Á ég að hætta með hana á brjósti?

Spurning:
Góða kvöldið.
Ég er í smá vandræðum. Sko, málið er að ég á dóttur sem er 16 vikna. Hún er alveg yndisleg og sefur allar nætur. Eftir að hún byrjaði að sofa án þess að vakna á nóttunni þá hefur minnkað svo mikið mjólkurframleiðslan hjá mér. Ég vil helst ekki fara að raska þessum svefni hjá henni enda finnst mér yndislegt að geta sofið allar nætur. Ég byrjaði að gefa henni ábót úr pela þegar hún var 8 vikna en núna er það bara orðið þannig að hún fær ekki nóg hjá mér nema í 1-2 gjöfum á dag. Annars þarf ég alltaf að gefa henni þurrmjólk og hún verður svo pirruð á mér ef lítið er í brjóstunum. Ég hef verið að hugsa svolítð um að hætta með hana á brjósti en svo fæ ég alltaf einhverja bakþanka og finnst ég svona eiginlega verða að vera með hana á brjósti í allavega 6 mánuði en ég er samt orðin svo lítið leið á brjóstagjöfinni. Er ég ómöguleg ef ég hætti með hana strax? Ég er búin að reyna að tala um þetta við manninn minn en honum er bara ,,alveg sama" og getur ekkert hjálpað mér við þetta 🙁
Hvað finnst þér ég ætti að gera?

Svar:
Ég væri hvorki fagleg eða heiðarleg ef ég segði að mér fyndist í lagi að hætta með barnið á brjósti 16 vikna gamalt. Hins vegar eruð þið greinilega komnar í ,,pelavítahringinn" og út úr honum er erfitt að losna nema með talsverðri vinnu – tíðum gjöfum og staðfestu – og spurningin er hvort þú ert tilbúin til þess. Sú litla sættir sig við það ef henni er boðið brjóst í hvert sinn sem hana langar að sjúga og þannig eykst aftur mjólkin en þá þyrftir þú að draga úr pelagjöfinni og vera mikið með hana á brjóstinu seinni hluta dagsins og fram á kvöld. En ákvörðunin um það hvort þú gefur henni brjóstið áfram eða setur hana á pela er alfarið þín og enginn sem getur ákveðið það fyrir þig.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir