10 ára sonur minn er of þungur, hvernig dreg ég úr matarþörf hans?

Spurning:

Sæl.

Sonur minn á 10. ári er of þungur. Við höfum ákveðið að gera eitthvað í málinu og átakið er reyndar byrjað. Hann hefur haft góða matarlyst og mig langar til að fá svar við því hvort óhætt sé að gefa honum Primus t.d. til að draga úr matarþörf hans?

Með fyrirfram þökkum.

Svar:

Komdu sæl.

Próteindrykkurinn Primus er góðra gjalda verður og hollustugildi hans ótvírætt. Þess má geta að prótein er það orkuefni (miðað við orkugildi) sem hefur hæsta saðningargildi orkuefnanna. Það orkuefni sem hefur næsthæsta saðningargildið er kolvetni. Reyndar vegur upp á móti að saðningargildi drykkja er í flestum tilvikum ekki eins hátt og fæðu sem sem telst ekki vera í vökvaformi. Sem dæmi má nefna að saðningargildi kolvetnaríkrar appelsínu er hærra en kolvetnaríks appelsínusafa og að sama skapi er saðningargildi próteinsríks skyrs (að ég best veit) hærra en próteinsríks primus. Engu að síður er þér svo sannarlega óhætt að gefa syni þínum Primus drykkinn því hér er um hollan drykk að ræða sem hefur nokkuð hátt saðningargildi.

Með kveðju,
Ólafur G. Sæmundsson, næringarfræðingur