Blóðnasir

Blóðnasir eru af tvennum toga:
• Fremri blæðing: Slík blæðing er algengust (90%) en þá blæðir gegnum nasirnar.
• Aftari blæðing: Þá blæðir aftur í munninn eða niður í hálsinn. Slík blæðing getur verið alvarlegs eðlis.
Skyndilegar blóðnasir geta bent til of hás blóðþrýstings, sérstaklega ef um fullorðinn einstakling er að ræða.

Hvað gerirðu?
• Láttu þann sem úr blæðir sitja uppi til að draga úr blæðingunni.
• Hallaðu höfðinu á honum svolítið fram til að blóðið renni út um nasirnar en ekki aftur í háls, það getur valdið teppu í öndunarvegi, ógleði eða uppköstum.
• Haltu jafnt (eða láttu viðkomandi gera það sjálfan) um báðar nasir. Minntu viðkomandi á að anda með munninum og spýta öllu blóði út úr sér.
• Leggja má íspoka yfir nefið til að draga úr blæðingunni, sérstaklega ef hún er afleiðing höggs.
• Ef meðvitundarlaust fólk er með blóðnasir er æskilegt að leggja það í hliðarlegu til að fyrirbyggja að blóð renni niður í lungun og reyna svo það sem lýst er hér fyrir ofan.

Leita skal læknishjálpar ef:
• Blæðingin stöðvast ekki eftir 10-20 mínútur.
• Þig grunar að blæði aftur í háls.
• Viðkomandi er með háan blóðþrýsting, tekur blóðþynningarlyf eða stóra skammta af magnyl.
• Blæðingin er afleiðing höggs á nefið og þig grunar nefbrot.

Athugið þessar upplýsingar koma ekki í stað hefðbundinna skyndihjálparnámskeiða.

Birt með góðfúslegu leyfi Rauða kross Íslands