Á ég að taka megrunarlyf?

Spurning:

Hæ, hæ.

Þegar ég varð ólétt þyngdist ég um 30 kg. Ég er búin að vera í megrun meira og minna í 9 mánuði og hef lést um 16 kg og er þokkalega ánægð með það. Ég var 94 kg og er nú 78 kg.
Mér finnst þetta ganga allt of hægt og bmi vægið mitt er 34, sem sagt alltof hátt. Getur þú ráðlagt mér einhver góð megrunarlyf? Ég hef stundað líkamrækt í 7 mánuði en vil að þetta gangi aðeins hraðar. Með fyrirfram þökk,

Ein óþolimóð.

Svar:

Sæl ein óþolinmóð. Ég mæli alls ekki með megrunarlyfjum. Ef til væri megrunarlyf sem virkaði værum við öll orðin tággrönn ekki satt? Þú hefur grennst um 16 kg á 9 mánuðum og það er bara mjög gott. Það er að meðaltali rúm 2 kg á mánuði. Það er einmitt mælt með að léttast um ca 1/2 kg á viku til að þyngdartapið sé varanlegt. Haltu bara áfram á þessari braut. Gættu þess að stunda fjölbreytta líkamsþjálfun 4-5x í viku og borða 1500-1800 h.e. á dag. Það dugar ekkert annað en þolinmæði og þrautsegja þegar aukakílóin eru annarsvegar. Þú ert á góðri leið, ekki gefast upp.

Kveðja,
Ágústa Johnson