Úlnliðsbrot

Talað er um úlnliðsbrot þegar eitt eða fleiri bein úlnliðsins brotna. Hægt er að tala um opið og lokað úlnliðsbrot, opið úlnliðsbrot er þegar rof verður á húðinni vegna þess að beinendinn stings út. Lokað brot er síðan þegar húðin er heil yfir brotinu. Einnig getur komið sprunga í beinin, eitt eða fleiri. Algengustu orsakir eru þegar einstaklingar hrasa og bera fyrir sig hendurnar eða lenda harkalega á útréttri hendi. Ákveðnir hópar eru í meiri áhættu á að úlnliðsbrota eins og t.d. þeir sem eru að æfa skauta, eru mikið á snjóbretti eða eru með beinþynningu. Það skiptir máli að meðhöndla úlnliðsbrot sem fyrst, ef það er ekki gert getur beinið gróið vitlaust saman og það getur haft mikil áhrif á daglegt líf einstaklingsins.

Einkenni

Verkur í úlnliðnum sem versnar þegar gripið er um hlut eða hann kreistur fast

Bólga

Mar

Eymsli

Aflögun á úlnlið

 

Ef grunur er um úlnliðsbrot er mikilvægt að leita til læknis sem fyrst. Sérstaklega ef um doða, bólgu eða erfiðleika með að hreyfa fingur er um að ræða. Seinkun á greiningu getur leitt til lélegs gróanda og jafnvel orðið til máttminnkunar í hendi og fingrum og þar með haft áhrif á hreyfigetu.

Orsök

Mjög algeng orsök úlnliðsbrota eru byltur. Þegar einstaklingar detta á útrétta hendina eða þegar þeir eru að reyna að bera fyrir sig hendurnar til að mýkja fallið þegar þeir detta.

Íþróttameiðsli. Mörg úlnliðsbrot verða þegar einstaklingar stunda íþróttir. Sérstaklega snerti íþróttir eða þær þar sem meiri líkur eru á að detta og setja hendurnar fyrir sig, t.d. skautar.

Vélhjólaslys. Algengt er að einstaklingar sem lenda í vélhjólaslysum brjóti á sér úlnliðinn, oft eru það flókin brot sem krefjast skurðaðgerðar.

Áhættuþættir

Eftirfarandi þættir geta orsakað auknar líkur á úlnliðsbroti:

Eins og fram hefur komið þá getur þátttaka í hinum ýmsu íþróttum aukið líkur á úlnliðsbroti, þá sérstaklega snertiíþróttir eða íþróttir sem miklar líkur eru á að detta á útrétta hendina. Þar má nefna t.d. fótbolta, ruðning, hestaíþróttir og trampólín.

Einnig geta undirliggjandi sjúkdómar aukið líkur á úlnliðsbroti, t.d. beinþynning.

Fylgikvillar

Fylgikvillar úlnliðsbrots eru sjaldgæfir en dæmi um þá eru:

Varanlegur stífleiki, verkur eða máttmissir, þetta hverfur yfirleitt þegar gifsið er tekið eða eftir skurðaðgerð. Það er þó í sumum tilfellum sem einstaklingar eru með varanlegan stífleika eða verki. Endurhæfingin tekur tíma og það skiptir miklu máli að vera þolinmóð. Sumir þurfa að fara í sjúkraþjálfun eftir úlnliðsbrot.

Slitgigt, ef brotið teygir sig í liði getur það aukið líkur á að þróa með sér slitgigt árum seinna. Ef einstaklingar fá verk í úlnliðinn löngu eftir brot er mælt með að láta lækni skoða það.

Tauga- eða æðaskemmdir, úlnliðsbrot geta valdið skemmdum á taugum eða æðum við úlnliðinn. Ef einstaklingar fá náladofa eða verða varir við truflanir á blóðflæði skal kíkja strax til læknis.

Forvarnir

Það er ekki hægt að koma í veg fyrir ófyrirsjáanleg slys en þessi atriði hér á eftir geta hjálpað til við að koma í veg fyrir úlnliðsbrot:

Að fá nóg af kalsíum og D-vítamíni daglega er mikilvægt til að viðhalda sterkum beinum.

Dragið úr hættu á byltum á heimilinu. Fjarlægja hluti af gólfum, þurrka strax upp bleytu ef eitthvað hellist niður, hafa snyrtilegt í kringum sig og lítið dót á gólfum sem hægt er að detta um, nota gúmmímottu í sturtu o.fl.

Notið viðeigandi búnað, verið í góðum skóm á æfingum og skiptið þeim út reglulega. Ef farið er í fjallgöngur, notið gönguskó.

Höfundur greinar