4 ára og enn að pissa í buxurnar?

Spurning:
Komið þið sæl!
Þannig er mál með vexti að ég á dóttur sem er að verða 4 ára. Við búum eins og er erlendis. Þegar dóttir mín var rúmlega 2 1/2 árs hætti hún með bleiu sem gekk bara ágætlega þó vissulega yrðu smá slys. Þegar hún var þriggja ára kom hins vegar töluvert bakslag og hún fór aftur að pissa í buxurnar. Ég ákvað því að setja bara bleiu á hana aftur til að hún væri ekki undir eilífri pressu um að pissa ekki í buxurnar og eins til að henni liði ekki illa með að vera að pissa í buxurnar, en henni fannst þetta sjálfri mjög leiðinlegt. Þegar hún var svo rúmlega 3 1/2 árs og nýbyrjuð í leikskóla ákvað ég að prófa að taka bleiuna af henni aftur í samráði við starfsfólk leikskólans og sjá hvernig það gengi. Dóttir mín gerir sér alveg fulla grein fyrir að það á að pissa í klósettið en málið er að hún virðist einfaldlega ekki ná að halda í sér þegar henni verður mál, því þetta kemur svo brátt. Það er ekki eins og hún finni ekki þegar hún þarf að pissa, heldur virðist svo vera að þegar hún fær þvaglátsþörfina þá einfaldlega nær hún ekki að halda í sér nógu lengi til að ná á klósettið. Ef hún er minnt á það trekk í trekk að fara á klósettið gengur þetta nokkuð ágætlega, en ef maður bíður þar til henni sjálfri er mál þá nær hún ekki sjálf að fara á klósettið í tæka tíð. Eins þá er hún svolítið þver á að fara á klósettið þegar maður minnir hana á þetta því þá er henni ekki mál. Svo verður henni skyndilega mál og pissar í buxurnar. Hún pissar einnig oft undir á nóttunni. Ég er að velta fyrir mér hvort hún sé orðin það gömul að sé ástæða til að gera eitthvað í þessu, þ.e. leita læknis og þá jafnvel hvort til sé einhver lyfjameðferð sem gæti hjálpað henni. Hún er mjög bráðþroska á öllum öðrum sviðum og finnst þetta skiljanlega ansi leiðinlegt. Við erum ekki að skamma hana þegar hún missir svona þvag í buxurnar, en hún er náttúrulega á leikskóla með öðrum krökkum, yngri og eldri, sem flest eru hætt með bleiu og tekur eftir þessu sjálf.

Kveðja, móðir í útlöndum

Svar:

Komdu sælJá ég held þú ættir nú svona í rólegheitum að fara að leita leiða til að hjálpa henni með þetta. Þú gætir t.d. byrjað á því að tala við starfsfólkið á leikskólanum hvort þau þekki einhvern góðan sem hafi verið að aðstoða börn varðandi pissuvandamál. Ég veit t.d. að hér heima er svæðanuddari að hjálpa börnum með góðum árangri, sérstaklega þó börnum sem pissa undir. Það mundi ekki saka að prófa eitthvað slíkt áður en farið er í lyf eða annað þess háttar.Það að hún hafi getað hætt með bleiu í byrjun og svo hafi komið bakslag segir manni kannski að hún geti þetta og hugsanlega sé þetta köllun á athygli. Þú gætir þannig prófað atferlisþjálfun þ.e. gert nákvæmlega ekkert úr því þegar hún pissar í sig og látið hana að mestu sjálfa um það að skipta um buxur, en hælt henni óspart og gefið mikla athygli út á það að halda í sér, það mætti jafnvel hugsa sér stjörnukerfi, hún fái stjörnu í hvert einasta sinn sem hún nái á klósett og pissi í það og þegar hún hafi náð t.d. 5 eða 10 stjörnum þá megi hún velja sér eitthvað (dót, hvað er í matinn eða annað sem vekur hugsanlega áhuga hennar). Varðandi aftur á móti það að pissa undir á nóttunni það er annað mál og ekki hægt að gera neitt í því því barnið er að sjálfsögðu sofandi þegar það gerist og því ekki raunhæft að nota atferlisþjálfun þar. Hugsanlega gætu lyf hjálpað, nú eða svæðanudd eða atferlismótun hjálpað ég mæli allavega með því að þú farir að prófa þig áfram og sjá hvort einhver þessara ráða geta hjálpað.Þetta eru nú svona þau ráð sem mér dettur í hug, en það er alltaf gott að ræða þetta við aðila í kringum þig, sem geta þá ráðlagt þér hvert þú getur leitað í nágrenni við þig. Heimilislæknir ykkar og/eða hjúkrunarfræðingur á heilsugæslunni geta jafnframt örugglega leiðbeint ykkur varðandi þennan vanda.Gangi ykkur velMeð góðri kveðju,Jórunn FrímannsdóttirHjúkrunarfræðingurwww.Doktor.is