76 ára móðir mín

Góðan dag,
Mamma er búin að vera mjög slöpp, þreytt og lystlaus í rúma viku. Hún fékk sár í nára og fékk pensilín sem hún var síðan með ofnæmi fyrir. Hún þurfti að fá vökva í æð og var nótt á spítala og svo send heim, þetta var á fimmtudaginn í síðustu viku. Hún er ekkert að braggast, systir mín fór með hana á heilsugæsluna í morgun þar var henni bara sagt að reyna að borða og hreyfa sig. Hún var algjörlega búin eftir heimsóknina og þurfti að leggja sig.
Mamma er kona sem hefur alltaf gengið í 1klst hið minnsta á dag, grönn og mjög hraust. Mætir í leikfimi, sund og línudans. Þetta er algjörlega óeðlilegt og við orðin áhyggjufull. Hún finnur hvergi til segir hún en stendur varla undir sjálfri sér. Hvað getur verið að henni.

Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina

Fólk getur verið misjafnlega lengi að ná sér eftir veikindi, fer eftir eðli veikinda og hversu vel maður hefur náð að halda orku og úthaldi samfara veikindum. Næring er líka stór þáttur í bataferlinu, nái maður illa að nærast getur það t.d. hægt á gróanda í sárum og maður missir allt þrek. Haldið að henni vökva og næringu því ef hún nær ekki að drekka og borða vel, þá missir hún fljótt það litla þrek sem hún er með. Ég myndi ráðleggja ykkur að fara með hana til læknis og óska sérstaklega eftir því að hún verði unnin upp og skoðuð almennilega, fá blóðprufur og sjá að sárið sé í góðum farveg. Kannski þarf hún bara að fá vökva í æð aðeins lengur til að koma sér á fætur ef illa gengur að nærast um munn.

Gangi ykkur vel.

Thlema Kristjánsdóttir, hjúkrunarfræðingur