Spurning:
Ég er 19 ára og er komin 7 vikur á leið og hef nokkrar spurningar.
Ég er mikil hestakona, er í lagi að fara á hestbak á meðgöngu? Er í lagi að fara í ljós? Ég er með naflalokk, hvenær á ég að taka hann úr?
Svar:
Ef þú ert með sæmilega þýðan og hlýðinn hest og meðgangan er eðlileg ætti þér að vera óhætt að stunda hestamennskuna eitthvað áfram. Flestar konur hætta að fara á bak þegar þær eru komnar um 25 til 30 vikur á leið en stundum þarf að hætta fyrr, t.d. ef koma samdrættir eða grindarverkir. Þú verður soldið að finna það sjálf hvenær er nóg komið. Hvað varðar ljósalampana þá eru margar fyrirspurnir á Doktor.is helgaðar þeirri spurningu. Í stuttu máli er hætt við litabreytingum í húðinni og hætta á ofhitnun sem getur verið barninu skaðleg stundi kona ljósaböð á meðgöngu. Naflalokkinn tekur þú bara úr þegar þér hentar. Það kemur tog á magann þegar legið stækkar og þá finnst flestum óþægilegt að vera með lokk.
Kveðja, Dagný Zoega, ljósmóðir