19 mánaða og vill ekki sofna sjálfur

Spurning:

Hæ, hæ.

Ég er í smá vanda með litla drenginn minn (19 mánaða gamall). Við erum að fara að venja hann við sitt eigið rúm og helst að láta hann sofna sjálfan. Hann er frekur og hefur komist upp með það að vera svæfður (fyrsta barn). Við þurfum orðið að eyða u.þ.b. 20-50 mín. í að svæfa hann. Hann öskrar bara og grenjar ef hann á að fara að sofa. Hann sefur u.þ.b. 1-2 tíma í hádeginu á leikskólanum og er yfirleitt orðinn mjög þreyttur um kl. 20:30-21:00. Hvað getum við gert? Er allt í lagi að láta hann grenja úr sér frekjuna inní rúmi?

Kveðja.

Svar:

Sæll.

Frekar tel ég nú ólíklegt að hægt sé að kenna frekju um svefnörðugleika hjá svona litlu barni. Mikið nær teldi ég að hann væri bara yfirkeyrður, því þá verða börn oft mjög pirruð og erfitt að ráða við þau. Hefur ykkur dottið í hug að láta hann fara fyrr að sofa á kvöldin – t.d. um kl. 19:30 eða 20:00? Svo er hann kominn á þann aldur að hægt er að lesa fyrir hann. Þið gætuð komið ykkur upp notalegri kvöldreglu með baði, lestri og knúsi fyrir svefninn. Svo er mikilvægt að hafa góða reglu á öllu heimilislífi þar sem lítil börn eru. Börn eru nefnilega ótrúlega næm á það ef foreldrar þeirra eru eitthvað að flýta sér að losna við þau í rúmið. Enda hlýtur ykkur að vera jafn mikið í mun að eiga notalega stund með snáðanum eins og honum er mikilvægt að hafa góðan tíma með ykkur eftir aðskilnaðinn yfir daginn. Tuttugu til fimmtíu mínútur í svæfingu telst því varla langur tími ef honum er vel varið í samveru. Varðandi það að láta hann bara gráta – ef börn eru látin gráta út er hætt við að þau hætti að treysta því að fullorðna fólkið sinni þeim þegar þau þurfa á því að halda og upp úr því geta sprottið alls kyns vandamál. Þannig að ég ræð ykkur nú frá því – þótt vitaskuld sé það ykkar að meta.

Ef þið viljið fá nánari útlistanir getið þið skoðað eitthvað af þeim svörum á Doktor.is þar sem ég hef reifað atferlismeðferð vegna svefnvandamála.

Gangi ykkur vel,
Dagný Zoega, ljósmóðir