægt að leyfa svæðinu að lofta sem mest t.d. með því að sofa án undirfata. Sumar konur geta verið viðkvæmar fyrir því að ganga í nærfötum úr gerviefnum og hafa þá nærföt úr bómull reynst þeim best sem eru gjarnar að fá sveppasýkingu. Þröng föt t.d. aðhaldssokkabuxur eða þröngar gallabuxur halda svæðinu röku og lokuðu og geta þannig ýtt undir sveppasýkingu.

Varast ber að nota sterkar sápur á kynfærasvæðið og á helst að nota einungis vatn, ef notuð er sápa þarf hún að vera mjög mild og hafa lágt sýrustig, hægt er að fá sérstakar sápur sem ætlaðar eru á kynfærasvæði í apótekum og flestum matvöruverslunum. Einnig þarf að passa að túrtappar, bindi og innlegg innihaldi sem minnst af óæskilegum efnum s.s. klór, gerviefnum og ilmefnum.

Mjólkursýrugerlar

Mjólkursýrugerlar (lactobacillus) eru náttúrulega til staðar í leggöngum og meltingarvegi og halda ofvexti gersveppa (candida) í skefjum. Hægt er að neyta mjólkursýrugerla sem fyrirbyggjandi við sveppasýkingu og/eða stytta meðgöngutíma sýkingarinnar t.d. þegar tekin eru inn sýklalyf eða aðrir áhættuþættir eru til staðar. Hægt er að taka inn mjólkursýrugerla í töfluformi sem fást t.d. í apótekum en einnig finnast þeir í mjólkurvörum svo sem LGG+ og AB mjólk. Gamalt húsráð er að bera einfaldlega AB mjólk á kynfærasvæðið eða sprauta AB mjólk inn í leggöngin og hefur það reynst sumum vel. Í dag ættu þó að vera til í apótekum krem og stílar sem innihalda mjólkursýrugerla til notkunar í þessum tilgangi.

Kynlíf

Þrátt fyrir að sveppasýking flokkist ekki sem kynsjúkdómur getur kynlíf haft áhrif á sveppaflóru legganganna, það gerist helst þegar kynlíf er stundað í fyrsta sinn, í fyrsta sinn eftir langan tíma eða með nýjum bólfélaga. Ekki er þörf á að hætta að stunda kynlíf á meðan einkenni sveppasýkingar eru til staðar en hafa skal í huga að kynlíf getur verið óþægilegt eða jafnvel sársaukafullt á meðan og kynlíf getur seinkað bataferlinu. Í einstaka tilfellum getur bólfélagi smitast af sveppasýkingu og því þurfa báðir aðilar að gæta hreinlætis eftir kynlíf.

Sveppasýking hjá körlum

Einkenni

  • Roði og bólga við forhúð
  • Kláði
  • Skán undir forhúð
  • Í alvarlegum tilfellum getur orðið forhúðarþrenging

Orsakir/áhættuþættir

  • Langvarandi raki t.d. vegna svita eða ef svæðið er ekki þurrkað nægilega vel eftir sturtu.
  • Óþrifnaður
  • Sterkar sápur
  • Sykursýki
  • Offita
  • Kynlíf (sveppasýking flokkast ekki sem kynsjúkdómur en getur smitast við kynlíf frá konu til karls)

Meðferð

Halda svæðinu hreinu og þurru, reyna að forðast það að nota sápu og þurrka svæðið vel eftir sturtu. Í sumum tilfellum þarf að nota sveppakrem úr apóteki tímabundið á sýkta svæðið.

Höfundur greinar