19 ára og of þung – hvað er til ráða?

Spurning:

Kæra Ágústa.

ég var alltaf mjög virk í íþróttum sem barn en núna þegar ég er orðin 19 ára gömul þá er ég hætt að hreyfa reglulega, og ég er komin rúm tíu kíló yfir kjörþyngd. Ég er ein af þeim sem hugsaði aldrei um hvað ég borðaði og, þrátt fyrir stöðugar áhyggjur af þyngdinni, þá er það nær ómögulegt fyrir mig að venja mig á hollt og reglulegt mataræði. Ég er bæði bæði í námi og tveim vinnum á veturna svo ég hef takmarkaðan tíma til að stunda líkamsrækt og er sífellt að borða á hlaupum. Geturðu ráðlagt mér hvaða æfingarprógram er best fyrir mig að fylgja til að grennast aftur sem fyrst án þess þó að vera í stöðugum megrunarkúr?

Með fyrirfram þökkum.

Svar:

Sæl.

Ef þú getur ekki vanið þig á hollt mataræði, sem ég er nú reyndar viss um að þú getur ef þú vilt það, þá verður þú að minnka skammtana af því sem þú borðar. Það eru engar patent lausnir til, þú verður einfaldlega að ná jafnvægi á milli hitaeininganna sem þú borðar og hitaeininganna sem líkami þinn brennir til að viðhalda þyngd þinni og til að léttast þarftu að brenna fleiri hitaeiningum en þú borðar. Megrunarkúr er ekki góð leið, heldur varanlegar breytingar á neysluvenjum og regluleg hreyfing. Ef þú hefur takmarkaðan tíma, vaknaðu þá bara fyrr á morgnana og farðu út að skokka í 25 mín. og gerðu svo armbeygjur og hnébeygjur og kviðæfingar á eftir. Gættu svo hófs í neyslu og reyndu að miða við að borða 1600-1700 he á dag. Slepptu sætindum og gosdrykkjaþambi, og drekktu mikið vatn.
Gangi þér vel.

Kveðja.
Ágústa Johnson, líkamsræktarþjálfari