8 vikna, AD-dropa eða lýsi?

Spurning:
Hæ, hæ.
Ég er með spurningu hvort ég ætti að gefa syni mínum AD dropa eða lýsi? (hann er 8 vikna). Ég hef heyrt að AD droparnir geti valdi ofnæmi hjá börnum. Hjúkrunafræðingurinn sem ég fer til með hann segir að ég eigi að gefa honum AD dropana en mér er mjög illa við það útaf því sem ég hef heyrt. Svo hvað á ég að gera? Með fyrir fram þökk

Svar:
Mælt er með notkun AD dropa frekar en lýsis a.m.k. fram yfir eins árs afmæli barnsins. Það er afar sjaldgæft að fram komi ofnæmi fyrir AD vítamíndropum en það það kemur þó fyrir. Olían sem vítamínið er í er hnetuolía og hnetur eru algengur ofnæmisvaldur. Hins vegar er fiskur það einnig og lýsið er unnið úr fiski og aldrei alveg frítt við ofnæmisvaldinn. Einnig þola börn það oft verr og æla því og sú lykt næst ekki úr fatnaði.

Sé mikið um ofnæmi í fjölskyldunum getur því verið erfitt að velja hvaða vítamín á að nota en ekki er ráðlegt að sleppa auka D vítamíni úr fæðu íslenskra barna þar sem hætta er á skorti vegna sólarleysis. Taki móðir með barn á brjósti RDS af lýsi eykur hún þó magn D vítamíns í mjólkinni og þar með inntöku barnsins og það er til bóta þótt það sé ekki nóg. Sé fjölskyldan sæmilega laus við ofnæmi er hins vegar lítið að óttast og alveg óhætt að gefa AD dropana.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir