Spurning:Mig langar að fá ábendingar um hvert ég á að snúa mér með að fá upplýsingar um skurðaðgerðir á getnaðarlimum, með lengingu í huga.Takk fyrir
Svar:Takk fyrir góða spurningu.Ég efast ekki um að fleiri en þú séu áhugasamir um að fá upplýsingar um slíka aðgerð. Því langar mig að fá að koma inn nokkrum upplýsingum til viðbótar við hvar er hægt að fá upplýsingar um þessar skuðaðgerðir.
Mjög margir karlmenn hafa áhyggjur af stærð getnaðarlims síns og hafa flestir áhyggjur af því að hann sé of lítill. Rannsóknir hafa sýnt að meðal lengd er 8.8 sm sem stækkar í 12.8 sm við stinningu. Flestir karlmenn eru hinsvegar með 17-20 sm í huga sem meðallengd við stinningu sem er á engan hátt raunveruleg meðallengd.
Fyrir um það bil 10 árum var farið að framkvæma aðgerðir á getnaðarlimum sem miðuðu einungis að því að breyta útliti þeirra, þ.e. að lengja liminn eða gera hann sverari. Aðgerðir af læknisfræðilegum orsökum hafa hins vegar verið framkvæmdar mun lengur. Því má segja að slíkar aðgerðir séu ekki orðnar mjög þróaðar og árangurinn oft ekki alveg nógu góður. Áður en farið er af stað er mikilvægt að gera sér grein fyrir að þessum aðgerðum, eins og öllum öðrum lýtaaðgerðum, fylgir ákveðin áhætta. Blæðingar, bólgur og sýkingar eftir aðgerð geta gert vart við sig og haft áhrif á árangurinn. Örmyndun og aflögun getur orðið sem getur haft áhrif á kynlíf viðkomandi einstaklings.
Það eru fyrst og fremst tvennskonar aðgerðir sem framkvæmdar eru í þessum tilgangi:
- Annars vegar aðgerðir sem miða að því að lengja getnaðarliminn. Þá er skorið á liðbandið sem liggur frá lífbeininu og að getnaðarlimsrótinni og heldur limnum í reistri stöðu. Festa liðbandsins á lífbeininu er færð neðar og lengist þá getnaðarlimurinn um ca. 30%. Við stinningu liggur limurinn því neðar eftir aðgerðina og stendur meira beint fram en minna upp en áður.
- Hins vegar eru aðgerðir sem miða að því að gera getnaðarliminn breiðari og er þá fita sogin úr kviðarholinu og henni sprautað inn í getnaðarliminn. Hluti fitunnar rýrnar á fyrstu vikunum en um 40% verður eftir og má reyna að endurtaka aðgerðina aftur eftir um það bil 6 mánuði.
Til að fá betri upplýsingar um þessar aðgerðir og þá áhættu og fylgikvilla sem þeim fylgja, og hvort raunveruleg ástæða sé fyrir lengingu á getnaðarlim er best að snúa sér annað hvort til þvagfæraskurðlæknis eða lýtalæknis.
Gangi þér vel
Kveðjur,
Sólveig Magnúsdóttir læknir