7 mánaða og léttist

Spurning:

Góðan daginn.

Sæl.

Við erum með 7 mánaða stúlku sem er enn á brjósti. Við erum byrjuð að gefa henni graut og annan barnamat en hún hefur lítillega sveigst af sinni þyngdarkúrfu. Vandamálið er að hún virðist ekki hafa neinn áhuga á matnum og það litla sem kemst ofan í hana fer sömu leið upp úr henni eftir smá stund. Svona hefur þetta gengið í nokkrar vikur. Það er greinilegt að hún kúgast við gjafirnar, jafnvel þótt um lítið magn sé að ræða. Hún var með einhver magaóþægindi fyrstu 4 mánuðina og ældi á hverjum degi en var annars mjög hress og þyngdist nokkuð eðlilega. Eldri systir hennar var alveg laus við slíkt og áttum við aldrei í erfiðleikum við að mata hana. Sú litla fer til dagmömmu eftir rúman mánuð og því erum við orðin örlítið stressuð að hún vilji ekki borða neitt.

Bestu kveðjur með von um ráð.

Svar:

Sæl.

Það er ekki óalgengt að dálítinn tíma taki fyrir börn að venjast fastri fæðu. Ef byrjað er með dálítið vel þynntum graut eða mauki ráða þau oftast betur við matinn en ef hann er þykkur. Þess þarf og að gæta að ekki sé um mjög bragðmikinn eða ofnæmisvekjandi mat að ræða. Sumir barnagrautar innihalda bragðefni og mjólkurduft sem getur farið illa í börn. Lesið því vel á umbúðirnar og sjáið til þess að einungis sé um hreint korn að ræða eða eina tegund ávaxta, ef um krukkumat er að ræða. Gefið einungis eina tegund í einu þar til hún hefur vanist. Það gerir ekkert til þótt um dálítið einhæft fæði sé að ræða ef barnið heldur áfram á brjósti. Brjóstamjólkin bætir upp það sem á kann að vanta í fæðunni. Þar til stúlkan er farin að borða heilar máltíðir verður brjóstamjólkin að vera hennar aðalfæða og maturinn sem viðbót. Ástæða þess að hún er að sveigja niður af vaxtarkúrfunni gæti verið að hún tekur brjóstið sjaldnar og styttra en áður og er ekki farin að fá nægilega mikla fasta fæðu til að jafna það út. Því miður er fátt sem hægt er að gera til að venja hana hraðar á föstu fæðuna, annað en að þynna hana vel út með brjóstamjólk eða vatni, athuga að maukið sé við líkamshita (köld fæða eykur líkur á uppköstum), gefa lítið í einu og þá e.t.v. oftar yfir daginn og athuga að maturinn sé ekki bragðsterkur eða með einhverjum efnum sem barnið þolir illa.

Ef stúlkan heldur áfram að þola fæðu svona illa og sveigir enn af kúrfunni verðið þið að láta lækni líta á hana – frekar fyrr en seinna. En vonandi er þetta bara eitthvað sem hún þarf að komast yfir og batnar með auknum þroska.

Gangi ykkur vel.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir