Á að vigta konur í mæðraeftirliti?

Spurning:
Mig langar að spyrja þig um hvort það sé nauðsynlegt að vigta konu á meðgöngu í mæðraeftirliti?

Svar:
Lengi vel var álitið alveg nauðsynlegt að fylgjast með vigt konunnar á meðgöngu. Það er nú orðið dálítið umdeilt og ekki talið bráðnauðsynlegt nema konan fari að safna á sig bjúg eða fitni óeðlilega mikið. Talið er óæskilegt að þyngjast um meira en 15 kíló á meðgöngu og mikil þyngdaraukning getur bent til undirliggjandi vandamála eins og sykursýki. Eins getur lítil þyngdaraukning bent til sjúkleika hjá móður eða vandamála hjá fóstrinu. Semdu við ljósmóðurina þína um að þú skulir bara sjálf fylgjast með vigtinni og leitaðu ráða hjá henni ef þú stefnir í mikla þyngdaraukningu, þyngist lítið eða ferð að safna á þig bjúg.

Kveðja, Dagný Zoega, ljósmóðir