Hvers vegna kemur svitalykt? Hvernig má forðast svitalykt?
Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina
Sum líkamssvæði hafa mikið af svitakirtlum, önnur minna. Mest af svitakirtlum er að finna í lófum og iljum. Í handarkrikum og nárum er mikið af sérstakri gerð svitakirtla sem framleiða þykkan, fitumikinn svita. Þessi fitumikli sviti getur auðveldlega orðið gróðrarstía fyrir sérstakar tegundir baktería sem brjóta niður fituna og við það myndast lyktarsterk efni, það er svitalykt.
Svitalykt getur orðið að alvarlegu vandamáli sem meðal annars leiðir stundum til félagslegrar einangrunar.
Gott getur verið að fara í sturtu/bað daglega og vanda valið á klæðnaði.
Náttúruleg efni eins og bómull, ull og silki eru ákjósanleg vegna þess að þau hafa þann eiginleika að það loftar betur um húðina og dregur þannig úr líkum á ofhitnun.
Við áreynslu er ýmis íþróttafatnaður til sem er sérstaklega hannaður með það í huga að fjarlægja raka af húðinni.
Notaðu svitalyktareyði, helst án lyktar og ilmefna eða svitameðul sem innihalda álklóríð verka venjulega best.
Slökun getur líka hjálpað því hún dregur úr streitu og þar með líkunum á því að svitna.
Mataræði getur haft áhrif á lykt. Kaffi, og drykkir með koffíni, kryddaður og bragðsterkur matur, allt þetta getur valdið aukningu á svita og þá um leið sterkari svitalykt.
Þú getur lesið þér nánar til hér
Með kveðju
Thelma Kristjánsdóttir, hjúkrunarfræðingur