7 mánaða með vélindabakflæði

Spurning:

Sæll.

Hugsanlegt er að 7 mánaða gamalt barn mitt hafi vélindabakflæði þar sem það ælir mikið (er byrjað á Gaviscon og svarar því mjög vel). Það á að fara í röntgenmyndatöku á vélinda og maga. Er það álit sérfræðings að kostirnir við rannsóknina vegi á móti þeirri geislun sem barnið yrði fyrir? og hvort það myndi breyta einhverju um meðferðina? Það á einnig að fara í sýrumælingu.

Með þökkum.

Svar:

Sæl.

Spurning þín er góð. Vélindabakflæði er algengt hjá ungum börnum, en lagast oft þegar þau verða eldri. Ef barni þínu líður betur þegar það tekur Gaviscon (meinlaust lyf), get ég ekki séð ástæðu til að leggja frekari rannsóknir á barnið á þessu stigi. Það er mjög líklegt að þær munu ekki breyta miklu varðandi meðferðina. Hins vegar er geislaáhrif mjög lítil orðin af hefðbundnum röntgenmyndum og ekki ástæða til að óttast það í sjálfu sér. Rétt að fylgjast vel með barni þínu og endurskoða rannsóknir og meðferð ef því vegnar ekki vel.

Kveðja,
Ásgeir Theodórs, sérfræðingur í meltingarfærum.